vald.org

Jesús og Mad Max

8. mars 2004 | Jóhannes Björn

Það segir okkur allt um þroska mannkynsins að hatrammar deilur hafa staðið um kvikmynd Mel Gibson, The Passion of the Christ, sögu um atburði sem gerðust fyrir 2000 árum og menn óttast að kyndi undir gyðingahatri í dag! Myndin er heldur ekki nema í meðallagi góð og leggur höfuðáherslu á sýna frelsarann barinn í spað—það er hálfgerður Mad Max stíll á þessu en með meiri sadisma—sem væri í sjálfu sér í lagi ef allt endaði í einni alsherjar uppljómun og guðlegri fyrirgefningu (þegar öllu er á botninn hvolft þá á hann að hafa dáið fyrir syndir okkar allra). En myndin nær aldrei þessum hápunkti og eina sem hún skilur eftir er blóðbragð í munninum. Þegar maður sér bandarísku prestastéttina hefja þetta ofbeldi til skýjanna þá hlýtur að rifjast upp fyrir manni að hér mæla sömu menn og hafa verið að nauðga smástrákum í stórum stíl.

Allt er þetta mál enn fáránlegra vegna þess að Jesús var sjálfur gyðingur og boðaði allt aðra trú en þau fræði sem seinna urðu kristindómur. Það er í sjálfu sér ósköp lítið vitað um þennan mann og sumir fræðimenn halda því meira að segja fram að hann hafi aldrei verið til. Guðspjöllin sleppa mörgum lýsingum á Jesús. Var hann stór eða lítill? Fríður eða ófríður? Skeggjaður eða rakaður? Giftur eða ógiftur (rabbínar voru og eru yfirleitt alltaf kvæntir og ef Jesús var einhleypur þá hefði átt að vera einhver útskýring á því)?

Það er þó nokkuð öruggt að Jesús var raunverulegur einstaklingur og andlegur leiðtogi. Bretinn G.A. Wells hefur skrifað margar bækur um að Jesús sé þjóðsagnapersóna, t.d. The Historical Evidence for Jesus. Hann heldur því fram að samtímaheimildir um Jesús, það sáralitla sem rómverskir sagnfræðingar eins og t.d. Tacitus skrifuðu um hann, hafi verið falsaðar miklu seinna af kirkjunni. G.A. Wells hefur greinilega ekki kafað nógu djúpt því skrif Josephus, sagnfræðings sem fæddist árið 37 eða 38, sanna að Jesús var raunverulegur einstaklingur.

Josephus var gyðingur sem barðist í uppreisninni gegn Rómverjum árið 66 þegar musterið var jafnað við jörðu. Síðar gerðist hann Rómverskur borgari og skrifaði sögu gyðinga af mikilli nákvæmni. Hann var aldrei kristinn. Frásögn hans hefur hvað eftir annað verið staðfest af fornleyfafræðingum og því engin ástæða til að draga hana í efa. Josephus minnist á Jesús og segir líka að bróðir hans hafi verið beittur óréttlæti þegar hann var krossfestur árið 62. Þetta er mikilvægt vegna þess að löngu áður en kirkjan byrjaði að ritstýra eldri sagnfræðiritum þá lýsti kristinn sagnfræðingur, Origen, yfir undrun sinni á jákvæðum skrifum Josephus um bróður Jesús. Þess má geta í framhjáhlaupi að bróðir Jesús rak söfnuðinn í um 30 ár eftir krossfestingu Krists, en vegna þess að þetta var auðvitað gyðingasöfnuður þá hefur hlutverk hans aldrei verið viðurkennt af kirkjunni. Kristin kirkja eins og við þekkjum hana í dag var mótuð af Rómverja, Páli postula.

[Innskot 30. mars. Rétt er að taka fram, eins og ágætur lesandi benti á, að Páll var líka gyðingur. Sem ríkisþegn Rómar þá var hann í minni hættu en ella þegar hann boðaði fagnaðarerindið meðal trúvillinga (eins og gyðingar kölluðu alla sem játuðu aðra trú) og samband hans við Pétur og aðra foringja kirkjunnar var oft stormasamt. Þeir deildu m.a. um hvort villitrúarmenn yrðu líka að gerast gyðingar þegar þeir gengu í lið við hvíta Krist og hvort bæri að umskera þá.]

Enginn veit hvenær Jesús fæddist. Fyrsta manntalið sem fór fram í Júdeu var árið 6 eða seinna, að þeirri einföldu ástæðu að Rómverjar lögðu undir sig landið það ár. Lúkasarguðspjall fer því með rangt mál í þessu tilfelli. Gangstætt því er margir halda, þá voru guðspjöllin ekki skrifuð af postulum Jesús aða einu sinni samtíðarmönnum hans. Oft þekkja höfundar þeirra ekki landið (þriggja daga ferð tekur einn dag) eða gera sér grein fyrir lögum gyðinga (kona sem aldrei hafði rétt til að höfða mál missir þann rétt). Guðspjöllin virðast vera skrifuð á milli áranna 100 og 200.

Ef við reynum að negla niður fæðingarár Jesús með því að styðjast við heimildir um að óvenjuleg stjarna hafi glampað á himni á fæðingardegi frelsarans, þá koma þrír möguleikar til greina:

  1. Rit frá tímum Han keisaraættarinnar í Kína segja okkur að stjörnufræðingar hafi í samfellt 17 daga séð nóvu (stjörnu sem allt í einu blossar upp hundraðþúsundfalt en dvínar svo næst). Þetta var árið 5.
  2. Eins og þýski stjörnufræðingurinn Kepler reiknaði út 1603 þá höfðu Satúrnus og Júpíter sömu miðbaugslengd og virtust því falla saman á himinkúlunni árið 7.
  3. Halleyhalastjarnan flaug hjá árið 12.

Við vitum sama og ekki neitt um æsku og uppvöxt Jesús. Móðir hans, María, var sennilega ekki nema um 14 ára þegar hún var gift miklu eldri manni, Jósep, sem var byggingameistari (tungumálasérfræðingar gyðinga segja að orðið "trésmiður" sé ekki nógu nákvæmt). Jesús var elstur margra barna og sennilega dó Jósep þegar hann var enn táningur. Ef það er rétt þá útskýrir það hvers vegna hann kemur svo seint fram á sjónarsviðið. Sem elsta syni hefði honum borið skilda til að vera höfuð fjölskyldunnar þar til næstelsti bróðirinn náði þroska til að taka við því hlutverki.

Þegar Jóhannes skírir Jesús þá tekur hann strax eftir að hér er óvenjulegur maður á ferð. Jesús virðist líka hafa verið fljótur að afla sér fylgis því eftir að Jóhannes skírari er tekinn af lífi þá er mjög líklega skorað á hann að gerast foringi í frelsisstríðinu við Rómverja. Þetta gerðist á fundinum á fjallinu og það er mikilvægt að taka eftir að það voru aðeins karlmenn viðstaddir. Svar Jesús við þessari málaleitan má lesa í fjallræðunni. Eftir þann reiðilestur lætur hann sig hverfa út í eyðimörkina á meðan menn eru að róast.

Þegar Jesús prédikaði þá var hann meðvitaður um að meðal viðstaddra voru alltaf einstaklingar sem biðu eftir að hann segði eitthvað misjafnt um Rómverja svo þeir gætu kjaftað frá og fengið borgun fyrir. Jesús passaði sig því alltaf vel og notaði dæmisögur óspart. Þegar hann var t.d. spurður um réttlæti þess að gyðingar borguðu Rómverjum skatt, þá var það gróf tilraun til að snara hann. Það hlýtur að hafa farið hrollur um viðstadda því skatturinn var hataður en þeir sem borguðu hann ekki voru hreinlega drepnir. Svar Jesús sýnir að hann var snillingur. Fyrri hluti svarsins, að fólk skuli borga keisaranum það sem honum ber, var gert algjörlega ómerkt með seinni hlutanum um að borga guði það sem guði ber … en allir voru ánægðir. Rómverjar fengu sitt en trúaðir gyðingar vissu að guð var keisaranum æðri.

Það er nærri því öruggt að Jesús skipulagði sína eigin krossfestingu. Með því ætlaði hann að láta spádómana rætast, en hann hafði líka fullan hug á að lifa af dauðadóminn. Til að koma því í kring þá varð að tímasetja krossfestinguna rétt fyrir helgasta dag ársins, þegar dauðir eða hálfdauðir menn voru ekki látnir hanga á krossum heldur teknir niður fyrir sólarlag. Sagan er öll sögð í biblíunni.

Jesús fór aldrei í gröfina sem honum var ætluð. Ef sú saga væri seinni tíma uppspuni þá hefðu tvær konur aldrei verið notaðar sem vitni. Konur voru ekki vitnisbærar á þessum tíma. Sumir vilja halda því fram að hann hafi sloppið og flutt til útlanda. Aðrir segja að hann hafi öll trúboðsárin verið kvæntur Maríu Magdalene og ritskoðarar seinni tíma hafi breytt þeirri staðreynd og í leiðinni reynt að sverta mannorð hennar eins mikið og mögulegt var. Ein athyglisverð kenning er á þá leið að musterisriddarar krossferðanna (Knight Templars) hafi fundið sannanir fyrir fyrrgreindu hjónabandi þegar þeir grófu upp fornminjar í Jerúsalem og hafi notað þau viðkvæmu gögn til þess að fjárkúga Páfagarð. Svar kirkjunnar var að nota rétt augnablik til þess að bannfæra og drepa nærri því alla musterisriddara.

Kristin kirkja í dag á sennilega litla samleið með hugmyndum Jesús um tilveruna. Frá sjónarhóli gyðinga þá eru hugmyndir á borð við "heilaga þrenningu" og "son Guðs" hreint guðlast, enda hlutir sem menn voru að malla eftir árið 300. Það var Rómverji, Páll postuli, sem mest og best smíðaði kristna trú og þegar menn deildu árið 322 um hvort kalla mætti Jesús son Guðs, þá var það annar Rómverji, Konstantín mikli (sem nýlega hafði soðið ólétta eiginkonu sína í baðkari), sem réði úrslitum um að sú varð raunin.

Hver var grundvallarskoðun Jesús á tilverunni? Eitt af því sem ritskoðarar kirkjunnar héldu til baka þegar efni var valið í biblíuna var Tómasarguðspjall. Eins og hin guðspjöllin þá var það skrifað á milli 100 og 200 og það inniheldur 114 tilvitnanir í orð Jesús. Kannski lýsir þessi tilvitnun í Tómasarguðspjalli best andlegu viðhorfi meistarans:

Jesús sagði, ´Ef leiðtogar ykkar segja við ykkur: "Sjá, konungsríkið er á himnum," þá hafa fuglar himinsins forgang yfir ykkur. Ef þeir segja við ykkur, "Það er í sjónum," þá hafa fiskarnir forgang yfir ykkur. Hitt er rétt, að konungsríkið er inn í ykkur og það er fyrir utan ykkur. Þegar þið lærið að þekkja sjálf ykkur, þá er skilningurinn ykkar.´