vald.org

Er heimskreppa í uppsiglingu—framhald

12. mars 2004 | Jóhannes Björn

Í gær, 11. mars, féll verð hlutabréfa á bandaríska markaðinum um 1.6% og Dow Jones hefur því tapað nærri 500 punktum á aðeins fjórum dögum.

Auk skjálfta í mönnum vegna hryðjuverkanna á Spáni, þá áttu tvær miður skemmtilegar hagtölur sem voru birtar í dag þátt í þessu hrapi: (1) Þegar bílasala er undanskilin þá stóð verslun vöru af öllu tagi í stað í síðasta mánuði, sem bendir ekki beint til þess að fleiri atvinnutækifæri séu í fæðingu. (2) Verð á innfluttu hráefni er að hækka óeðlilega hratt, sem á endanum getur skilað sér í hærra verði á tilbúnum vörum. Það setur aftur pressu á vexti að hækka, sem hækkar fasteignalán og drepur fasteignamarkaðinn … og þannig koll af kolli. Ástæðan fyrir hækkandi heimsmarkaðsverði á t.d. kopar og stáli er óeðlilega mikill innflutningur Kínverja. Þeir nota sífellt meira af þessum málmum og eru líka byrjaðir að safna miklum byrgðum.

Það verður aldrei of oft endurtekið að bandaríska hagkerfið verður að skapa tvær milljónir nýrra starfa á þessu ári og fjórar milljónir á næstu tveimur til að komist verði hjá meir háttar erfiðleikum. Ríkið skuldar $7 billjónir og sekkur dýpra, almenningur skuldar $3 billjónir. Allir hafa stílað upp á að uppgangur í efnahagslífinu lyfti þeim yfir skuldafenið. Gróði fyrirtækja hefur aukist á síðustu árum vegna meiri framleiðni, sem kemur til vegna betri tækni, meira vinnuálags (fólk í BNA vinnur um 20% lengri vinnudag en t.d. Þjóðverjar) og flutning sífellt betri starfa til staða eins og Indlands. En tekjur fyrirtækja á Bandaríkjamarkaði geta einfaldlega ekki haldið áfram að aukast við ríkjandi ástand.

Þegar BNA hóstar, þá fær allur heimurinn kvef. Þess vegna er mikilvægt að fylgjast með þessum málum.