vald.org

Bush og Kerry—beinabræður! (Fyrri hluti)

16. mars 2004 | Jóhannes Björn

Nýleg soðannakönnun í Bandaríkjunum leiddi í ljós að þjóðin hefur ekki í manna minnum sýnt eins mikinn tvíklofa í pólitík. Annað hvort eru menn heitir með Bush eða ákafir stuðningsmenn Kerry. Ekki nema 8% sögðust vera óákveðnir [könnun meðal líklegra kjósenda … aðrar kannanir eru út í hött því nærri helmingur kjósenda situr heima á kjördag], sem er einstakt þegar langir átta mánuðir eru til kosninga. Þessar tölur gætu bent til þess að það sé mikill munur á stefnuskrá þessara tveggja kristnu manna sem báðir eru á sextugsaldri, eru hvítir sem mjöll, útskrifuðust báðir frá Yale (1966 og 1968) og eru frá efnuðum fjölskyldum með rætur á norðausturströnd landsins. Auðvitað geta menn sem spretta úr svipuðu umhverfi haft gjörólíkar skoðanir, en Bush og Kerry liggja á dálitlu leyndarmáli sem sýnir á þeim allt aðra hlið en þá sem stöðugt er auglýst í imbakassanum. Þeir eru báðir í ótrúlega fámennu leynifélagi sem er vægast sagt mjög valdamikið. Þeir eru beinabræður—félagar í Skull & Bones.

Hvorki Kerry eða Bush eiga eftir að tala mikið um þessa óþægilegu staðreynd vegna þess að meðlimir sverja þess eið segja aldrei stakt orð um regluna. Þeir mega ekki viðurkenna þátttöku sína eða nefna nöfn annarra reglubræðra. Og þótt hlutverk Skull & Bones sé vissulega að hjálpa öðrum reglubræðrum að klifra metorðastigann (baktryggja sig á kostnað allra annarra í samfélaginu), þá vinnur klíkan líka að markmiðum sem ekki eru eins ljós.

Skull & Bones var stofnað árið 1833 að Yale af William H. Russel og Alphonso Taft og virðist hafa verið bandaríska útgáfa illræmds leynifélags frá Bæjaralandi sem hét "Hinir upplýstu." Stofnandi þess var Adam Weishaupt, prófessor við háskólann í Ingolstadt. Þegar stjórnvöld komust yfir skjöl "hinna upplýstu" árið 1785 og aftur 1787 þá kom í ljós að markmið þess var ekkert minna en að leggja undir sig stjórnsýslu heimsins. Þótt slíkt takmark virðist í fljótu bragði vera út í hött, þá var félagið búið að grafa um sig á ótrúlega mörgum stöðum og hafði komið fjölda háttsettra manna til valda. "Hinir upplýstu" notuðu þá aðferð gefa öllum félögum dulnefni. Það er athyglisvert vegna þess að þegar menn ganga í Skull & Bones þá deyja þeir táknrænum dauða og fæðast inn í söfnuðinn með nýtt nafn.

Frá upphafi hafa 15 nýir meðlimir gengið í Skull & Bones árlega. Aldrei fleiri og aldrei færri. Miðað við fólksfjölda, ef við reynum til gamans að gera okkur grein fyrir hve hlægilega lág sú tala það er í Bandaríkjunum, þá þýðir það að ef sambærilegt félag væri til á Íslandi þá gengi einn maður í það á 66 ára fresti. Þrátt fyrir fámennið—og þá staðreynd að aðeins fjórðungur félaga virðist helga sig starfinu alla ævi (nýskipan heimsmála, New World Order, er ekki við allra hæfi)—þá hefur beinabræðrum tekist að framleiða þrjá forseta—Taft, Bush og W. Bush—auk fjölda annarra áhrifamanna. Ogá þessu herrans ári 2004 berjast tveir beinabræður um embættið!

Það sem vitað er um Skull & Bones kemur frá óvirkum félögum sem, án þess að láta nafn síns getið, hafa lekið upplýsingum (t.d. félagatali frá upphafi) til ákveðinna manna. Þar til nýlega þá hafði nærri því ekkert birst opinberlega um beinabræður (þeir eru oft kallaðir "Bonesmen") og þegar leynifélagið var 150 ára þá höfðu t.d. aðeins tvær greinar birst um það—í The Iconoclast 13. október 1873 og Esquire í september 1977. Af félagatali má sjá að 20—30 fjölskyldur sem upphaflega komu til BNA á milli 1630 og 1660 leika höfuðhlutverk í Skull & Bones. Lord fjölskyldan er ágætt dæmi:

Önnur gömul nöfn í félagatali S & B eru Whitney, Phelps, Wadsworth, Allen, Bundy, Adams, Harriman, Payne, Davison og einn Rockefeller. Prescott Bush, afi sitjandi forseta, gekk í félagið 1917, George Bush 1948 og George W. Bush 1968. Í fyrrnefndri grein í Esquire hefur höfundur hennar, Ron Rosenbaum (sem útskrifaðist frá Yale og hefur rannsakað regluna meira en flestir aðrir) þetta að segja um völd beinabræðra:

Reglan er heimur útaf fyrir sig … Völd beinbræðra eru gífurleg. Þeir hafa ítök á öllum valdasviðum þjóðfélagsins. Takið eftir—þetta er eins og að reyna að rannsaka mafíuna. Munið að það er líka leynifélag.

Ferill þeirra Bush feðga er e.t.v. skýrasta dæmið um hvernig meðalmennskan getur sigrað ef nógu sterkir aðilar standa í bakgrunninum. Varla nokkur hlutlaus maður mundi mótmæla þeirri fullyrðingu að það mætti finna fjölda hæfari manna til að gegna embætti forseta þar í landi. Skoðum aðeins feril gamla forsetans.

Góðir stjórnmálamenn hafa þrjá eiginleika sem koma þeim á toppinn: (1) Þeir eru mælskir, (2) snjallir og (3) kunna vel við sig meðal fólks og ná tengslum við það. Gamli Bush er vissulega snjallari en sonurinn, en hann hefur alltaf verið málhaltur og líður greinilega illa þegar hann neyðist til þess að umgangast pöpulinn. Pólitískur ferill hann gekk því alltaf frekar illa og í bylgjum, þótt auðvitað hljómi það eins og þversögn þegar rætt eru um fyrrverandi forseta öflugasta ríki heims.

Prescott Bush var öldungadeildarþingmaður og George Bush reyndi að feta í fótspor hans 1964 en tapaði fyrir Yarborough í Texas. Tveimur árum síðar, með hjálp fjölskyldu og beinabræðra, var honum stillt upp í öruggu kjördæmi nálægt Houston og hann komst á þing (ekki öldungadeildina þó). Þótt Bush væri nýgræðingur á þingi þá fékk hann öllum á óvart feitan bita—sæti í einni áhrifamestu nefnd þingsins, House Ways and Means Committee. Þessi heiður virðist hafa stigið Bush til höfuðs því hann yfirgaf þingið og reyndi aftur 1970 að komast inn í öldungadeildina. Hann tapaði þeirri kosningu. Bush hafði sýnt dómgreindarleysi með því að varpa frá sér valdamiklu þingsæti og flana út í nýja baráttu allt of snemma. Þetta hefði endað stjórnmálaferil venjulegra manna, en beinabræður toguðu í spottana og í febrúar 1971 var hann gerður að sendiherra BNA hjá Sameinuðu þjóðunum. Í janúar 1973 fékk svokallaður stjórnmálaferill Bush enn blóðgjöf þegar hann var gerður að formanni miðnefndar Repúblikanaflokksins. Eftir 18 mánaða litlausan feril hjá flokknum (sem tapaði forsetaembættinu til Carter) þá var Bush gerður að sendiherra í Kína, þar sem hann undi sér ekki lengur en eitt ár. Næsta skref í uppbyggingu Bush var að gera hann að yfirmanni CIA (beinabræður hafa alltaf verið mjög sterkir þar, t.d. í gegnum Bundy) þótt hann hefði enga reynslu á sviði njósna—eða eins og Conservative Digest orðaði það: "… hann gekk í þoku varðandi einföldustu undirstöðuatriði." Sennilega tók Bush þetta starf vegna þess að það leit vel út pappír, en hann sleppti því eftir eitt ár (1977) og settist í stjórn First International Bankshares í Texas. Árið 1980 var hann gerður að varaforsetaefni flokksins og náði toppnum í ljóma Reagan. Sjaldan hefur málhaltur stjórnmálamaður, sem oft sýnir neikvæð líkamleg viðbrögð þegar pöpullinn nálgast, náð svo langt.