vald.org

Bush og Kerry—beinabræður! (Seinni hluti)

19. mars 2004 | Jóhannes Björn

Öll leynifélög sem byggja á bræðralagi en eru ekki bara pólitískir klúbbar nota einhvers konar dulspeki eða dýrkun til að sameina félagsmenn. Helgisiðir Frímúrara, svo dæmi sé tekið, virðast ekki mjög magnaðir þegar maður les um þá í bók (32ja gráðu menn sem hafa yfirgefið regluna hafa lýst þessu), en töluð orð og einkennilegar athafnir segja aðeins hálfa söguna. Það sem hefur mest áhrif á einstakling sem verið er að víga er innbyggt afl, einhver magnaður kraftur, sem hópurinn allur geislar frá sér við þessar athafnir. Orð geta varla lýst þessari lífsreynslu.

Það sem vitað er um helgisiði Skull & Bones kemur frá óvirkum félögum og riti sem nokkrir menn skrifuðu eftir að hafa brotist inn í byggingu beinbræðra að Yale 29. september 1876. Samkvæmt þessum heimildum þá eru beinagrindur og hauskúpur í húsinu. Ein hauskúpa fyrir miðju er lýst upp allan sólarhringinn með logandi ljósi. Þessi hauskúpa virðist vera af manni sem hét "Sperry" því legsteinn með því nafni er skammt undan. Á veggjum eru myndir af stofnendum frá 1833 ásamt myndum af þýskum reglubræðrum. Allur borðbúnaður er með myndum af hauskúpu og krosslögðum leggjum. Af innrömmuðu skjali á vegg má lesa: "Frá þýsku stúkunni. Afhent af stofnanda D.C. Gilman af D. 50." (Hvað "D. 50" þýðir er ekki vitað). Stór standklukka stendur við vegg og tifar til að minna menn stöðugt á fallvaltleika lífsins.

Vígsluathöfnin fer fram eitthvað á þá leið að nýliðinn er fyrst borinn nakinn inn í kistu. Beinabræður, sem eru klæddir í kufla með beinaskreytingum, tóna og láta öllum illum látum yfir kistunni. Nýliðinn er pressaður ákaft af hópnum að opinbera ÖLL leyndamál sem varða kynlíf hans. Hópurinn hótar að myrða nýliðann og hnífum er brugðið á loft. Þetta verður að vera svo eðlilegt að nýliðinn sé virkilega hræddur um líf sitt. Næst er honum hent í forarpytt og velt duglega upp úr leðju. Eftir öll þessi ósköp rís nýliðinn úr forinni og er endurborinn inn í regluna með nýtt nafn (og nýju nöfnin eru mjög svipuð þeim sem menn fengu þegar þeir gengu í Illuminati … reglu "Hina upplýstu). Hann er nýr beinabróðir og er klæddur í kufl skreyttan beinagrind. Beini áletruðu nafni hans er kastað í beinahrúgu. Hann er genginn í bræðralag, líkt og "Hinir upplýstu" orðuðu það, og eins og þeir sver að segja aldrei neitt. Leynd er náttúrulega óþörf nema menn hafi eitthvað að fela. Árið 1980 fengu allir nýir beinabræður í veganesti $15.000 (tala sem sjálfsagt breytist með verðbólgunni) og standklukku. Allar vígsluathafnir fara fram í Húsi beinabræðra að Yale, en eftir það hittast reglubræður formlega á herrasetri þeirra á Deer Iland [ekki stafað "Island"] sem er á St. Lawrence River í New York fylki.

Skull & Bones hefur gengið betur en flestu öðrum að lyfta virkum reglubræðrum til æðstu metorða. Miðað við hve hlægilega fáir eru í söfnuðinum þá eru afrek þeirra allt að því ofurmannleg. Á hverjum tíma eru ekki nema 500–600 beinabræður á lífi og aðeins um 150 þeirra virkir (maður gæti sagt ofvirkir!). Þrír forsetar Bandaríkjanna og Kerry (sem við skulum vona að sé óvirkur) líka. Beinabræður hafa allt frá þeim tíma er svokallaðar góðgerðastofnanir hófu göngu sína í BNA (þegar ofurríkt fólk þurfti að skjóta sér undan tekjuskatti, en hann var innleiddur 1913) haft mikil ítök í þeim öflugustu. Þessar stofnanir gefa mikið af peningum og því ómissandi fyrir fólk sem hefur ákveðnar hugmyndir um hvernig á að móta pöpulinn svo hann sætti sig við að þjóna "betra" fólki. Beinabræður kunna líka vel við sig í ríkum einkabönkum og á tímabili sátu t.d. átta þeirra í stjórn Brown Brothers Harriman. Harold Stanley (Skull & Bones 1908) var einn af aðaleigendum Morgan, Stanley & Co.

Eins og bent var á í bókinni 1984 þá er beittasta vopn þeirra er vilja ráða örlögum þjóða að komast í þá aðstöðu að geta skrifað um atburði fortíðarinnar. Við lærum af reynslunni og þeir sem er í aðstöðu til að túlka þessa reynslu ráða miklu. Beinabræður stofnuðu bæði American Historical Association og American Economic Association—tvær stofnanir sem hafa mótað hugmyndir fólks um sögu og efnahagskerfi BNA. Sem dæmi um hvernig hlutirnir ganga fyrir sig, þá var Andrew Dickens White (Skull & Bones) fyrsti forseti American Historical Society. Hann gerði beinabróður, Daniel C. Gilman að fyrsta stjórnarformanni Johns Hopkins háskólans. Gilman varð síðan stjórnarformaður Carnegie Foundation (góðgerðastofnun). Eins og kemur fram í Falið vald þá seldi Rockefeller óhemju olíu til Hitlers öll stríðsárin. Til að koma í veg fyrir að óháðir fræðimenn færu að skrifa um þessi viðskipti og viðskipti fjölda annarra bandarískra fyrirtækja við Hitler—en að mati baktjaldamanna þá hafði allt of hlutlaus fræðimennska einmitt átt sér stað eftir fyrri heimstyrjöldina (sjá t.d. meistaraverk Philip Noel-Baker frá 1937, The Private Manufacture of Armaments)—þá gaf Rockefeller Foundation $139.000 árið 1946 til að láta skrifa opinbera sögu seinni heimstyrjaldarinnar.

Oft þurfa beinabræður ekki að eyða krónu þegar þeir fá aðra til þess að þoka hlutunum í "rétta" átt. Virðulegir og valdamiklir menn af góðum ættum sem má rekja til 1630–1660 eiga samskipti við fjölda einstaklinga sem dreymir um að komast í innsta hringinn. Það er þessi draumur eða von sem gerir þá að leir í höndum gamalla meistara. Sagnfræðingurinn Carroll Quigley—maðurinn sem lýsti pólitísku leynifélögunum út í hörgul í Tragedy and Hope eftir að baktjaldamenn leyfðu honum að lesa leyniskjöl þeirra í tvö ár—já, maðurinn sem Bill Clinton þakkaði sérstaklega í mikilvægustu ræðu sinni fram að þeim tíma, þegar hann tók við útnefningu flokksins til forsetaframboðs 1992—kemur inn á þetta í bók sinni The Group:

… innsti hringur náinna félaga var vissulega meðvitaður um að þeir unnu að sama markmiði og að fyrir hendi var ytri hringur fjölda einstaklinga sem innri hringurinn stýrði í gegnum persónuleg samskipti eða með yfirlætislegri góðvild og félagslegum þrýstingi. Það er líklegt að flestir í ytri hringnum hafi ekki vitað að þeir voru handbendi innsta hringsins. (bls. 30)

Þar til fyrir um fimm árum þá heyrðist varla orð um Skull & Bones í hefðbundnum fjölmiðlum. Nú hefur þetta breyst og sennilega verða Bush og Kerry báðir spurðir um regluna fyrir kosningar. Þeir eiga eftir að muldra í barminn og í mesta lagi segja að landið sé fullt af hliðstæðum "klúbbum." Ekkert er meiri fjarstæða.