vald.org

Sjónhverfingar bankanna

25. mars 2004 | Jóhannes Björn

Burt séð frá hvort menn fagna falli kolkrabbans eða syrgja hann þá nær það engri átt að bankar komist upp með að stunda brask á hlutabréfamarkaði. Það eru margar ástæður fyrir þessu.

Málið er í sjálfu sér skelfilega einfalt og grundvallast á tveim staðreyndum. (1) Bankakerfið er uppspretta allra peninga í þjóðfélaginu og (2) bókhald bankanna byggir á þeirri staðreynd að öll lán og allir tékkar sem bankinn skrifar eru nýir peningar í umferð. Þegar banki kaupir skrifborð eða skipafélag þá gefur hann út ávísun er túlkast sem skuld í bókhaldinu, en skrifborðið eða skipafélagið er í staðinn fært til eignar. Eina sem stöðvar hvern einstakan banka fyrir sig í því að kaupa bókstaflega öll verðmæti landsins er sú staðreynd að bankarnir verða að fjárfesta í takt við veltu þeirra. Ef það væri aðeins einn banki í landinu þá gæti hann, tæknilega séð, strax keypt öll fyrirtæki landsins.

Til að gera dæmið einfalt þá getum við ímyndað okkur lítið land með aðeins tvo banka. Banki A er með helmingi meiri veltu en banki B. Ef banki A byggir marmarahöll fyrir 600 milljónir þá getur banki B byggt aðra fyrir 300 milljónir. Banki A borgar fyrir höllina með því að skrifa fjölda tékka fyrir samtals 600 milljónir og jafnar því næst dæmið í bókhaldinu með því að færa höllina til eignar. En af því að banki A veltir helmingi meira en banki B þá skila tékkar fyrir 400 milljónir sér til baka inn í hann aftur en 200 milljónir koma inn í banka B. Banki B—með helmingi minni veltu—byggir fyrir 300 milljónir og 200 milljónir af því fara inn í banka A. Hvernig lítur dæmið út?

Banki A: Gaf út tékka fyrir 600 milljónir. Fær 400 milljónir til baka. 200 milljónir lenda í banka B.

Banki B: Gaf út tékka fyrir 300 milljónir. Fær 100 milljónir til baka. 200 milljónir lenda í banka A.

Þeir gera upp reikningana og hallirnar kostuðu ekki neitt!

Þegar málið er skoðað í heild þá ætti öllum að vera ljóst að það felst gífurleg hætta í því að hleypa bankakerfinu inn á frjálsan markað og leyfa því að kaupa hlutabréf í samkeppni við venjulegt fólk. Ef allt bankakerfið eykur veltuna á sama tíma—og það er eðlileg þróun ef bankamenn almennt sjá sér leik á borði að græða verulega—þá er ekkert til að koma í veg fyrir að kerfið stórgræði á peningaframleiðslu. Aðrir þjóðfélagsþegnar eru ekki í aðstöðu til þess að stunda töfrabrögð af þessu tagi. Á endanum—ef þessi vitleysa er ekki stöðvuð í tíma—þá borga líka allir reikninginn með vaxandi verðbólgu.

Banki á aldrei að eiga önnur fyrirtæki eða fasteignir úti í bæ. Þegar banki neyðist vegna vanskila til þess að yfirtaka einhvern rekstur eða færa fasteign á sitt nafn, þá eiga að gilda strangar reglu um hvernig hann losar sig fljótt við reksturinn eða fasteignina. Það á að leggja blátt bann við að banki geti boðið meira í fyrirtæki eða fasteignir heldur en nemur þeirri upphæð sem bankinn hefur lánað. Bankinn á rétt á sínu, en á ekkert erindi inn á almennan markað þótt einhver starfsmaður bankans telji sig geta grætt með því að eignast fasteign eða fyrirtæki. Það eru vissulega nógu mikil forréttindi að fá að starfrækja banka þótt menn fái ekki líka að græða svívirðilegar summur með bókhaldsbrellum.