vald.org

Hvert stefnir Kína?

28. mars 2004 | Jóhannes Björn

Margir halda að Kína verði næsta stórveldi heimsins. Íslenskir ráðamenn eru auðvitað í þeim hópi og bukka sig og beygja fyrir þeim við öll tækifæri. Þegar kínverskir einræðisherrar gefa skipun þá brjóta íslenskir stjórnmálamenn sennilega lög (sviptu t.d friðsama mótmælendur sem hingað vildu koma ferðafrelsi). Margt bendir hins vegar til þess að þessi virðingarfulli ótti—sem virðist vera einhvers konar minnimáttarkennd fyrir vaxandi stórveldi—sé ekki byggður á eins traustum grunni og margir ætla.

Til að byrja með þá hefur efnahagsundrið í Kína alltaf verið bundið við afmörkuð svæði, en þorri fólks lepur dauðan úr skel. Flestir íbúar landsins búa enn úti á landsbyggðinni þar sem skólakerfið er hrunið, úreltar verksmiðjur smámsaman hverfa og heilsukerfið er farið í hundana. Svokallaðir "berfættir læknar" menningarbyltingarinnar eru komnir með greiðslukort og horfnir á mölina.

Spillingin í stjórnkerfinu er allt að því botnlaus. Flestar stöður í stjórnkerfinu eru seldar hæstbjóðanda og það er ekkert leyndarmál hvað t.d. sýslumannsembætti eða bæjarstjórastaða kostar á hverjum stað. Menn kaupa þessi embætti til að geta skattlagt smælingjana og stolið opinberu fé. Þegar ríkið leggur í framkvæmdir sem hrekja fólk frá heimilum sínum, svo dæmi sé tekið, þá stela þessir embættismenn mestöllum styrkjum (skaðabótum) sem það fær frá hinu opinbera.

Margar verksmiðjur í borgunum eru miklu líkari fangelsum en vinnustöðum. Í sumum vinna þúsundir kvenna undir þrítugu við að sauma fatnað, venjulega 14–16 tíma á dag alla vikuna, fyrir sama og engu kaupi—og engin þeirra verður nokkurn tíma ófrísk! Nálægt þrítugu eru þær útslitnar og skilað ónýtum til baka út á landsbyggðina. Það virðist vera óþrjótandi framboð fólks sem sættir sig við að vinna við þessar aðstæður. Verkalýðsfélög eru bönnuð og þeir sem ympra á slíku lenda í tukthúsi.

Himinháar hagtölur fela þó þá staðreynd að Kína er í vissu kapphlaupi upp á líf og dauða—kapphlaupi sem er alveg einstakt í sögu hagfræðinnar. Aldrei hefur verið erfiðara að meta innri andstöður og þjóðfélagslegar þversagnir stórrar þjóðar:

Eitt mikilvægt atriði sem ekki hefur verið sérstaklega í sviðsljósinu þegar rætt er um efnahagslega framtíð Kína er hvernig stjórnvöld hafa farið með landið. Skógum landsins hefur verið eytt og annað jarðrask í nafni framfara hefur eyðilagt risastór svæði. Kannski ógnar ekkert meira efnahag Kína en þessi óstjórn því rykstormar—miklu, miklu ægilegri en þeir sem t.d. gengu yfir Bandaríkin upp úr 1930—eru að keyra allt í kaf. Mold sem jörðin safnaði í hundrað ár hverfur á nokkrum sekúndum og berst í miklu magni alla leið til Japans og Kóreu. Bílaframleiðendur í Kóreu verða t.d. oft að pakka öllum bílum inn í plast eftir að þeir renna af beltinu! Kínverskur sandur hefur meira að segja mælst í vestanverðri Ameríku. Independent grein.

Sandstormarnir æða yfir norðurhluta Kína og ná yfir svæði sem spannar þúsundir km. Það gefur okkur mynd af ástandinu að á milli 1950 og 1960 gengu fimm stórir sandstormar yfir Kína. Á milli 1990 og 1999 stökk þessi tala upp í 23 og afleiðingarnar voru hræðilegar. En núna ríkir neyðarástand því 20 sandstormar hafa riðið yfir á aðeins tveim árum. Ástæðurnar fyrir þessu eru óhagstæð veðrátta og að Kínverjar hafa verið að nauðgað landinu allt of lengi. Þótt seint sé í rassinn gripið þá eru þeir loks farnir að reyna að planta trjám (aðallega í kringum ólympíusvæði höfuðborgarinnar) en eyðileggingin virðist hafa gengið of langt og fá tré ná að skjóta rótum. Það veltur á veðráttu og framtaksemi yfirvalda hvernig þetta stríð við uppblástur fer, en með sama áframhaldi breytist sjálf höfuðborgin brátt í allt að því óbyggilegt rykbelti og menn geta gleymt ólympíuleikunum 2008.

Landbúnaður og vaxandi sandstormar fara illa saman. Líkt og bóndi sem slátrar einu og einu dýri í hallæri þá hafa Kínverjar jafnt og þétt verið að ganga á matarforðann. Næsta sem gerist í þessum harmleik er að þjóðin verða að stórauka innflutning á korni og annarri matvöru. Þegar fjórðungur mannkyns mætir allt í einu á uppboðsstað þá hækkar heimsmarkaðsverðið mikið.