vald.org

Er líf á Mars?

1. apríl 2004 | Jóhannes Björn

Það eru sterkar líkur á að Evrópugervihnötturinn sem hringsólar um Mars hafi nýlega flutt okkur mestu tíðindi aldarinnar: Það er líf á Mars! Gervihnötturinn sá þó ekki litla græna menn á hlaupum eða græna akra, en hann mældi andadrátt hugsanlegs lífs—metangas. Hvað er svona merkilegt við metangas? Í stuttu máli þá myndast metan við efnabreytingar í lífrænum efnasamböndum af völdum gerjunar.

Það sem gerir þetta mál svo spennandi er að vísindamenn segja að sennilega komi ekki nema tveir möguleikar til greina. Annað hvort safnaði Mars metan á sokkabandsárum sínum fyrir um fjórum milljörðum ára og það er enn að leka út vegna jarðhræringa eða það eru bakteríur og jafnvel annað frumstætt líf grasserandi undir yfirborðinu. Þegar enska dagblaðið The Independent (27. mars) spurði vísandamann NASA, dr. Michael Mumma, hvort stöðug metanframleiðsla benti til þess að um lífræn upptök væri að ræða þá svaraði hann: "Ég persónulega held að svo sé." Hvernig komst dr. Mumma að þessari niðurstöðu?:

Það er frekar ólíklegt að metan sem lokaðist inni kjarna Mars eftir loftsteinaregn fyrir fjórum milljörðum ára sé enn að berast upp á yfirborðið í slíku mæli. Hitt er líklegra að bakteríur sem vinna vetni og súrefni úr andrúmsloftinu framleiði þetta metan.

Það er alveg ljóst af myndum að vatn rann einu sinni á yfirborði Mars og andrúmsloftið var því miklu líkar því sem við þekkjum á Jörðinni. Við getum hugsað okkur andrúmsloft plánetu eins og þunnt hlaup sem þekur alla kúluna. Einn góðan veðurdag fellur loftsteinn af stærðargráðu sem hjúpurinn ræður ekki við og hann hreinlega skýst í heilu lagi út í himinhvolfið. Allt líf á yfirborði plánetunnar er dauðadæmt og allt vatn á yfirborðinu gufar upp og hverfur út í tómið.

Þetta er sennilega það sem gerðist á Mars. Eða það myndaðist gat í lofthjúpinn af einhverjum orsökum og mest allt andrúmsloftið lak út í himingeiminn. Ekkert líf getur lengur þrifist á yfirborði Mars vegna þess að loftþrýstingurinn er ekki nema 6 til 7 millíbör (er að meðaltali 1013 hér). Það er ekkert fljótandi vatn við slíkan loftþrýsting. En það er líklega vatn undir yfirborðinu og ekki ósennilega líf.

Ef það eru bakteríur sem gefa frá sér allt þetta metan, þá gefa þær líka frá sér aðrar gastegundir. Ein þeirra er ammoníak og þessa dagana eru vísindamenn einmitt að reyna að finna það. Þessir vísindamenn halda ráðstefnu í Nice, Frakklandi, sem hefst 26. apríl og þá er von á frekari fréttum.