vald.org

Eru Íslendingar fíklar?

3. apríl 2004 | Jóhannes Björn

Samkvæmt bandarískri þingrannsókn—vel lýst í bók Richard Hughes og Robert Brewin, The Tranquilizing of America: Pillpopping and the American Way of Life—þá gáfu bandarískir læknar út 57.000.000 lyfseðla á valíum árið 1977. Það sama ár skófluðu landsmenn í sig samtals 8.350.000.000 töflum [það eru átta milljarðar þrjúhundruð og fimmtíu milljónir] sem voru sérstaklega hannaðar til þess að breyta heilastarfseminni. Þær voru róandi, sefjandi, örvandi, bjartsýnismagnandi og allt þar á milli. Árið 1977 voru þetta um 35 "gleðitöflur" á hvert einasta mannbarn, sem er vægast sagt mikið magn þegar allur barnaskari landsins er hafður í huga, en hann tók sama og ekki neitt. Lyfjafyrirtækin byrjuðu ekki að sá í þann akur fyrr en nokkrum árum síðar.

Það vildi svo til að vinur minn í Sviss vann sem sölumaður hjá Roche, fyrirtækinu sem gaf veröldinni valíum, og ég spurði hann hvort markaðsáætlun Roche gerði ráð fyrir að heimurinn væri almenn að ganga af göflunum. Hvað átti maður að halda eftir að sjá slíkar tölur? Svar hans kom mér verulega á óvart. Hann sagði að markaðsdeild Roche hefði framkvæmt víðtæka könnun í mörgum löndum til að skilgreina viðskiptavini sína og komist að þeirri niðurstöðu að hinn dæmigerði neytandi á valíum væri einstaklingur sem vann fullan vinnudag, en fyndi hjá sér þörf til þess að slaka á stressinu, sérstaklega um helgar. Aðferð þessa fólks var oftast að drekka vínglas eða bjór fyrir framan sjónvarpstækið og slaka enn betur á með því að taka valíum. Í stuttu máli þá bjátaði ekkert sérstakt á hjá þessu fólki, því fannst bara gott að slaka á spennunni.

Ef við göngum út frá því að Íslendingar þjáist ekki af andlegum sjúkdómum í ríkara mæli en t.d. Svíar eða Danir, þá er gamla valíum sagan að endurtaka sig hér. Íslendingar slá flest eða öll met þegar þeir bryðja Prozac og aðrar gleðipillur eins og brjóstsykur. Það er eðlilegt að ætla að stórir hópar fólks taki þessi lyf sér til tómstundargamans, en ekki til að vinna bug á einhverjum sálarkvillum. Ef sú er raunin þá er auðvitað miklu auðveldara að láta leiðitama lækna skrifa lyfseðla heldur en að eltast við hasskaupmenn í dimmum skúmaskotum Við getum ekki látið hlutina snúast þannig á haus að heilsukerfið fari óbeint að keppa við eiturlyfjamarkaðinn. Það væri á sömu nótum og jafn gáfulegt að láta tryggingakerfið niðurborga fyllirí hjá fólki!

Versta við allt þetta mál er þó kannski að fólk gerir sér litla grein fyrir hrikalegum aukaverkunum sem Prozac og hliðstæð lyf (þau sem brengla framleiðslu líkamans á serótónín) hafa á líkama og sál. Tryggingakerfið er því ekki aðeins að borga fyrir hreinan óþarfa, heldur borgar það aftur þegar þessir sömu fíklar veikjast vegna aukaverkanna lyfjanna. Oft gerist það ekki fyrr en mörgum árum síðar.

Stóru lyfjafyrirtækin eru arðvænlegri en flest annað í þessum jarðneska táradali og þau eðlilega ota fram sinni vöru og vilja græða sem mest. Það er hlutverk yfirvalda og annarra sem hafa kynnt sér málið að draga línu í sandinn áður en um koll keyrir. Þannig hefur það alltaf verið. Um aldamótin 1900 var kókaíni blandað í gosdrykki og mixtúrur með morfíni flæddu yfir markaðinn, sérstaklega handa "móðursjúkum" konum og börnum með tannpínu. Þegar hálft prósent bandarísku þjóðarinnar hafði ánetjast eiturlyfjum þá börðu ábyrgir menn í borðið og ný alþjóðleg lög stöðvuðu þennan ófögnuð 1906. Lyfjafyrirtækin stoppa aldrei því það er alltaf stutt í uppgjör næsta árs og menn fá ekki bónus eða stöðuhækkun fyrir að selja færri lyf.

Læknar styðjast við þykka doðranta um aukaverkanir lyfja og Physicians’ Desk Reference er einn slíkur (best væri ef eitt eintak lægi frammi á öllum biðstofum lækna). Doðranturinn segir að algengar hliðarverkanir af Prozac séu:

Næst segir þessi leiðbeiningabók lækna að sjaldgæfari hliðarverkanir Prozac séu:

Prozac hefur 70 fleiri aukaverkanir sem eru flokkaðar sem sjaldgæfastar. Samkvæmt nýjustu heimildum þá er ein þeirra ekki eins sjaldgæf og áður var haldið, en það er þegar meðalið drepur sjúklinginn: Sjálfsmorð.

"Gleðipillan" er ofnotuð andleg og líkamleg martröð. Það á líka við um allar aðrar gleðipillur sem rugla serótónín starfsemi líkamans. Einn góðan veðurdag verður það almennt viðurkennt … en þá verður nýtt undralyf komið á forsíður Time og Newsweek og þægur kindahópur, læknastéttin, byrjuð að skrifa nýja lyfseðla.