vald.org

Lætin í kringum SARS (Severe Acute Respiratory Syndrome)

3. maí 2004 | Jóhannes Björn

Margir hafa undrast yfir þeirri athygli sem SARS (HABL eða bráðalungnabólga) fær í fjölmiðlum heimsins. Þegar öllu er á botninn hvolft, segja menn, þá deyja milljón sinnum fleiri einstaklingar úr alls konar smitsjúkdómum og sumir þeirra, eins og t.d. ný tegund nær ólæknandi berkla, virðast miklu meira ógnandi. Meira að segja á því tímabili sem SARS faraldurinn var verstur þá drápu eldingar fleiri einstaklinga út um allan heim. En þrátt fyrir þessar staðreyndir þá má auðveldlega réttlæta lætin í kringum SARS og minna fólk á að sofna ekki á verðinum svo lengi sem sýkilinn skýtur upp kollinum hér og þar, þótt í litlu mæli sé. Ástæðan er einföld.

Sýkilinn sem orsakar SARS er af ætt svokallaðra kórónu-sýkla (undir smásjá líta þeir út eins og þeir séu umluktir kórónu ekki ósvipað og við sjáum í kringum sólina). Áður þessi nýja útgáfa sýkilsins sá dagsins ljós þá voru aðeins tveir frekar vægir kórónu-sýklar í umferð sem herjuðu á fólk. Annar gefur okkur kvef en hinn niðurgang.

Flensur byrja venjulega í Kína á svæði þar sem fólk, fuglar, svín og fiskar búa í miklu návígi—þar sem hver skepnan étur aðra og t.d. fiskar í þessu lokaða kerfi nærast á úrgangi anda—þar sem nýr kokteill sýkla sér dagsins ljós með stuttu millibili og nýjar flensur verða til á hverju ári. Þegar SARS spratt upp á sömu slóðum þá var skiljanlegt að fólk héldi að sama ferlið væri að endurtaka sig. Sannleikurinn er hins vegar sá að kórónu-sýklar hafa aldrei svo vitað sé flutt sig á milli dýrategunda eða frá dýrum til manna. Prófessor Mark Jackwood [College of Veterinary Medicine at the University of Georgia in Athens], dýralæknir sem hefur sérhæft sig í þessari tegund vírusa í 15 ár, segir möguleikann á að það gerist einn á móti billjón. Hann segir að meinlausir kóróna-sýklar séu algengir og því líklegast að einn slíkur sem lengi hefur verið viðloðandi mannslíkamann hafi skyndilega breytt sér verulega. [Vísindamenn í Kanada hafa komið fram með þá furðulegu kenningu að sýkilinn sé ný og áður óþekkt samsuða kórónu-vírusa frá spendýrum og fuglum … sjá http://jvi.asm.org/cgi/content/abstract/78/1/76]

Versta flensa síðustu alda—sú sem felldi tugmilljónir árið 1918—drap ekki nema 2% þeirra sem lögðust veikir. Vandamálið þá var að nær allir smituðust. En þeir sem lifðu urðu ónæmir fyrir þessari tegund flensu, sýkillinn dó út og heimurinn hefur síðan upplifað vægari flensur.

Ef SARS nær að breiðast út þá gæti ástandið orðið miklu alvarlegara en nokkur flensa eða jafnvel Svarti dauði. Gamla kvefið sýnir okkur hvers vegna, því sýkilinn sem orsakar kvef er náskyldur kórónu-sýkil. Þótt einstaklingur fái kvef í janúar og byggi upp eðlilega mótstöðu þá er hann oft aftur byrjaður að hósta í september. Kórunu-sýklar breyta sér stanslaust. Vörn sem líkaminn byggði upp í fyrra er gagnslaus í ár. Ef SARS nær til ákveðins fjölda fólks þá verður sjúkdómurinn, rétt eins og kvef, óstöðvandi.

SARS drepur nærri því 10% (af 8098 tilfellum 2003 létust 774) þeirra sem smitast en sú tala er marklaus ef sjúklingum fjölgar verulega. Í dag er fólki bjargað í öndunarvélum en sú þjónusta hverfur fljótt ef margir smitast. Þeir sem lifa af sjúkdóminn eru alveg jafn berskjaldaðir og aðrir þegar næsti faraldur ríður yfir. Í stuttu máli þá yrði ástandið svipað því að verri farsótt en spænska veikin (1918) gengi yfir á hverju ári. Sýkill sem breytir sér stöðugt getur orðið miklu banvænni … eða breytt sér þannig að hann verði aftur meinlaus.

Nú segir einhver: En við erum svo klár og finnum bóluefni við þessu. Við vitum hvernig baráttan við kvefið hefur gengið og því hljómar það eitthvað annarlega þegar menn tala um að hrista bóluefni fram úr erminni. Ef það er svona auðvelt hvers vegna er kvefið ódrepandi? Bóluefni eru líka seinunnin vara og ekkert sérstaklega hentug í baráttunni við sýkil sem breytir sér hratt.