vald.org

Eitur í hafinu

7. maí 2004 | Jóhannes Björn

Skömmu eftir að heimstyrjöldinni síðari lauk árið 1945 sigldi enskt flutningaskip úr höfn og hélt í norðaustur. Áfangastaðurinn var leynilegur en einhvers staðar undan strönd Noregs. Ólíkt því er gerðist á venjulegum flutningadöllum þá samanstóð áhöfnin af hermönnum og skipið var fullt af eiturefnum frá Þýskalandi Hitlers. Í skjóli nætur var skipinu síðan sökkt með öllu eitrinu innanborðs. Bretar héldu þessum ljóta leik áfram og sendu halarófu skipa hlaðin taugagasi og öðrum óþverra á norðurslóðir og sökktu. Enginn getur gert sér grein fyrir afleiðingunum eða hvort mikið af þessu eitri á enn eftir að leka út í lífkerfið. Margir sérfræðingar á þessu sviði telja að tærð eða ryðguð eiturhylki á hafsbotni séu enn tifandi tímasprengja.

Ári eftir að Bretar byrjuðu að eitra fiskimið Norðmanna hófu Bandaríkjamenn áætlun sem þeir kölluðu Operation Davy Jones´s Locker. Þetta var tveggja ára verkefni þar sem herskip fóru fimm ferðir á norðurslóðir og köstuðu 40.000 tonnum af kemískum efnum í Eystrasaltið. Eins og svo oft þegar menn eitra fjarri heimahögunum þá var lítið verið að spekúlera í afleiðingunum og allar reglur voru þverbrotnar. Eitrinu var kastað, eins og formaður Conservation for Environment International Foundation, Alexander Kaffka, orðaði það "á litlu dýpi, í mjóum sundum, og á svæðum þar sem fiskveiðar voru stundaðar."

Andrew Goliszek lýsir því í eftirminnilegri bók sinni, In the Name of Science (St. Martin´s Press, 2003) hvernig Bretar og Bandaríkjamenn héldu áfram að losa sig við eiturefni á ofangreindan hátt í 30 ár. Árið 1949 voru Bretar t.d. búnir að kasta þrjátíu og fjórum skipsförmum af kemískum efnum og eitri við Noregsstrendur. Næst snéru þeir sér að norðausturströnd Írlands, um 130 km frá landi, þar sem þeir læddu fjölda farma af blásýru, sarin, karbonýlklóríð og sinnepsgasi í sjóinn. Á sama tíma voru Bandaríkjamenn að kasta 50.000 hylkjum af taugagasi í sjóinn fyrir utan New York og víðar.

Sumar þjóðir, og þá sérstaklega stórþjóðir, virðast oft umgangast nágranna sína af algjöru virðingarleysi. Eitrun hafsins er fullkomið dæmi um þetta hugarfar. En þetta er vandamál sem hæglega getur endurtekið sig því víða má finna hauga af alls konar eiturvopnum og eiturefnum, oft efni sem eru falin og erfitt að losa sig við á löglegan máta. Dæmin blasa víða við. Eftir langt vígbúnaðarkapphlaup sátu Rússar og Bandaríkjamenn uppi með samtals 70.000 tonn eiturefna. Eftir að Egyptar beittu eiturgashernaði gegn hermönnum frá Jemen þá hóf Ísrael sína eigin framleiðslu upp úr 1970. Þannig gengur þetta koll af kolli víða um heim.

Reynslan hefur sýnt að menn sem leikstýra styrjöldum láta ekkert nema strangt pólitískt aðhald stöðva sig. Hershöfðingjar og aðrir sem skipuleggja stríð nota venjulega öll tól sem þeir ráða yfir til að sigra í stríði. Þess vegna eru sýkla- og eiturvopn stöðugt framleidd í felum víða um heim. Þeir sem framleiða þessi vopn hika heldur ekki við að gera tilraunir með þau á sínu eigin fólki eða nota þau þannig að þeirra eigin hermenn verði fyrir barðinu á þeim. Breski herinn viðurkenndi nýlega að allt að 20.000 hermenn voru plataðir til þess að taka þátt í tilraunum með eiturefni að Porton Down herstöðinni á milli 1939 og 1989. Þeir voru úðaðir með taugagasi, sinnepsgasi og látnir taka LSD. Yfir skógum Víetnam kom þetta sama hugarfar í ljós þegar 19 milljón gallon af Agent Orange var úðað yfir alla sem voru svo óheppnir að vera þar sem eitrinu rigndi niður. Í þeim hópi voru milljónir bandarískra hermanna og fjöldi þeirra veiktist síðar. Nýrri dæmi eru örugglega fyrir hendi, en það tekur upplýsingar af þessu tagi skiljanlega oft áratugi að koma upp á yfirborðið.

Mergur málsins er sá að eiturvopn eru enn framleidd og þeir sem framleiða þau þurfa stundum að losa sig við þau. Norðurlöndin mega ekki gleyma því sem gerðist við strendur þeirra fyrir nokkrum árum. Stríðsóðar þjóðir sem auk þess hlaða upp eiturvopnum eiga ekki að komast upp með að nota fiskimið annarra eins og öskuhauga. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa.