vald.org

Að glata sálinni

11. maí 2004 | Jóhannes Björn

Gáfaður maður benti einu sinni á þá staðreynd að við höfum tilhneigingu til þess að breytast í það sem við berjumst við. Stórblaðið Wall Street Journal ristir venjulega ekki dýpra í ritstjórnargreinum sínum en að kvarta yfir skattbyrði milljónamæringa, en leiðari blaðsins 10. maí 2004, ritaður af Gerald F. Seib, sýnir óvenjulegt innsæi. Þar er þeirri spurningu varpað fram hvort Írak hafi breytt Bandaríkjamönnum meira en þeir hafa breytt Írak. Leiðarinn segir: "… Bandaríkin standa andspænis þeim möguleika að þau séu ekki að breyta Miðausturlöndum, heldur að Miðausturlönd séu að breyta þeim—og ekki til hins betra … Hefur eitthvað hent bandaríska þjóðarsál á þessu ferli?"

Samkvæmt heimildum al Jazeera fréttastofunnar þá lærðu Bandaríkjamenn þau vinnubrögð sem viðgangast í Abu Ghraib fangelsinu af vinum sínum í Ísrael. Hvernig nokkrum manni datt til hugar að aðferðir ríkis sem hefur umhverfst í einhvers konar blöndu gömlu Suður-Afríku og Austur-Þýskalands gætu skilað góðum árangri er auðvitað ráðgáta. Saib segir:

Vinir Bandaríkjamanna í Ísrael, sem á margan hátt eru forfeður í stríðinu við hryðjuverk, hafa gengið þennan sama veg … Þeir spyrja sjálfa sig oft, höfum við tryggt betra öryggi en glatað hluta sálarinnar? Eru það freistingar eða kröfur hernámsins sem fá þjóð eða hermenn hennar til þess að drýgja andstyggileg verk sem annars þættu ótæk—jafnvel ógeðsleg.

Það er nokkuð ljóst af myndunum frá Abu Ghraib fangelsinu að hér var ekkert staðbundið fyrirbæri á ferðinni þar sem nokkrir einstaklingar fóru úr böndunum. Við sjáum annað fólk á vappi og það er ekki einu sinni að horfa á ófögnuðinn. Þetta var kerfisbundin vinna og daglegt brauð. Sumir hafa velt því fyrir sér hvers vegna myndatökur voru leyfðar. Svarið við því virðist vera að myndatökurnar hafi verið sálrænn liður niðurrifstarfsins. Fólkið fékk að sjá myndirnar og því hótað að þeim yrði dreift meðal vina og vandamanna.

Grein í New York Times 8. maí (Mistreatment of Prisoners Is Called Routine in U.S.) gerir mikla úttekt á fangelsismálum innan Bandaríkjanna og bendir á að svipuð mannréttindabrot og við höfum séð í Írak séu algeng þar í landi. Nokkur dæmi úr greininni sýna við hvað er átt.

Maðurinn sem sá um að endurgera og opna Abu Ghraib fangelsið illræmda á ný á síðasta ári, Lane McCotter, þjálfaði líka fangaverðina. Hann var forstjóri fyrirtækis er rekur keðju einkafangelsa sem lá undir rannsókn bandaríska dómsmálaráðuneytisins þegar hann var ráðinn til Írak. Í viðtali við http://www.corrections.com í janúar s.l. sagði hann að Abu Ghraib fangelsið "eina staðinn sem samstarfshópurinn samþykkti að væri langlíkastur bandarísku fangelsi."

The Center for Strategic and International Studies hefur sent frá sér skýrslu sem segir að stríðið í Írak sé óvinnandi. Auðvitað sé hægt að skjóta allt í kaf, en andstæðingarnir séu orðnir svo margir að það sé ekki nokkur leið að handtaka þá alla eða drepa. Skýrslan varar sérstaklega við hvaða afleiðingar það mundi hafa ef klerkurinn Moqtada Sadr er drepinn. Hann yrði samstundis dýrlingur og sameiningartákn. Aldagamlir óvinir tækju höndum saman … og þá blasti ekkert annað við útlendum her en að pakka saman.