vald.org

Heimsendir

29. maí 2004 | Jóhannes Björn

Sú var tíðin að prédikarar boðuðu eld og brennistein með meiri ofsa en gengur og gerist nú á dögum. Og með stuttu millibili hræddu þeir pöpulinn með hótunum um að heimurinn væri rétt í þann mund að enda. Nú er kannski aftur kominn tími til að einhver standi á kassa á Lækjartorgi og messi yfir fólkinu, því eitthvað einkennilegt er að gerast á jörðinni og í sólkerfinu sem við búum í.

Allir (nema Bush & félagar) viðurkenna nú að hitastig jarðar hefur hækkað og pólarnir eru að bráðna. Eftir ákveðinn tíma—enginn veit hvenær, gæti gerst eftir fimm ár eða eitt þúsund ár—hætta heitir sjáfarstraumar að flæða í norður og ísöld skellur á. Landsvæðin norðan Alpafjalla verða óbyggileg og menn geta þá ekið bílum á milli Íslands og Skotlands.

Það er þó ekki aðeins hitastigið sem er að breytast. Segulskautin eru á ferð og taka kollveltu áður en langt um líður—þ.e. eftir stutta stund í jarðsögulegu samhengi. http://www.geolab.nrcan.gc.ca/geomag/northpole_e.shtml Þótt það verði ekki beinlínis hættulegt þegar norður og suður "flippa", þá veit enginn hvaða áhrif það hefur á fugla og fiska sem nota segulskautin til þess að rata heim. Ef til vill fengum við nýlega smjörþefinn af því sem koma skal í Norður-Dakota ríki í Bandaríkjunum. Á friðlandi pelíkana—Chase Lake Wildlife Refuge—gerðist nokkuð sem aldrei hefur hent í yfir hundrað ára dvöl pelíkana á svæðinu: Hvorki fleiri né færri en 27.000 fuglar hurfu sporlaust frá hreiðrum sínum í lok maí s.l. og skildu eggin eftir til þess að rotna. Aðeins 300 pelíkanar, sem sýndust frekar taugaóstyrkir, voru eftir á svæðinu og hvergi annars staðar hefur orðið vart við flóttafuglana, en 27.000 pelíkanar eru frekar áberandi. Blaðafulltrúi friðlandsins, Ken Torkelson, segist aðeins geta bent á hvað EKKI hrakti fuglana á brott. Veðurfar var ekki óvenjulegt (heldur kaldara en í meðalári), ekkert eitur í umhverfinu, ekkert rask vegna manna eða villidýra og heilsufar fuglanna var heldur betra í vor en venjulega.

Vissulega má kenna gróðurhúsaáhrifum um hækkandi hitastig jarðar, en segir það alla söguna? Hvernig stendur á því að sólin og allar hinar pláneturnar í sólkerfinu virðast vera að ganga í gegnum óvenjulegar breytingar? Getur verið að sólkerfið allt sé að sigla inn á svæði í vetrarbrautinni sem á einhvern hátt raskar jafnvæginu? Hér eru nokkur dæmi um óvenjulegar breytingar í sólkerfinu sem vísindamenn hafa enn engar skýringar á, en þetta eru aðein örfá atriði því miklu fleiri hlutir eru að gerast en hér er tæpt á.

Plútó er eins og venjulega á óreglulegri braut og er núna að fjarlægast sólina. Samt fer hitastig Plútó hækkandi og loftþrýstingurinn hefur aukist um hvorki meira né minna en 300%. Ef maður stæði á Plútó og horfði til sólar þá sæi maður aðeins skæra stjörnu. Sólin hefur því sama og ekki neitt að gera með hitastig eða loftþrýsting á Plútó. Engin haldbær útskýring er fyrir hendi. http://www.space.com/scienceastronomy/pluto_seasons_030709.html

Neptúnus var 40% bjartari árið 2002 heldur en þegar birtan var mæld 1996. http://www.ssec.wisc.edu/media/Neptune2003.htm Eitthvað er einkennilegt við að skýjabólstrar á stærð við heilar heimsálfur á jörðinni hafa sprottið upp á Úranus á stuttum tíma og birtumagn andrúmsloftsins hefur líka breyst. http://hubblesite.org/newscenter/newsdesk/archive/releases/1998/35/

Vindhraðinn við miðbaug Satúrnus hefur hægt á sér um nærri því helming á örfáum árum. http://www.wellesley.edu/PublicAffairs/Releases/2003/060403.htmlRöntgengeislar frá skautunum hafa, öllum á óvart, magnast. Á sama tíma minnkaði vindhraði skýja við pólana um 58,2% á milli 1980 og 1996. http://www.ajax.ehu.es/grupo/2002b.pdf

Rafgasský í lofthjúp Júpíter eru 200% bjartari en áður og plánetan hitnar óðum. Rauðir blettir eru allt í einu appelsínugulir og dularfullt segulsvið hefur myndast við pólinn. http://voyager.jpl.nasa.gov/science/jupiter_magnetosphere.html og http://www.berkeley.edu/news/media/releases/2004/04/21_jupiter.shtml

Ef menn halda að það sé að hitna mikið á jörðinni þá ættu þeir að reyna að búa á Mars! Þar hefur vindhraði líka aukist og skautin brána óhuggulega hratt. http://www.space.com/scienceastronomy/solarsystem/mars_snow_011206-1.html

Á innan við 30 árum hefur birtan í lofthjúp Venusar magnast um 2500% og veðurfarið hefur breyst verulega. http://www.sri.com/news/releases/01-18-01.html og http://www.physicsweb.org/article/news/5/1/10.

Merkúr er næst sólu og óbærilega heit pláneta. Gervihnöttur sem lendir á pól Merkúr endist aðeins í eina viku vegna hitans. Samt hefur komið í ljós að er varanlegur ís ekki skammt undan! Menn hafa reynt að klóra í bakkann með því að segja að þetta sé ís frá loftsteinum, en viðurkenna um leið að það sé ansi langsótt skýring. http://www.space.com/scienceastronomy/mysteries_mercury_021231.html

Það er talið að hamagangurinn á sólinni (sólgos og slíkt) hafi verið meiri síðan 1940 en samanlagður hamagangur 1150 ára fyrir 1940. Samkvæmt mælingum Michael Lockwood og vinnuhóps hans við Rutherford Appleton Laboratory á Englandi, en rannsóknarstofan skoðaði mælingar allt frá 1868, þá hefur ytra segulsvið sólarinnar magnast um 40% síðan 1964 og 230% síðan 1901. http://www.newscientist.com/news/news.jsp?id=ns99994321 og http://news.bbc.co.uk/2/hi/science/nature/3238961.stm

Það mundi æra óstöðugan að reyna reifa hér kenningar um hvað veldur þessum breytingum. Dómsdagsmenn benda á að jörðin verður með vissu millibili fyrir miklum skakkaföllum og gera að því skóna að eitt slíkt tímabil sé í uppsiglingu. Aðrir segja að pláneturnar séu stöðugt að breytast og þannig hafi það alltaf verið. Ein skemmtileg hugmynd hljóðar á þennan veg: Við skynjum tilveruna í þrívídd plús tíma, en erum raunverulega inni í samloku margara vídda sem við sjáum ekki. Þar sem ofurmassi með ofurkrafti er fyrir hendi, eins og t.d. í miðri vetrarbrautinni, þá "nuddar" hann sér í aðrar víddir og jafnvel hleypir inn straumi andefnis. Sólkerfið er að færast nær þessum straumi og er byrjað að finna fyrir honum, t.d. með auknum sólgosum. Ef þessi tillaga er rétt þá verður hegðun sólkerfisins einkennilegri og einkennilegri þar til yfir lýkur. Dagatal Inka rennur út 23. desember 2012.

Tími til að fá sér kassa og halda niður á Lækjartorg!