vald.org

Hafa BNA gengið til góðs …

4. júlí 2004 | Jóhannes Björn

Bandaríkin eiga 228 ára afmæli í dag. Það er því ekki úr vegi að líta yfir sviðið og spá í stöðuna eins og hún blasir við á þessum tímamótum. Hvert stefnir í bandarísku efnahagslífi og hvaða afleiðingar getur það haft fyrir allan heiminn. Það er sjálfgefin staðreynd að þegar bandaríska hagkerfið hóstar þá fær allur heimurinn kvef.

Margir gera sér ekki grein fyrir að hagkerfi BNA er þessa stundina í kapphlaupi við vaxandi skuldasöfnun. Í stuttu máli þá eru skuldir ríkissjóðs, fylkja og einstaklinga komnar yfir öll eðlileg mörk og eina sem getur bjargað landinu frá meiri háttar kreppu er að fljótlega takist að skapa milljónir nýrra starfa. Mörg þessara starfa verða líka að vera vel launuð, sem gæti reynst erfitt í landi þar sem Walmart (Bónusverslun þeirra í Ameríku) er nú stærsti atvinnurekandinn.

Skuldasöfnunin í hagkerfinu er ekki aðeins stjarnfræðileg—hún hefur stigmagnast á seinni árum.

Eftir að Bush tók við völdum kom afturkippur í efnahagslífið (var þó ekki honum að kenna) og milljónir starfa glötuðust. Síðan hafa um ein milljón komið til baka, en það segir ósköp lítið vegna þess að fjórar milljónir nýrra einstaklinga hafa komið inn á vinnumarkaðinn síðan árið 2000. Það sem mestu máli skiptir þó er að kaupmáttur launa hefur ekki aukist og hærra kaup er það eina sem getur bjargað hagkerfinu. Aðgerðir Bush í efnahagsmálum—að lækka skatta á ríkasta fólki landsins og ausa peningum í stríð í annarri heimsálfu—hafa heldur ekki hjálpað.

Hér áður fyrr var hægt að reka ríkissjóð BNA með miklum halla um stund og safna öðrum skuldum vegna þess að næsta skeið uppgangs lyfti alltaf tekjum fólksins og skatttekjur ríkisins hækkuðu. Það er til einföld leið til að mæla fjárstreymið og tekjuskiptinguna. Gróði allra fyrirtæja landsins var lengi um 25% heildar þjóðartekna. Í marga áratugi var þessi tala nokkuð stöðug, sem þýddi að lífskjör fólksins sveifluðust í takt við sveiflur efnahagslífsins. Þegar vel gekk jókst gróði fyrirtækja og einstaklinga í takt. Með öðrum orðum, ef við lítum á öll fyrirtæki landsins sem einn aðila og allt vinnandi fólk sem annan aðila, þá ríkti sæmilegt jafnvægi á milli þeirra. Árið 1998 byrjaði þetta allt að breytast og nýjustu tölur sýna að gróði allra fyrirtækja er kominn upp í 33% þjóðartekna. Ef þessar tölur breytast ekki fljótt til hins betra fyrir fólkið þá dettur kaupmátturinn niður og kreppa skellur á.

Hvernig gat vinnandi fólk látið máta sig svo skyndilega? Það byrjaði með útflutningi á sífellt betri stöfum og náði hámarki með plágu uppsagna og endurráðninga á bandarískum vinnumarkaði. Um 50 milljónir einstaklinga eru reknir og endurráðnir á hverju ári. Þetta fólk er eins og hamstur á hjóli að reyna að vinna sig upp í sama kaup og það hafði áður. Eftir nokkrar umferðir uppsagna glatar það sjálfstraustinu og byrjar að sökkva. Þetta er sennilega helsta ástæða þess að vinnandi fólk sem heild hefur glatað mættinum til að semja um betri kjör.

Bandaríska heilsukerfið er—þrátt fyrir að 44 milljónir einstaklinga hafi engar tryggingar—orðið svo fáránlega dýrt að það er farið að virka sem dragbítur á allt annað í samfélaginu. Algjörlega óþarfur milliliður, tryggingafélögin, græða hátt í billjón dollara á kerfinu og lyfjafyrirtækin, sem nú auglýsa á innanlandsmarkaði fyrir milljarða dollara á ári, komast upp með að selja lyf á miklu hærra verði en annars staðar í heiminum. Lyfjafyrirtækin geta þetta vegna þess að þau mynda þrýstihóp sem mokar peningum í stjórnmálamenn. Fáránlega hár lyfjakostnaður og dýr umönnun (m.a. vegna okurs tryggingafélaga) bitnar sérstaklega hart á eldri borgurum. Þessi hópur safnar skuldum hraðar en nokkur annar.

Árið 1989 var um 16% fólks yfir 65 ára enn með ógreidd fasteignalán. Upphæðin var að meðaltali $12.000 á hverja eign. Árið 2001 voru hins vegar 25% gamlingja enn að reyna að greiða niður fasteignalán og meðalupphæðin var stokkin í $44.000 á hverja eign. Þótt fasteignir hafi hækkað í verði (sem bætir fjárhagsstöðu eigenda þeirra) þá hefur skuldasöfnunin hækkað helmingi hraðar og tekjur þessa hóps hafa staðið í stað. Þessar tölur taka auðvitað verðbólgu með í reikninginn. New York Times [4. júlí 2004] lýsir ástandinu þannig:

Sífellt fleira gamalt fólk er hreint út sagt í fjárhagslegri nauð. Ein af hverjum sjö fjölskyldum þar sem húsbóndinn er 65 ára eða eldri var árið 2001 talinn vera á kafi í skuldum—þar sem a.m.k. 40% allra tekna fóru beint í að greiða niður skuldir …

Gjaldþrot einstaklinga á öllum aldri eru að ná hættulegu stigi í BNA. Með hækkandi vöxtum á þeim enn eftir að fjölga. Og ef kaupmáttur launa stendur í stað þá fjölgar þeim mjög mikið. Það er skelfileg hugsun í ljósi þess að:

Það kemur í ljós á næstu mánuðum hvort störfum fjölgar og kaup hækkar. Nýtt blómaskeið á sviði hátækni gæti bjargað miklu. Það sem vegur á móti er þungt:

  1. Með hækkandi vöxtum hættir fólk að taka hagkvæm lán út á fasteignir sínar, en sá markaður hefur gert meira en nokkuð annað til að halda í horfinu s.l. þrjú ár og fyrirbyggja alvarlegri kreppu
  2. Áhrif skattalækkana fjara út og ríkissjóður, rekinn með bullandi halla, getur ekkert gert í málinu
  3. Viðskiptahallinn stendur í stað eða eykst og útlendingar heimta hærri vexti fyrir bandarísk skuldabréf (viðskiptahallinn er að mestu fjármagnaður af Japan og Kína sem síðan kaupa skuldabréf fyrir dollarana … en hve lengi geta þessi ríki safnað pappírum?) Dollarinn fellur enn meir.

Aðeins aukinn kaupmáttur getur komið á nýju jafnvægi. Annars keyra skuldirnar úr hófi, dollarinn fellur, vextir hækka enn meira en ella og atvinnuleysi eykst. Milljónir einstaklinga hafa keypt þak yfir höfuðið á lánum sem bera markaðsvexti og greiðslubyrði þeirra er þegar byrjuð að aukast.

Eins og sagt var í upphafi þá skiptir þetta allt máli vegna þess að hagkerfi heimsins stólar mest á bandaríska markaðinn. Kreppa þar þýðir kreppu hér. Það eru líka víti til að varast í þessu dæmi. Hagkerfi sem byggist á botnlausri neyslu og skuldasöfnun er ekki alltaf hollt. Einkavætt heilbrigðiskerfi er líka algjörlega út í hött og það er miklu dýrara. Það er kominn tími til þess að innleiða meiri mannúð og skynsemi í hagkerfi Vesturlanda og hætta að láta litla klíku auðmanna leiða okkur á asnaeyrunum.