vald.org

Hafa BNA gengið til góðs … framhald

11. júlí 2004 | Jóhannes Björn

Í síðustu grein var lagt til að nýtt blómaskeið á sviði hátækni í BNA gæti hugsanlega bjargað hagkerfinu. Þessi skoðun er einfaldlega byggð á þeirri staðreynd að það er ekki í mörg önnur hús að leita. Framleiðslan er á leið til Kína og þjónustugreinar sem geta ferðast á Netinu eru að færast til Indlands. Landbúnaðurinn í BNA hefur fyrir löngu náð hámarki og stefnir niður á við þegar dómstólar smátt og smátt afnema ríkisstyrki og viðskiptahömlur. Vissulega fjölgar störfum á elliheimilum og við húshjálp, líkt og annars staðar þar sem meðalaldurinn hækkar, en það eykur ekki kaupmáttinn eða greiðir niður skuldirnar.

Hátækni birtist í mörgum myndum, en tölvuiðnaðurinn og alls konar fjarskiptatækni skipta mestu máli í hagkerfi BNA. Nýjustu tölur frá þeim vígstöðvum eru ekki góðar.

Verð hlutabréfa á NASDAQ (þar sem tæknifyrirtæki vega þyngst) hafa verið að falla. Það er mjög líklegt að bréf t.d. Dell ($35.94 þegar þetta er skrifað) og Cisco ($22.36) eigi eftir að falla enn frekar (price-to-earnings hlutfallið hjá þeim er 32, sem er allt of hátt ef tekjurnar fara lækkandi).

Á tímum óvissu eða verðbólgu leita menn í gull. Það hefur undanfarið verið á uppleið og stóð í $407 fyrir síðustu helgi.