vald.org

Hafa BNA gengið til góðs … framhald

20. júlí 2004 | Jóhannes Björn

Eins og bent var á í grein á þessari síðu 4. júlí þá lítur út fyrir að hátæknivörur seljist ekki jafn ört og menn höfðu ætlað fyrir aðeins nokkrum vikum. Í dag virtust markaðir um alla Asíu átta sig á þessu og hlutabréf tæknifyrirtækja féllu verulega. Hlutabréf stærsta framleiðanda heims á tölvuskjáum í Taiwan féllu um 7%.

Samkvæmt nýjum tölum frá Bureau of Labor Statistics í Bandaríkjunum þá heldur kaupmáttur 80% þjóðarinnar ekki einu sinni í við verðbólguna. Í maí og júní lækkaði kaupmátturinn samtals um 1.9%, reiknað á ársgrundvelli. Það virðist einsýnt að Bush verður fyrsti forseti BNA síðan Herbert Hoover til að ljúka heilu kjörtímabili á þess að skapa nokkur ný störf. Ekki aðeins verða færri störf fyrir hendi í hagkerfinu árið 2004 heldur en þegar hann tók við árið 2000—heldur hafa líka yfir fjórar milljónir einstaklinga komið inn á markaðinn. Miðað við júní 2000 þá hafa 4,4 milljónir bæst í hóp þeirra sem ekki hafa vinnu.

Í dag birtust nýjustu tölur af bandarískum fasteignamarkaði. Samdrátturinn er yfir 8% á línuna. Fasteignamarkaðurinn er beljan sem fólk hefur verið að mjólka undanfarin ár og notað til að halda kaupmættinum uppi. Það verður stöðugt erfiðara að koma auga á næstu uppsprettu fjármuna, eitthvað sem eykur kaupmáttinn og lyftir ríki og einstaklingum úr skuldafeninu. Það er miklu auðveldara að sjá hvernig vaxandi verðbólga og hærri vextir orsaka nýja efnahagslægð. Olían kostar yfir $40 fatið—verð sem enn hefur ekki að fullu skilað sér á öllum stigum hagkerfisins—og þeir sem gæla við þá hugmynd að hún lækki á næstu árum ættu að lesa meistaraverk Michael T. Klare, Blood and Oil, sem er rétt að koma út. Það er miklu líklegra að olíufatið kosti $60 eftir þrjú ár heldur en t.d. $30.

Hvernig gat efnahagskerfi BNA komist í slíkan hnút? Einföldum dæmið og hugsum okkur að það búi 100 manns í Bandaríkjunum og öll verðbæti landsins séu $100. Árið 2000 var stéttaskiptingin er slík að einn maður átti $40 … fimmtán ríkustu áttu samtals $85. Sem sagt, 85% þjóðarinnar átti ekki nema 15% allra verðmæta landsins. Svar ríkisstjórnarinnar við þessu 2001 var að stórlækka skatta á ríkasta 1% þjóðarinnar! Það var gert til að hleypa lífi í efnahagslífið, sagði ríkisstjórnin, en allir heilvita menn sjá strax að þau rök standast ekki. Ofurríkt fólk á allt sem það notar frá degi til dags. Það kaupir ekki fleiri hús eða bíla, heldur fjárfestir á mörkuðum sem eru í eðli sínu alþjóðlegir og peningarnir daga uppi þar sem mest er fjárfest—í Kína eða Indlandi!

Heilbrigt hagkerfi byggir alltaf á öflugri millistétt. Ofurríkt fólk og of margir fátæklingar rústa hagkerfinu.