vald.org

Ruglaðir fuglar

27. júlí 2004 | Jóhannes Björn

Hvað getur það eiginlega verið sem er að gera fugla víðsvegar um heim ruglaða? Á þessari síðu var nýlega fjallað um dularfullt hvarf pelíkana í Dakota ríki í Bandaríkjunum [Heimsendir 29. júní 2004]:

Á friðlandi pelíkana—Chase Lake Wildlife Refuge—gerðist nokkuð sem aldrei hefur hent í yfir hundrað ára dvöl pelíkana á svæðinu: Hvorki fleiri né færri en 27.000 fuglar hurfu sporlaust frá hreiðrum sínum í lok maí s.l. og skildu eggin eftir til þess að rotna. Aðeins 300 pelíkanar, sem sýndust frekar taugaóstyrkir, voru eftir á svæðinu og hvergi annars staðar hefur orðið vart við flóttafuglana, en 27.000 pelíkanar eru frekar áberandi. Blaðafulltrúi friðlandsins, Ken Torkelson, segist aðeins geta bent á hvað EKKI hrakti fuglana á brott. Veðurfar var ekki óvenjulegt (heldur kaldara en í meðalári), ekkert eitur í umhverfinu, ekkert rask vegna manna eða villidýra og heilsufar fuglanna var heldur betra í vor en venjulega.

Nú berast þær fréttir frá Noregi að 1500 bréfdúfur sem kepptu á árlegu móti hafi horfið. Lars-Aake Nilson, félagi í samtökum bréfdúfueigenda í Malmö, segist hafa tamið bréfdúfur síðan 1960 en hann hafi aldrei heyrt um neitt þessu líkt. Í keppni fyrir nokkrum dögum voru 2000 bréfdúfur sendar af stað frá Ljungby til Malmö, sem er um tveggja stunda flug, en aðeins 500 náðu á leiðarenda. Leit og fyrirspurnir um allan suðurhluta Svíþjóðar hafa engan árangur borið. Veður var virkilega gott, engin rigning eða vindstrekkur.

Síðan 13. júlí hafa fjölmiðlar í Kaliforníu fjallað um furðulegan fjölda pelíkana sem skolar þar á land nær dauða en lífi. Fuglarnir nærast á ansjósum (fiskur af síldarætt) og það er nóg af þeim í sjónum, en þeir kjósa frekar að svelta til bana heldur en að borða þessa hefðbundnu fæðu. Það er ekki vitað til þess að fiskarnir hafi breyst eða mengast á nokkurn hátt.

Þann 15. júlí kom eftirfarandi yfirlýsing frá yfirmanni þjóðgarðs í Tansaníu (Tanapa), Gerald Bigurube: "Dauði yfir 10.000 flamingóa (fugla af flæmingjaætt) á Manyaravatni er virkilegur harmleikur og eðli eða orsök þessa dularfulla sjúkdóms sem hefur herjað á þessi fallegu dýr er okkur enn ráðgáta."

Ein einkennilegasta frétt seinni daga um þessa undarlega hegðun fugla kemur frá Arizona, en þar hafa pelíkanar talið sig vera lenda á vatni þegar þeir steypast á götur og gangstéttir:

July 12, 2004

Pelicans Mistaking Asphalt for Lakes, Creeks

PHOENIX, ARIZONA

'It's a strange sight to see. Nearly two dozen endangered brown pelicans have crashed onto sidewalks and roads, mistaking the heat-induced shimmer of the paved surface for lakes and creeks. Game and Fish says the birds 'try to land on the water, but it's asphalt,' then it's Bam! The pelicans have been found from Yuma to Phoenix. Most have been located in southern Arizona, where they've landed while flying out of Mexico's Gulf of California. So far, the pelicans have been treated mostly for dehydration and emaciation.'