vald.org

Ódýr olía … bless!

30. júlí 2004 | Jóhannes Björn

Saudi Arabía lofaði nýlega að auka olíuframleiðslu sína og lækka þannig heimsmarkaðsverðið á olíu. Kauphallarmenn í London og New York spáðu að fatið færi fljótlega í $30. Olíuverð hefur þó haldið áfram að vera í kringum $40 fatið og sá grunur er farinn að læðast að mönnum að konungsríkið geti hreinlega ekki staðið við orð sín. Ýmislegt bendir nefnilega til þess að þeir séu nú þegar að pumpa eins miklu olíumagni og þeir geta, og það sem verra er, að það gæti reynst þeim um megn að halda framleiðslunni óbreyttri á næstu árum. Kannski er hér á ferðinni enn eitt hrikalegt bókhaldssvindl … annað Enron.

Hvað varðar ástand olíulinda og yfirleitt öll viðskipti þá eru Saudi Arabar eins laumupúkalegir og hugsast getur. Þeir segjast geta dælt 15 milljónum fata á dag og vitað sé um byrgðir í jörðu upp á 260 þúsund milljónir fata. En af hverju pumpa þeir þá ekki meiri olíu en rösklega 10 milljónum fata á dag fyrst þeir voru búnir að lofa að lækka heimsmarkaðsverðið? Svarið gæti að hluta legið í 25 ára gömlum tölum. Þegar bandarísku olíurisarnir stjórnuðu allri framleiðslunni þá áætluðu þeir að það væru 106 þúsund milljónir fata í jörðu. Ef sú tala reynist rétt þá hefur olíuframleiðsla Saudi Arabíu þegar náð hámarki og það byrjar fljótlega að halla undan fæti.

Nú kann eitthver að segja að 25 ára gamlar tölur um olíu í jörðu séu úreltar því alltaf sé verið að finna meiri olíu. Það eru ákveðnir hlutir sem benda til þess að tölur bandarísku olíufélaganna séu nær sanni en þær sem einræðisríkið auglýsir í dag. 95% af allri olíu sem landið dælir upp í dag kemur frá lindum sem fundust á milli 1940 og 1967. Ekki nóg með það, heldur hafa þeir þurft að dæla sífellt meira vatni í holurnar til þess að halda pressunni uppi, svo miklu magni að sumir sérfræðingar segja hættu á að einhverjar lindir falli saman. Rússar eyðulögðu t.d. mikið af olíulindum á þennan hátt í gamla daga þegar fimm ára áætlunin hrakti menn út í að þvinga upp meiri olíu en æskilegt var. Ef olíubyrgðir í jörðu væru jafn miklar í Saudi Arabíu og þeir halda fram, þá væri eðlilegt að gera ráð fyrir að miklu hærra hlutfall kæmi frá nýrri holum og þær gömlu væru ekki pumpaðar of hratt.

Hvað fengi stjórnvöld í Saudi Arabíu til að falsa tölur um olíuforða landsins? Kannski ræður óskhyggjan ferðinni og þeir trúa þessu sjálfir. Hitt er þó líklegra að einræðisherrarnir séu hræddir um eigið öryggi og viti að þeir geta ekki haldið völdum um allan aldur. Tölur um þverrandi þjóðartekjur gætu hæglega hrint af stokkunum stjórnarbyltingu í þessu landi þar sem yfirvöld nú þegar hanga á horriminni.

Eins og bent er á í frábærri bók Michael T. Klare, Blood and Oil, þá hefur eftirspurn á jörðinni eftir orku nú þegar farið fram úr getunni til þess að auka framboðið jafn hratt. Öll orka á því eftir að hækka mikið í verði á næstu 15 árum. Árið 2020 verður orkuþörfin 40% meiri en í dag og aukningin verður mest í Kína. Það er umhugsunarefni hvernig Kína, sem nú þegar er að kafna í mengun, lifir þetta af. Landið framleiddi 300,000 megavött rafmagns árið 1999 en áætlar að framleiða 900,000 megavött 2020. Þetta verður að langmestu leyti gert með því að brenna kolum (mikið til léleg kol). Við þetta bætast tugmilljónir nýrra trukka og bíla sem brenna olíu og bensíni.

Í nýrri (seinlesinni) bók, The River Runs Black, lýsir dr. Elizabeth Economy hroðalegri mengun í Kína í dag. Ár landsins og vötn eru full af eiturefnum og sjómenn nota dýnamít á kóralrif til að svæla út síðustu fiskana. Búið er að brenna upp skóga landsins og ótrúlegir sandstormar eyða jarðvegi landsins kerfisbundið. En geðveikin heldur áfram, stórfyrirtækin reisa sífellt fleiri verksmiðjur sem spúa eitri um alla Austur-Asíu og gróðurhúsaáhrifin ýta okkur nær nýrri ísöld.