vald.org

Lyfjamafían—Fyrri hluti

5. ágúst 2004 | Jóhannes Björn

Læknar eru guðir og lyfjafyrirtækin hálfguðir. Hallelúja.

Læknisfræðin og lyfjaiðnaðurinn reka magnaðan áróður þar sem stöðugt er endurtekið að við getum þakkað þeim háan aldur og almenna vellíðan. Þetta er rétt að einhverju leyti og ekki skrýtið þegar haft er í huga að trilljónum hafur verið ausið í þessa starfsemi. Hinu má þó ekki gleyma að meðalaldurinn hækkaði mest á Vesturlöndum þegar lífskilyrðin voru stórbætt með ósýktu vatni, skolplögnum og almennu hreinlæti. Fúkkalyf og bólusetningar hjálpuðu líka mikið. Í seinni tíð virðist fólk halda að sífellt fleiri pillur geri tilveruna sælli, en það er nokkuð öruggt að þessi kemíska stefna á eftir að lækka meðalaldurinn aftur … sérstaklega ef við látum að vilja lyfjaframleiðenda og dópum ofvirka og kvíðafulla æsku landsins í stórum stíl. Ofan á pilluátið bætast síðan óteljandi kemísk efni sem sturtað er í matvæli og sett í umhverfið. Það er engin tilviljun að stöðugt fleiri fá krabbamein og krabbamein meðal barna er alltaf að magnast. Aukningin í Bandaríkjunum á milli 1950 og 1998 var 60% í heild, en sumar tegundir krabba hafa verið í miklu meiri sókn—skinn (477%), lungu (248%), blöðruhálskyrtill (194%), lifur (180%), skjaldkyrtill (155%), nýru (130%), eistu (125%) og brjóst (63%). Á síðustu tuttugu árum hefur krabbatíðni meðal barna aukist um 20%.

Engin stofnun í heiminum hefur meiri áhrif á hvaða lyf Íslendingar og aðrir taka en bandaríska Matvæla- og lyfjaeftirlitið (Food and Drug Administration). Í fljótu bragði þá virðist þetta vera ríkisstofnun sem verndar fólkið með því að gagna úr skugga um að lyf og matvæli séu örugg. Ótrúlegur kostnaður við að koma nýjum lyfjum inn á markaðinn gæti líka ýtt undir þá skoðun að ýtrustu varúðar sé gætt og ekkert sparað við lyfjaprófanir. En það þarf ekki að grafa djúpt til að sjá að Matvæla- og lyfjaeftirlitið er lítið annað en útibú stórfyrirtækjanna. Það er úlfur í sauðagæru.

Samkvæmt grein í Journal of the American Medical Association (15. apríl 1998) þá deyja nærri 100.000 manns í Bandaríkjunum árlega vegna lyfja sem lyfjaeftirlitið hefur lagt blessun sína yfir. Þessi veiki, sem við getum kallað "meðalið drepur sjúklinginn," rokkar eftir árferði á milli þess að vera fjórða til sjötta algengasta dánarorsök í landinu. Þegar mistök lækna og önnur mistök á sjúkrahúsum er bætt við þá margfaldast tala látinna og nær öruggu þriðja sæti sem algengasta dánarörsök í landinu. Sagan endurtekur sig svo auðvitað út um allan heim. Ef vítamín eða önnur náttúruleg efni dræpu 10 manns á ári þá væru lyfjafyrirtækin fyrir löngu búin að siga varðhundum sínum á framleiðendur þeirra. Það hefur lengi verið draumur lyfjamafíunnar að leggja þann markað algjörlega undir sig og græða botnlaust með því að selja allt nema minnstu vítamínskammta gegn lyfseðlum. En hvernig ganga kaupin fyrir sig á eyrinni hjá bandaríska Matvæla- og lyfjaeftirlitinu?

Áður en lyf eða tilbúin efni (eins og t.d. gervisykur) eru markaðssett þá verða þau að ganga í gegnum mörg rannsóknarþrep. Lyfjaeftirlitið metur niðurstöðurnar á hverju þrepi og getur hafnað lyfinu eða efninu hvenær sem svo ber undir. Þetta hljómar allt ágætlega þar til maður byrjar að fara ofan í saumana á hverjir stunda þessar rannsóknir og hvers vegna mörg vafasöm lyf eru samþykkt. Kerfið stenst eðlilega ekki nema allir rannsóknaraðilar séu hlutlausir og eigi engra gróðahagsmuna að gæta. Búum til litla dæmisögu hér. Hvernig liti það út ef Jón X. Jónsson, sem á 75% í Bjargvættur hf, seldi björgunarbáta í íslensk skip, en bátarnir yrðu að standast kröfur eftirlitsmanns ríkisins, sem er Björn X. Jónsson og bróðir fyrrnefnds Jóns og á 25% í Bjargvætti hf? Slíkt yrði að sjálfsögðu ekki liðið, en þessi dæmisaga lýsir nákvæmlega ástandinu á bandarískum lyfjamarkaði í dag.

Rannsókn stórblaðsins USA Today leiddi í ljós að í 54% tilfella eru bandarísk fyrirtæki sem kanna gagnsemi og aukaverkanir lyfja á ýmsum þrepum rannsókna með bein hagsmunatengsl við framleiðendur lyfjanna. Þetta er auðvitað algjörlega siðlaust og í raun líka brot á reglugerð, en á árabilinu 1998 til 2003 gaf lyfjaeftirlitið (verndari fólksins) fleiri en átta hundruð undanþágur til rannsóknafyrirtækja sem voru í peningasambandi við lyfjafyrirtækin. Sem sagt, fyrirtæki sem getur grætt milljarða ef ákveðið lyf er samþykkt lætur viðskiptafélaga sína meta hvort lyfið sé of hættulegt eða ekki til að fara inn á markaðinn—og allt er þetta gert með blessun Matvæla- og lyfjaeftirlitsins. Þessi furðulega linkind embættismannanna, eftir því sem best verður ráðið, kemur til vegna þess að yfirmenn lyfjaeftirlitsins ganga oft beint inn í miklu betur borgaðar stöður hjá lyfjafyrirtækjunum eftir að þeir hætta hjá ríkinu. Erfiðir menn, þeir sem bera hag fólksins um of fyrir brjósti, fá ekki þessar góðu stöður.

Þótt ákveðin rannsóknarstofa sé ekki í beinum viðskiptum við lyfjaframleiðanda þá getur framleiðandinn beitt annarri leikfléttu til þess að fá jákvæðari niðurstöðu en efni standa til. Rannsóknarstofa sem hefur tilhneigingu til að fara varlega—er of "neikvæð" í augum lyfjaframleiðandans—fær einfaldlega ekki fleiri verkefni og getur þess vegna allt eins farið á hausinn. Þetta vita eigendur þeirra og þeir reyna því frekar að undirstrika jákvæðari hliðar lyfjanna. Ef kerfið væri virkilega byggt upp með það í huga að tryggja öryggi almennings þá væri því auðvitað stýrt af lyfjaeftirlitinu hjá hvaða aðilum mikilvægar rannsóknir lentu. Auðvitað hafnar lyfjaeftirlitið oft nýjum lyfjum og tekur önnur af markaði eftir að þau hafa reynst of hættuleg—annars væru brotalamirnar of augljósar og stjórnvöld yrðu að gera eitthvað í málinu—en reynslan sýnir að mikið vantar upp á að nóg sé gert.

Nýlega hafa lyfjamálin í vaxandi mæli þróast í þá átt að fyrirtækin láta engan vita um rannsóknir sem ekki sýna "réttan" árangur. Rannsóknir á geðlyfjum ætluðum börnum leiddu t.d. hvað eftir annað í ljós að þau höfðu engin jákvæð áhrif, aðeins aukaverkanir, en þeirri óþægilegu staðreynd var sópað undir teppið og læknar byrjuðu að moka dópi í börnin í stórum stíl. Stórblaðið Washington Post fjallaði um þessi mál í forsíðugrein 6. júlí 2004 og þar kemur fram að þótt feluleikurinn sé brot á alríkislögum þá tilkynni sum fyrirtæki um innan við 10% lyfjatilrauna. Árið 2002 var tilkynnt um 48% tilrauna með krabbalyf. Blaðið veltir því fyrir sér hvort breyta beri reglugerðum svo auðveldara sé að framfylgja þeim og fyrirtækin verði oftar lögsótt. Formaður í félagi sjúklinga haldna sjaldgæfum sjúkdómum, Abbey S. Mayers, er ekki bjartsýnn í viðtali við blaðið og segir: "Hins vegar skal ég ábyrgjast að lyfjaiðnaðurinn mun beita afli til að stöðva slíkt. Þeir vilja ekki að þú vitir um klínískar rannsóknir sem mistakast. Þeir óttast hvaða afleiðingar það hefur fyrir verðbréfin. Margar rannsóknir eru tengdar lyfjum sem nú þegar eru komin á markað og það mundi ganga af sölunni dauðri ef þetta fréttist."

Lyfjaiðnaðurinn og eftirlitið renna svo saman í eitt að meira að segja "sjálfstæðar" rannsóknir sem Drug and Food Administration stundar eru í yfir 50% tilfella gerðar af lyfjafyrirtækjunum. Það er svipað ástand og ef helmingur fanga á Litla Hrauni starfaði í dómsmálaráðuneytinu! Þegar fyrirtækin eru búin að fá gæðastimpil frá eftirlitinu, þá eru þau ekki aðeins með margra ára einokun á lyfi sem selst út um allan heim, heldur fá þau líka öflugt vopn gegn aðilum sem vilja höfða mál gegn þeim. Ef lyf skaða fólk eða drepa og börn fæðast vansköpuð, þá er alltaf hægt að benda á að "hlutlaus" aðili hafi samþykkt lyfin eftir strangar prófanir. Í seinni tíð hefur bandaríska dómsmálaráðuneytið óspart notað þessi rök og gengið svo hart fram fyrir hönd fyrirtækjanna að meira að segja þingmönnum blöskrar. Þeir hafa refsað ráðuneytinu með því að skera niður fjárveitingar sem það fær til að reka mál fyrir dómstólum um $500 milljónir. Dómsmálaráðuneytið kom til dæmis í veg fyrir að ekkja manns sem dó vegna þess að honum var seld gölluð hjartadæla fengi skaðabætur. Dæla af þessu tagi var samþykkt af yfirvöldum, sagði ráðuneytið, og fyrirtækið bar því enga ábyrgð. Maður getur rétt ímyndað sér hvers konar gæðaeftirlit er stundað hjá fyrirtækjum sem bera enga ábyrgð á framleiðslunni.

Það eru margir fletir á þessu máli en einn hefur að gera með samkeppni … eða öllu heldur skort á samkeppni. Talsmenn lyfjafyrirtækjanna kvarta oft yfir því opinberlega hve dýrt og seinlegt það sé að þróa lyf og afsaka þannig um leið hátt verð þeirra til neytenda. En þegar kastljósinu er beint frá þeim þá brosa þeir út að eyrum, því þeir vita vel að engin viðskiptagrein á jörðinni hefur útbúið betra kerfi til þess að koma í veg fyrir nýja samkeppni. Bæði stjórna fyrirtækin öllu ferlinu og svo hafa minni aðilar ekki bolmagn til þess að þræða þessa refilstigu.