vald.org

Lyfjamafían—Seinni hluti

8. ágúst 2004 | Jóhannes Björn

Því skal spáð hér að aspartame (tegund gervisykurs)—best þekkt undir nafninu NutraSweet—verði bannað eftir nokkur ár. Saga NutraSweet er skólabókardæmi um hvernig lyf og kemísk efni eru samþykkt af bandaríska lyfjaeftirlitinu og hvaða hagsmunir eru látnir ráða ferðinni.

Þetta byrjaði allt þegar starfsmaður G.D. Searle Pharmaceuticals (núna hluti af Monsanto), dr. James Schlatter, var að rannsaka lyf ætlað magasárssjúklingum. Eftir að hafa meðhöndlað lyfið þá sleikti hann á sér puttana og undraðist hve sætt efnið var. Hugmyndin um nýjan gervisykur fæddist á því augnabliki.

En róðurinn var erfiður og lengi vel lofuðu tilraunir með aspartame ekki góðu:

Á milli 1976 og 1981 virtist aspartame dauðadæmt. Opinber rannsókn á vinnubrögðum Searle lyfjafyrirtækinu leiddi i ljós að það hafði faldið neikvæðar niðurstöður og kerfisbundið reynt að rugla málið með tilraunum sem í raun ekkert höfðu að gera með öryggi efnisins. Málið komast alla leið inn á þing þar sem Edward Kennedy sagði m.a.: "Víðtækt eðli alveg ótrúlegs fjölda misferla sem FDA fann varðandi marga þætti meginframleiðslu Searle eru geysilega uggvænleg tíðindi."

En þegar stóra stundin rann upp þá var þessu öllu sópað undir teppið og lyfjaeftirlitið vildi allt í einu ekki heyra um neitt annað en tilraunir með smáskammta sem höfðu engin neikvæð áhrif. Hvernig gat þetta gerst með vafasamt efni sem greinilega átti eftir að enda í fæðu hundruð milljóna manna?

Á árunum fyrir 1981 var Donald Rumsfeld (já, sami "Rummy" og situr í núverandi ríkisstjórn) stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Searle. Einum degi eftir að Ronald Reagan tók við embætti, 21. janúar 1981, sótti fyrirtækið um leyfi til að framleiða og selja aspartame. Fjórum dögum síðar, öllum á óvart, var skipt um yfirmann Matvæla- og lyfjaeftirlitsins þegar Arthur Hayes tók við embættinu af Jere Goyan. Það tók sex mánuði eftir þetta fyrir eftirlitið að samþykkja að nota mætti aspartame í þurrkuðum mat. Í nóvember 1983 var það leyft í gosdrykkjum og í þeim sama mánuði hætti Arthur Hayes að vera ríkisstarfsmaður og fékk miklu betur borgaða vinnu hjá auglýsingafyrirtæki Searle!

Öllu virðist þetta hafa verið leikstýrt af Donald Rumsfeld. Samkvæmt skjölum Öldungadeildarinnar þá tjáði Patty Wood-Allott, sem starfaði í söludeild Searle, þingmönnum að Rumsfeld hefði sagt að "ef hann þyrfti þess, þá myndi hann innkalla alla útistandandi greiða, og nákvæmlega sama hvað gengi á, hann skyldi sjá til þess að aspartame yrði samþykkt það ár."

Í dag er árleg sala NutraSweet yfir eitt þúsund milljón dollarar og aspartame er blandað í þusundir vörutegunda út um allan heim. Heilakrabbi í börnum hefur stóraukist síðan asparteme var leyft, en framleiðandinn bendir á að sú þróun hafi byrjað fyrr. Margir læknar og heilsufræðingar vilja setja bein tengsl á milli gervisykurs og feikilegar fjölgunar tilfella Parkinsonveiki, heilakrabba og Alzheimer út um allan heim. Við einfaldlega vitum ekki hvort sú er raunin, en hlutlausir aðilar eru að rannsaka málið.

Það er ein vísindalega sönnuð hætta af aspatame sem allir ættu að vera meðvitaðir um og þá sérstaklega fólk sem býr í heitum löndum. Þegar asparteme hitnar yfir 30 gráður þá er það stórhættulegt. Asparteme er sett saman úr sameindum þriggja efna—fenýlaníni, asparssýru og tréspíritus (sem heldur hinum tveim saman). Ef t.d. sykurlausir gosdrykkir sitja í skemmum þar sem hitastigið fer yfir 30 stig, þá losnar tréspírinn úr fyrrnefndu efnasambandi og drykkurinn verður stórhættulegur. Margir telja að þarna sé komið svar við dularfullum veikindum hermanna sem börðust í fyrra Persaflóastríðinu, en gosdrykkir hersins sátu oft dögum eða vikum saman í 50 stiga hita.

Fáránlegast við allt þetta mál er kannski að fólk notar gervisykur aðallega til að grenna sig eða koma í veg fyrir offitu, en rannsóknir hafa sýnt að það er gagnslaus aðferð. Líkaminn "telur" ekki gervihitaeiningar og fólk er alveg jafn svangt, sama hve miklu magni gervisykurs það sturtar í sig.