vald.org

Ódýr olía … bless!—Framhald

19. ágúst 2004 | Jóhannes Björn

Our Final Century, heitir nýleg bók eftir Sir Martin Rees, sem er breskur stjörnufræðingur. Hann segir:

Innan fárra ára stöndum við andspænis "Endalokum fyrri helmings olíualdar." Þetta entist í 150 ár og leyfði iðnaði, samgöngum, landbúnaði og loks fólksfjölda að eflast í hlutfalli við olíuframboð. Þetta skapaði líka ógrynni fjármuna, sem aftur leiddi af sér hagfræði er stjórnar og hagræðir peningum.

Það virðist sem þetta kerfi hafi búið til peninga úr engu í formi vaxta af lánum sem bankinn bjó til án þess þó að eiga samsvarandi upphæð í innistæðum. Þetta kerfi kallaði á sífellt fleiri lán, sem síðan á einhvern hátt sköpuðu sitt eigið veð í vaxandi hagkerfi. Með öðrum orðum, til að geta gengið upp þá krafðist kerfið hagvaxtar sem aftur var gerður mögulegur með orkuflóði sem byggðist á olíu.

Morgunn seinni helmings olíualdar er að renna upp. Hann einkennist af dvínandi framleiðslu á olíu og öllu sem henni tilheyrir, þar með talið peningakerfið sem er mikilvægast. Það er sjálfgefið að þegar framleiðslan byrjar að dvína þá mun það grafa undan stoðum hagkerfisins og það gæti því hrunið löngu áður en olían klárast eða alvarlegur skortur verður á henni.

Rees kemur hér inn á atriði sem vill standa í mörgum, en það er hvernig bankakerfið lánar aldrei raunverulega peninga heldur notar bókhaldsaðferðir til að búa til lán. Þetta er útskýrt í smáatriðum á http://www.vald.org/falid_vald/kafli08.htm.

Það er athyglisverð hugmynd hjá Rees að tengja orkufyllirí síðustu 150 ára við seðlaprentun, sem auðvitað væri ekki framkvæmaleg í því mæli sem við höfum séð nema í hagkerfi þar sem stöðugt er hægt að þenja út á ódýran hátt. Þótt nóg sé til af kolum og tjörusandi þá verðu vinnsla og flutningur á þeirri orku (svo ekki sé talað um kostnað við mengunarvarnir) miklu dýrari—ólíkt olíu sem nánast streymir til okkar eins og gjöf frá almættinu. Það sem tók jörðina hundruð milljón ár að framleiða hefur verið brennt upp á stuttum tíma.

En blasa endalok fyrri helmings olíualdar við okkur? Er eftirspurn eftir olíu að fara úr böndunum og eru Saudi Arabar á sama tíma að falsa bókhaldið? Það eru engin auðveld svör við þessum spurningum, en margt bendir til þess að nýtt tímabil dýrari orku sé að hefjast. Stóru framleiðendurnir geta rétt haldið í horfinu og margar lindir fara brátt að gefa sig.

Tökum t.d. Cantarell í Mexíkó, sem er önnur afkastamesta olíulind heimsins. Þessi lind fannst 1976 og byrjaði að gefa olíu 1979. Í apríl 1981 var búið að bora 40 holur og framleiðslan var rétt yfir milljón tunnur á dag. Árið 1994 ákvað stjórn Mexíkó að auka uppstreymið, fleiri holur voru boraðar og gífurleg verksmiðja var reist til að dæla eitt þúsund milljón kúbikfetum af köfnunarefni daglega niður í jörðina. Þrýstingurinn á olíunni magnaðist og framleiðslan stökk í 2,2 milljónir fata á dag. En allur gleðskapur tekur enda og nú sjá menn fram á minni þrýsting og að framleiðslan verði komin niður eina milljón fata á dag árið 2008.

Það virðast aðeins vera tvö ríki eftir sem geta aukið olíuframleiðslu sína verulega á næstu árum, en það eru Írak og Íran. Síðan árið 2000 hafa Íranar fundið tugmilljarðar fata í jörðu og þeir virðast vera að flýta sér að semja við frönsk, kínversk, indversk og rússnesk fyrirtæki um að nýta þessa olíu.

Olíuskortur og dýr olía skapa spennu þar sem olíu er að finna. Það verður því ekki kyrrt á þeim vígstöðvum næstu árin. Ísraelsmenn endurtaka oft brandarann um að gyðingar hafi í 40 ár fylgt Móses um eyðimörkina, en hann hafi loks lagt undir sig eina blettinn í Miðausturlöndum þar sem enga olíu var að finna! Þegar harðlínumenn í Bandaríkjunum lögðu rök og gagnrök á vogaskálarnar fyrir innrásina í Írak þá leist þeim sérstaklega vel á loforð sem væntanlegur leiðtogi landsins, Ahamad Chalabi (sem nú er fallinn í ónáð), gaf um að leggja olíuleiðslu frá Kirkuk í Írak til Haifa í Ísrael og leysa þannig orkuvanda gyðinga um allan aldur. Þetta var auðvitað ekki meginástæða innrásarinnar en ágætt dæmi um mikilvægi olíu á þessum síðustu og verstu tímum.