vald.org

Ritskoðun stórblaða

26. ágúst 2004 | Jóhannes Björn

Oft er talað um risablöð eins og New York Times og Washington Post sem "óháða" fjölmiðla. Sú skoðun kemur líka oft fram að raunverulega sé svo til engu hægt að leyna til langframa; risafjölmiðlarnir komist alltaf fyrr eða síðar að sannleikanum. Þetta er eins langt frá sannleikanum og hugsast getur, og það á sérstaklega við þegar atburðarásin varðar þjóðaröryggi.

Carl Bernstein, blaðamaðurinn sem ásamt Bob Woodward afhjúpaði Watergate-hneykslið, rannsakaði skjöl CIA leyniþjónustunnar sem spönnuðu 25 ára tímabil og uppgötvaði að 400 fjölmiðlamenn í fullu starfi voru í raun gerðir út af leyniþjónustunni. (The CIA and the Media, Rolling Stone. 20 október 1977). Stundum voru þeir ráðnir með samþykki eigenda viðkomandi fjölmiðla. Hér koma stór nöfn við sögu eins og Henry Luce (Time), William Paley (CBS), James Copley (Copley News Service) og Barry Bingham (Louisville Courier-Journal).

Í bókinni, The U.S. Intelligence Community (New York 1989) kemst höfundurinn, Jeffrey Richelson, að þeirri niðurstöðu að þegar aldan reið hæst þá hafi CIA haft yfir 800 njósnara og áróðursmeistara á sínum snærum hjá bandarískum fjölmiðlum og upplýsingastofnunum.

Aðdáendahópur New York Times er stór, en flestum kæmi sjálfsagt verulega á óvart að heyra að útgefandi blaðsins, Arthur Hays Sulzberger, var á sínum tíma í nánum tengslum við yfirmann CIA, Allen Dulles, og svo ótrúlegt sem það má vera, skrifaði undir þagmælskuplagg leyniþjónustunnar. New York Times réði a.m.k. tíu njósnara sem blaðamenn á milli 1950 og 1966. Þetta fannst skjalfest í skrifborðsskúffu sjálfs útgefandans. Blaðið viðurkenndi þessa samvinnu í grein 7. júní 1997 (Role of CIA In Guatemala Told in Files of Publisher … sjá gagnasafn blaðsins: http://query.nytimes.com/gst/abstract.html?res=F50816FE3C580C748CDDAF0894DF494D81).

Eins og nú er alkunna þá var leyniþjónustan á fullu spani skömmu eftir seinni heimstyrjöldina að steypa löglegum ríkisstjórnum eða að reyna að bola þeim í burtu. Byltingin í Íran 1953 hafði gengið vel (þótt langtímaafleiðingarnar væru hrikalegar og ekki sé enn séð fyrir endann á þeim) og huldumennirnir snéru sér næst að Guatemala 1954. Yfirmaður CIA, Allen Dulles, óttaðist þó að blaðamaður New York Times á staðnum, Sydney Gruson, væri ekki eins herskár og leyniþjónustan og gæti hugsanlega látið sannleikann flakka á síðum blaðsins. Útgefandi New York Times, Sulzberger, var þessu hjartanlega sammála og lofaði að ritskoða greinar Gruson "af miklu meiri gaumgæfni en venjulega."

Fyrir utan að geta stýrt fréttaflutningi og mótað hugmyndir fjöldans, þá fylgdu því mörg önnur hlunnindi að hafa huldumenn á réttum stöðum. Blaðamenn leyniþjónustunnar gátu ferðast um viðkvæm eða hættuleg svæði án þess að það þætti nokkuð grunsamlegt og safnað upplýsingum fyrir raunverulega húsbændur sína. Þeir komu villandi upplýsingum í umferð, bæði heima og erlendis, og ráku stundum hreinan áróður í fjölmiðlum. Það klökkasta við þetta allt—eins og Carl Bernstein benti á—var ef til vill að þessum mönnum gekk betur í starfi en heiðarlegri kollegum þeirra og fengu tíðar stöðuhækkanir vegna þess að leyniþjónustan mataði þá krassandi upplýsingum og þeir höfðu betri aðgang að háttsettum mönnum innan kerfisins.

Það er rétt að taka fram að margar leyniþjónustur á Vesturlöndum notuðu fjölmiðla á sama hátt og sú bandaríska gerði, en þó hvergi nærri í sama mæli. Bretar voru einna duglegastir að dubba njósnara sína upp sem blaðamenn og heimatökin voru hæg. Sir Campbell Stuart, yfirmaður áróðursdeildar leyniþjónustu Englands í seinni heimstyrjöldinni, var framkvæmdastjóri London Times á millistríðsárunum. (Lawrence C. Soley, OSS and the CIA Subversive Propaganda, New York 1989 … bls. 23)

Í seinni heimstyrjöldinni fæddist ný tegund ritskoðunar sem enn er notuð í dag. Þetta var svokölluð "falin ritskoðun", þar sem upplýsingar "fæddust leynilegar." Fólkið fékk ekki einu sinni að vita að atburðirnir höfðu gerst. Eins og þingmaðurinn frægi, Daniel Patrick Moynihan, benti á í bók sinni, Secrecy (Yale University Press 1998), þá urðu það brátt hefðbundin vinnubrögð að flokka sumar upplýsingar sjálfkrafa sem leynilegar. Ekki nóg með það, heldur þróuðust málin þannig t.d. í Bandaríkjunum og víðar að oftar en ekki var verið að halda upplýsingum leyndum fyrir almenningi—hlutum sem óvinurinn vissi allt um!

Ríkisstjórnir elska leynd. Bretar og Frakkar flokka nærri því allt sem gerist innan kerfisins sem leyndarmál og það er erfitt að toga út úr þeim nokkrar upplýsingar, alveg sama hve ómerkilegar þær virðast vera. Bandarískir sagnfræðingar sem vinna hjá ríkinu vöruðu nýlega við því að atburðir sem gerðust á milli áranna 1960–1964 væru í þoku vegna þess að of mörg skjöl eru enn leynileg. Samtals eru um billjón plögg þar í landi talin of viðkvæm til að þola dagsljósið og sum eru 90 ára gömul! Árið 1996 voru 5.789.625 stimpluð sem leynileg (Moynihan, bls. 74–75).

Það er líka til nokkuð sem við getum kallað sjálfvirka ritskoðun, þ.e. þegar ákveðin íhaldsemi, sem virðist vera innbyggð í fólk almennt, verður til þess að grafa staðreyndir. Þetta fyrirbæri er ekki síður áberandi hjá vísindamönnum en öðru dauðlegu fólki. Tökum t.d. afrek Wright bræðra, sem voru fyrstir manna þess að lyfta sér á loft í flugvél. Virtasta vísindarit Bandaríkjanna, Scientific American, neitaði að viðurkenna afrek þeirra í hvorki meira né minna en fimm ár. Sérfræðingar höfðu tjáð blaðinu að slík flug væri óhugsandi og ritstjórar þess töldu því víst að um gabb væri að ræða. Ein athyglisverðasta ástæðan sem þeir gáfu fyrir þessari bjargföstu skoðun sinni var sú staðreynd að önnur blöð eða tímarit höfðu ekki lagt blessun sína yfir flugið!

Oft er bent á Watergate-hneykslið og sagt að það sanni ritfrelsi bandarískra fjölmiðla. Það var vissulega mikið afrek að fletta ofan af lygum forseta landsins, en málið hafði samt ekkert að gera með þjóðaröryggi. Það var fyrst og fremst pólitískur atburður sem snérist um sérstæð vandamál Nixson, manns sem gekk um Hvíta húsið um nætur og talaði við myndir af látnum forsetum. Innsti hringurinn í Hvíta húsinu treysti honum ekki einu sinni fyllilega.

Hefur fólkið í landinu, sem auðvitað borgar kaup embættismannanna, rétt til þess að vita hvað þeir eru að bralla? Útgefandi Washington Post, Katherine Graham, gaf svar við þeirri spurningu þegar hún ávarpaði háttsetta menn í leyniþjónustunni 1988. Samkvæmt bók Norman Solomon, The Habits og Highly Deceptive Media, þá sagði hún:

"Það eru sumir hlutir sem fólk almennt þarf ekki að vita og ætti ekki að vita. Ég trúi því að lýðræði blómstri þegar ríkisstjórn tekur réttmæt skref til að hylma yfir leyndarmál sín og blöðin geta ákveðið hvað þau prenta."