vald.org

Og sigurvegarinn er … Kerry!

6. september 2004 | Jóhannes Björn

Samkvæmt öllum helstu skoðanakönnunum er George W. Bush með 11% meira fylgi en John Kerry. Enginn forseti með slíkt fylgi aðeins tveim mánuðum fyrir kosningar hefur í fortíðinni tapað. Hér verður þó gengið á ystu nöf og fullyrt að í þetta skipti eigi hið ómögurlega eftir að gerast: Bush tapar í nóvember.

Þegar moldviðri kosningabaráttunnar lýkur og fólk gengur að kjörborðinu þá ráða vindar efnahagslífsins mestu um hvernig það kýs. Þannig hefur það venjulega verið. Baráttan gegn hryðjuverkum og stríðið í Írak hafa hvergi nærri því eins mikið að segja (nema náttúrulega ef hryðjuverk verða framkvæmd innan landamæra Bandaríkjanna fyrir kosningar).

Því nær sem dregur kosningum þeim mun þrengra verður sjónarhorn fólks og það byrjar að einbeita sér að ákveðnum spurningum: Hvernig hef ég það fjárhagslega? Hvernig er atvinnuútlitið hjá mér og fjölskyldu minni? Verð ég með heilsutryggingar á næsta ári? Verða eftirlaunin til staðar þegar þar að kemur? Hafa foreldrar mínir efni á að kaupa öll lyf sem þau þurfa?

Eins og staðan er í Bandaríkjunum í dag þá eru ekki mörg jákvæð svör við þessum spurningum. Nýjustu tölur um fátækt sýna að milljónir hafa bæst í þann hóp í stjórnartíð Bush og fjöldi þeirra sem hafa engar heilsutryggingar er kominn yfir 45 milljónir. Lyfjafyrirtækin, sem gefa óspart í sjóði þingmanna, hækka lyfjaverðið á hverju ári langt umfram verðbólgustigið. Ástand atvinnumála er slíkt að Bush verður fyrstur forseta síðan Herbert Hoover til að klára kjörtímabil með færri störf í landinu en voru fyrir hendi þegar hann tók við stjórnartaumunum. Mikilvægast af öllu er þó að þau störf sem núna er verið að skapa borga að meðaltali minna en störfin sem glötuðust.

"Farðu frekar að sofa svangur en að vakna skuldugur," sagði Benjamin Franklin, og margir Bandaríkjamenn hefðu betur fylgt þeirri reglu. New York Times varar við því í grein í gær http://www.nytimes.com/2004/09/05/business/yourmoney/05view.html að þjóðin sé að sökkva í skuldum og bendir máli sínu til stuðnings á þá staðreynd að frá ársbyrjun 2001 til ársloka 2003 hafi þjóðarframleiðslan aukist um 1,317 billjónir (amerískar trilljónir) á meðan skuldirnar fóru upp um 4,2 billjónir. Með öðrum orðum, hverjum einum dollara í verðmætasköpun var mætt með $3,19 í skuldasöfnun. Ofan á þetta bætist botnlaus skuldasöfnun ríkisins og gífurlegur vöruskiptahalli.

Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við skuldasöfnun í heilbrigðu hagkerfi. Allir peningar í umferð eru raunverulega skuldir því bankakerfið er uppspretta allra peninga og bankarnir koma þessum peningum í umferð með því að lána þá. http://www.vald.org/falid_vald/kafli08.htm. Vandamálið rís þegar skuldirnar fara langt fram úr getu hagkerfisins til að auka þjóðartekjur til jafns við skuldasöfnunina.

Hér áður fyrr höfðu menn ekki miklar áhyggjur af skuldasöfnun ríkis og einstaklinga þegar hagkerfið fór í gegnum lægð. Fyrr eða síðar byrjuðu hjólin aftur að snúast, eftirspurn jókst, fólk fékk betur launuð störf og borgaði skuldir sínar. Það eru e.t.v. mestu og verstu tíðindi seinni áratuga að þessi þróun virðist ekki lengur eiga sér stað í Bandaríkjunum og víða á Vesturlöndum.

Uppsveiflan svokallaða síðustu ár á Bandaríkjamarkaði er raunverulega engin uppsveifla. Atvinnusköpun er óveruleg og hvergi nærri í takt við fjölda nýrra einstaklinga sem í hverjum mánuði koma ferskir inn á vinnumarkaðinn. Ógnvænlegast er þó að hagkerfið er að skapa störf sem að meðaltali borga lægri laun en þau störf sem áður töpuðust. Tölurnar eru sláandi. Fólk sem missti vinnuna í lægðinni 1981—82 og var endurráðið 1984 fékk í 58% tilfella betur borgaða vinnu—en þeir sem misstu vinnuna í síðustu efnahagslægð og hafa síðan fundið ný störf hafa í aðeins 48% tilfella fengið betur borgað.

Bandarískur vinnumarkaður er mjög sveigjanlegur. Það er frábært þegar vel gengur, en slæmar fréttir gegnsýra líka kerfið með ótrúlegum hraða. Samkvæmt nýrri könnun þá segja 62% starfsmanna landsins að vinnuálag hafi aukist á síðustu sex mánuðum og 52% segjast vera "of þreyttir og yfirbugaðir." http://www.nytimes.com/2004/09/05/health/05stress.html?hp

Það er erfitt að koma auga á einhver jákvæð teikn á lofti í bandarísku hagkerfi sem gætu bjargað Bush. Mörg hátæknifyrirtæki, t.d. Intel og Cisco, eru með allt of stóran lager og verða að draga úr framleiðslunni. Bílaframleiðendur eru að hægja á færibandinu og arðvænlegasta framleiðslan, risajeppar og lúxus-pallbílar, eru á undanhaldi. Fasteignamarkaðurinn og lágir vextir hafa raunverulega haldið öllu gangandi í nokkur ár, en vextir verða að hækka og fasteignamarkaðurinn leggst brátt í dvala í mörg ár eftir að hafa hækkað allt of mikið á stuttum tíma.

Bandaríska hagkerfið nær ekki fullum bata nema kaupmáttur heimilanna aukist. Gjaldþrot eru þegar í sögulegu hámarki og þeim fjölgar mikið ef uppgangurinn sem allir treystu á verður aldrei að raunveruleika. Helstu viðskiptaþjóðirnar fá þá líka skell þegar kaupmátturinn dregst saman. Það eru vafalaust margar ástæður fyrir þessu hættulega ástandi, en þrjár eru alveg augljósar.

Í byrjun nóvember skiptir allt þetta miklu meira máli heldur en hvað Kerry var að bralla fyrir yfir 30 árum.