vald.org

Að búa til peninga úr engu

19. september 2004 | Jóhannes Björn

Margir sem hafa lesið áttunda kafla Falið vald http://www.vald.org/falid_vald/kafli08.htm eiga samt erfitt með að kyngja því að bankakerfið geti búið til peninga úr engu. Helsta ástæðan fyrir þessu er vafalaust sú að venjulegt fólk fær venjulega ekki eitthvað fyrir ekkert og er vant því að þurfa að greiða sínar eigin skuldir á gjaldaga. Bókhaldsreglur fyrirtækja og heimila gera ráð fyrir að dálkarnir gangi upp.

Bankar eru gamlar og virðulegar stofnanir. Þeir starfa samkvæmt settum reglum og virðast í eðli sínu íhaldsamir. Allt tal um sjónhverfingar á þeim bæ gengur guðlasti næst og reglur um eigið fé banka, viðurkenndar bókhaldsreglur og stýrivextir Seðlabankans láta líka allt líta út slétt og fellt á yfirborðinu.

Það gerir líka dæmið tormeltara að við þetta allt bætist að opið hagkerfi sem stundar viðskipti og fjárflutninga á milli landa er í eðli sínu nokkuð flókið. Til þess að við getum áttað okkur á þessu kerfi og séð svo ekki verði um villst að það er ekkert annað en nútíma gullgerðarlist, þá verðum við að skoða það í sinni einföldustu mynd. Þegar grundvöllurinn liggur ljós fyrir þá kemur allt hitt af sjálfu sér. Þessi grein gengur út frá því að lesandinn hafi líka skoðað þriðja kafla Falið vald http://www.vald.org/falid_vald/kafli03.htm auk þess áttunda.

Einu sinni var verðgildi allra peninga byggt inn í myntina sjálfa. Gull- eða silfurpeningur keypti ákveðið magn vöru eða þjónustu. Þetta voru í eðli sínu ekkert annað en sérstakt form vöruskipta því gull- og silfurpeningar voru einfaldlega eftirsóttar vörutegundir sem voru þægilega léttar og það var auðvelt að meta verðgildi þeirra. Gullpeningur sem var sleginn í Konstantínópel hélt t.d. verðgildi sínu og var notaður í alþjóðlegum viðskiptum í 800 ár!

Næsta skref viðskiptasögunnar var stigið þegar byrjað var að gefa út seðla sem voru ávísanir á gull eða silfur. Þetta hafði þær praktísku afleiðingar að seðlaútgáfan var alltaf miklu meiri en verðmæti málmanna sem gullsmiðir, bankar eða ríkisstjórnir raunverulega áttu. Kerfið hlaut því að springa fyrr eða síðar og í stjórnartíð Nixon var dollarinn, svo eitt dæmi sé nefnt, tekinn úr sambandi við gull. Nixon sagði við það tækifæri að gull væri fánýtt og frumstætt, en síðan hefur það hækkað um 1200% gagnvart dollara.

Í dag eru peningaseðlar aðeins pappír sem fólk tekur við af gömlum vana. Nákvæmlegasta skilgreining sem hægt er að finna á nútíma peningum er sennilega þessi: Peningar eru hugmynd studd tiltrú. Það er ekki hægt að heimta að fólk taki við þessum pappírum og það hefur oft komið fyrir að almenningur í heilum þjóðríkjum hefur hreinlega neitað að taka við þeim. Skömmu fyrir frönsku stjórnarbyltinguna var ástandið svo slæmt að yfirvöld urðu að hóta fólki dauðarefsingu fyrir það eitt að neita að taka við pappírspeningum.

Það er sjálfgefið að þegar verðmæti eru sköpuð með því að sletta bleki á pappír þá verður kapphlaupið um að sitja á réttum stað við kjötkatlana (eða prentvélarnar) gífurlega mikilvægt. Bankaeigendur skildu þetta snemma og þeir hafa í hundruð ára rekið markvissan áróður fyrir gjaldmiðli sem sífellt hefur minna á bak við sig. Raunveruleg verðmæti, gull eða silfur, sem þessir seðlar voru upphaflega tryggðir með hurfu síðan smátt og smátt út úr myndinni. Í þessari baráttu var stofnun bandaríska seðlabankans stærsti sigurinn og leynimakkinu í kringum stofnun hans er lýst í smáatriðum í Falið vald. Þar náðist áfangi sem baktjaldamenn höfðu barist fyrir látlaust í yfir 100 ár.

Þessi barátta fór að mestu fram hjá almenningi, en bankamenn skildu samhengið vel og það sannast best á $10.000 seðlinum. Maður gætið ætlað að svo veglegur seðill (sem er notaður í viðskiptum banka á milli) skartaði mynd af einhverjum ástkærum forseta landsins, en í staðinn blasir við andlit manns sem nærri því enginn þekkir: Samuel Chase! Og hver var Samuel Chase? Hann var fjármálaráðherra í stjórn Abraham Lincoln (!) en hafði hjálpaði bankaveldinu að koma í gegn lögum sem lögðu grundvöllinn að alríkisbanka. Það var ómetanlegt skref í stríði sem vannst endanlega löngu síðar (1913) og bankaveldið gleymdi honum ekki.

Seðlabanki Bandaríkjanna var risastórt skref fyrir bankaveldið og endanlegur heimssigur vannst síðan þegar pappírinn var tekinn úr sambandi við gull, Alþjóðabankinn var stofnaður og gjaldmiðlar voru látnir fljóta frá degi til dags. Þessir svokölluðu "spákaupmenn" sem við heyrum stundum nefnda í sambandi við óraunsæar sveiflur gjaldmiðla—þar sem þjóðir tapa oft milljörðum dala á nokkrum dögum—eru í flestum tilfellum fjölþjóðabankar.

En lítum á tæknileg töfrabrögð bankakerfisins í dag.

Allir seðlar í umferð koma frá bankakerfinu og þeir eru settir í umferð í formi lána. Bankakerfið er uppspretta allra peninga. Það eru fjögur atriði sem gera bankastarfsemi algjörlega einstæða og gjörólíka öllum öðrum viðskiptum:

Seðlabankinn hefur áhrif á seðlamagn í umferð með:

Seðlabankinn getur hins vegar aldrei neitað að rétta bönkum (sem borga honum uppsetta vexti) eins mikið seðlamagn og þeir telja sig þurfa hverju sinni. Seðlabankinn starfar því líkt og hitaveitan, sem alltaf verður að dæla vatni inn á kerfið, en getur samt haft áhrif á neysluna með því að hækka eða lækka gjaldskrána. Þetta er mikilvægt atriði í ljósi þess sem næst kemur og fyrr var drepið á.

Seðlabankinn er hins vegar alveg óvirkur þegar bankarnir sjálfir fjárfesta og þessi furðulegu sannindi virðist standa blýföst í mörgum: Þegar banki fjárfestir—kaupir hús, fyrirtæki, borgar starfslaun eða hvað sem er—og gerir það í takt við veltu annarra banka, þá kostar það hann ekki neitt.Þetta byggist einfaldlega á því að bankarnir gefa út tékka á sjálfa sig og sumir þeirra koma til baka (eru lagðir inn á reikning viðskiptavina og jafnaðir út í bókhaldinu eins og lýst er í áttunda kafla Falið vald). Þegar við lítum á bankakerfið í heild þá koma allir tékkarnir til baka. Fólk leggur þessa tékka inn á reikninga sína og fær vexti, en þeir eru líka lánaðir út jafnóðum á hærri vöxtum.

Ef það væri aðeins einn banki starfandi á Íslandi og landið væri með lokað hagkerfi þá gæti hann, fræðilega séð, keypt öll hús og öll fyrirtæki landsins. Allir landsmenn væru með reikning í þessum eina banka. Einn góðan veðurdag byrjar bankinn að kaupa öll hús, jarðir, skip og fyrirtæki á markaðinum. Hann borgar með sínum eigin tékkum og þeir sem taka við þeim leggja þá inn á reikninga sína í bankanum. Ekki aðeins kostar þetta bankann alls ekki neitt, heldur eykst veltan þegar hann lánar þessa peninga (þessar nýju innistæður) út aftur. Þetta er auðvitað furðulegt, en algjörlega borðliggjandi, og gert mögulegt með bókhaldsaðferð bankans, þar sem öll ný lán eru nýir peningar í umferð, sem aftur jafnast út í bókhaldinu með því að færa skuldirnar til eignar (sjá lengri umfjöllun um þetta tæknilega atriði í áttunda kafla Falið vald).

Ef það eru fjórir bankar í landinu og hver þeirra er með 25% veltunnar þá geta þeir keypt eins mikið og þeir vilja svo lengi sem hver þeirra gefur út tékka fyrir nálægt 25% heildarfjárfestinga þeirra allra. Kerfið er alltaf hið sama þótt bönkum fjölgi og velta þeirra sé mjög misjöfn. Þetta skildu menn á Feneyjum á fjórtándu öld og þess vegna voru sett þar ströng lög um almennar fjárfestingar banka. Á tuttugustu og fyrstu öldinni er orðið tímabært fyrir Íslendinga að setja nýjar reglur um starfsemi banka sem geta skrifað tékka á sjálfa sig.

Það er ekki raunhæft að stinga upp á að gulltrygging peninga verði tekin upp á ný, en ofangreind þrjú atriði myndu stuðla að miklu heilbrigðara bankakerfi á Íslandi í dag.