vald.org

Hvert stefnir hagkerfi jarðarinnar?

10. október 2004 | Jóhannes Björn

Haust var að ganga í garð árið 1929 þegar Astor (fimmta kynslóð) gekk á fund bankastjóra bankans sem ávaxtaði auð fjölskyldunnar og sagði: "Ég hef aldrei fett fingur út í hvernig þú ráðstafar fjármunum fjölskyldunnar. Rétt? En nú er ég með ákveðnar leiðbeiningar. Seldu öll hlutabréf—og alla aðra pappíra—og keyptu ríkisskuldabréf fyrir alla upphæðina." Augu bankastjórans glenntust upp af undrun og hann hrópaði: "En herra Astor!, hlutabréfin eru að hækka og allir vita að þau halda áfram að hækka og hækka. Þú missir af gríðarlegum gróða ef þú selur núna." Astor einblíndi á hann í nokkrar sekúndur og endurtók síðan skilaboðin: "Seldu allt og keyptu ríkisskuldabréf." Hann hafði engu við þetta að bæta og strunsaði út. Nokkrum vikum síðan féll botninn úr hlutabréfamarkaðinum, fasteignaverð byrjaði að falla og heimskreppan mikla hófst. Á næstu árum lækkaði verð fyrirtækja og fasteigna stöðugt, en ríkisskuldabréfin héldu sínu nafnverði og borguðu meira að segja vexti. Árið 1933 var Astor fjölskyldan því í hópi örfárra einstaklinga sem gat keypt margfalt meira fyrir peningana sína en fékkst fyrir þá við upphaf kreppunnar.

Hvernig mundi Astor fjárfesta í dag?

Hagkerfi sem byggir botnlausum skuldum og endalausri útþenslu lánastarfsemi er alltaf á suðupunkti á einhverju svæði. Skuldir fátækra landa eru stöðugt í sviðsljósinu, árið1997 hrundi peningakerfi margra Asíuríkja og nýlega hefur mest öll Suður-Ameríka verið á barmi gjaldþrots. Menn eru alltaf á nálum um að nógu stórt hrun á einum markaði taki allt kerfið með sér í fallinu og allt heila klabbið hrynji eins og spilaborg. Á seinni árum hefur aukið ójafnvægi á bandaríska markaðinum byrjað að valda mörgum sérfræðingum verulegum áhyggjum. Það er ekki ástæðulaus ótti því meiri háttar samdráttur á þeim slóðum yrði allt að því rothögg á hagkerfi heimsins.

Mótsagnir í bandaríska hagkerfinu eru orðnar svo hrikalegar að þær minna helst á ævintýri Lísu í Undralandi.

Þetta getur varla gengið mikið lengur. Verðbréfamarkaðurinn og dollarinn hljóta að falla á næstunni.

Næstkomandi þriðjudag verður gerð opinber stór könnun sem þrjár bandarískar stofnanir unnu (Ford Foundation, Rockefeller Foundation og Annie E. Casey Foundation). Skýrslan heitir Working Hard, Falling Short og er úttekt á fjárhagsstöðu vinnandi fólks þar í landi. Eins og nafn skýrslunnar bendir til þá er ástandið ekki glæsilegt í landi tækifæranna. Ekki færri en 9,2 milljónir fjölskyldur, þar sem a.m.k. einn fjölskyldumeðlimur er í fullu starfi, rétt skrimta af kaupinu eða hafa ekki einu sinni efni á öllum lífsnauðsynjum. Í þessum hópi eru 20 milljónir barna. Flest þetta fólk hefur engar heilsutryggingar og er alltaf á nálum um að eitthvað óvænt gerist. Ef einhver í fjölskyldunni t.d. fótbrotnar eða fær alvarlegan sjúkdóm þá eru engir varasjóðir fyrir hendi og erfiðleikarnir stigmagnast. Þessi könnun er mikilvæg fyrir þá sem spá í efnahagslífið vegna þess að hún sýnir að ástandið fer versnandi.

Það er ekkert óeðlilegt við að reka ríkiskassann með halla þegar efnahagslífið á í erfiðleikum. Ásamt lægri vöxtum eykur það peningamagn í umferð, fólkið kaupir meira, verksmiðjur auka framleiðsluna, fleiri fá vinnu, tekjur hækka og skatttekjur ríkisins aukast aftur. Það sem stjórn Bush aftur á móti gerði var að nota efnahagslægðina sem afsökun til þess að koma í gegn ákveðnum grundvallabreytingum á skattalögunum. Skattar af fjármagnstekjum voru lækkaðir margfalt meira en skattar af launum. Með öðrum orðum, maður sem vegna ríkidæmi síns græðir milljón dollara á ári borgar miklu minni skatta en heilaskurðlæknir sem fær milljón dollara í kaup.

Það er deginum ljósara að skattalækkanir Bush snérust miklu meira um stéttabaráttu heldur en hagfræði.

Síðasta föstudag voru nýjustu tölur um atvinnusköpun birtar í Bandaríkjunum. Þær voru slæmar því aðeins 96.000 ný störf urðu til í september. Það er slæmt vegna þess að:

Fyrir sjö mánuðum var fjallaði þessi síða um ákveðið kapphlaup sem fer fram í bandaríska hagkerfinu og varpaði fram þeirri spurningu hvort það mundi takast að lyfta tekjum almennings nógu hratt til þess að koma efnahagslífinu af stað. Nema að kaupmátturinn aukist verulega þá er ekki endalaust hægt að reka ríkið með $500 milljarða halla á ári, stunda viðskipti við útlönd með öðrum $500 milljarða halla og greiða vexti af $9 billjón skuldum heimilanna. Í grein frá 5. mars var vandinn greindur á þessa leið:

Veiking vinnumarkaðarins í Bandaríkjunum kemur líka greinilega í ljós þegar opinberar tölur um kaupmátt og gróða fyrirtækja eru skoðaðar. Fyrir 30 árum var gróði (fyrir skatta) allra fyrirtækja í landinu (einkafyrirtæki meðtalin) 25% af þjóðartekjum. Þegar afkoma fyrirtækja batnaði hér áður fyrr þá hækkuðu laun fólksins í svipuðu hlutfalli. Fólkið í landinu hafði einfaldlega bolmagn til að semja um kjör sem voru í takt við þjóðartekjur. Þessi þróun hætti í kringum 1995 [með tilkomu NAFTA, viðskiptahalla við þrælakistu sem gengur undir nafninu Kína, flóðs góðra starfa til Indlands o.s.frv.] og í ársbyrjun 2001 var gróði fyrirtækja kominn í 30% af þjóðartekjum. Vinnumarkaðurinn er orðin svo veikur að fyrirtækin geta stungið öllum ávinningi beint í vasann—og 5% bandarískar þjóðarframleiðslu er engin skiptimynt. Það er alveg nýtt í Bandaríkjunum að vaxandi gróði fyrirtækja skili sér ekki einu sinni í launum sem halda í við verðbólgustigið. Dean Baker, hagfræðingur við Center for Economic and Policy Research segir: "Í þau 40 ár sem við höfum kannað tímakaup höfum við aldrei séð svo litlar hækkanir."

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er það auðvitað vinnandi fólk sem heldur hagkerfinu gangandi með því að kaupa vörur og þjónustu. Ef ofangreind þróun heldur áfram þá byrjar gróði fyrirtækja á Bandaríkjamarkaði brátt að minnka, atvinnuleysi eykst og dollarinn fellur. Á síðustu árum hefur hafa lágir vextir haldið neyslustigunu uppi vegna þess að fólk hefur getað slegið hagstæð lán út á húsin sín og keypt bíla á góðum kjörum, en nú sá leikur á enda þar sem vaxtabotninum er náð. Lágir vextir eru þægilegir, en þeir hafa líka orðið til þess að fólk lifir um efni fram og skuldir heimilanna hafa aldrei verið hærri. Þetta mælist best í vöruskiptahalla landsins sem er um $500 milljarðar á ári (tala sem er erfitt að negla niður vegna þess að alls konar þjónusta reiknast ekki með). Eins og Warren Buffet komast að orði, það er verið að veðsetja verðmæti landsins í ógnvekjandi mæli.

Því miður þá virðist allt stefna í að neyslan dragist brátt saman á Bandaríkjamarkaði—þ.e. á öllu nema lúxusvarningi. Það þýðir lægra verð á kauphöllum og fallandi dollara. Það þýðir minnkandi hagvöxt um allan heim. Þetta getur gerst á morgun eða eftir nokkra mánuði, nákvæm tímasetning er aldrei möguleg því atburðirnir stjórnast líka af hvað fólk hugsar. Nýr forseti gæti auðvitað breytt miklu með sanngjarnari skattalögum og hærri lágmarkslaunum, en er nægur tími fyrir hendi og tekur annar forseti við?