vald.org

Og sigurvegarinn er … Jesús!

3. nóvember 2004 | Jóhannes Björn

Vald.org hefur frá byrjun reynt að rýna í framtíðina og spá fyrir um þróun mikilvægra mála. Þetta hefur venjulega tekist nokkuð vel. Fyrir átta mánuðum birtist fyrsta greinin um stöðu dollarans—á tíma þegar margir, t.d. Bank of America, voru að spá hærra gengi hans—þar sem varað var við hugsanlegri lækkun og nákvæmlega útskýrt hvers vegna. Þessi síða var líka með fyrri skipunum að benda á væntanlega hækkun olíu og gulls. Og það skal endurtekið hér og nú að dollarinn á eftir að lækka enn meira og verðbréf á helstu mörkuðum heimsins eiga eftir að lækka verulega.

Spádómurinn um sigur Kerry brást hins vegar illilega. Þótt utanríkisstefna Bush sé í molum og efnahagslífið heima fyrir sýni mörg sjúkdómseinkenni, þá var máttur þeirra himnafeðga í kosningabaráttunni stórlega vanmetin á þessari vefsíðu. Jesús vann nefnilega kosningarnar!

Samkvæmt nýlegri könnun þá telja yfir 40% Bandaríkjamanna sig vera endurfædda í Kristi (ein skoðanakönnun taldi 46% vera endurborna). Auðvitað er engin nákvæm skilgreining á hvað það þýðir að vera "born again Christian" og hugmyndir fólks um það hljóta að spanna vítt svið, en það leikur samt enginn vafi á að hér er á ferðinni hreyfing sem hefur vaxið með ótrúlegum hraða á seinni árum. Það er mjög erfitt að átta sig á hvers vegna þessi þróun fer fram í einmitt Bandaríkjunum. Ef þetta væru t.d. ósjálfráð viðbrögð fólks við vaxandi líftækni, þar sem vísindamenn leika guð í vaxandi mæli, þá mundi endurfæddum Kristmönnum líka fjölga verulega í öðrum löndum.

Ofsatrú og stjórnmál hafa alltaf farið illa saman. Nú á tuttugustu og fyrstu öldinni er aftur farið að tala um krossferðir og vissir trúarsöfnuðir í BNA borga líka allan flutningskostnað fyrir gyðingafjölskyldur sem vilja flytja til Ísrael. Það er gert til að flýta fyrir biblíuspádómum um endalok heimsins. Þá væru Ísraelsmenn og Palestínumenn fyrir löngu búnir að semja um frið ef túlkanir fornra trúarrita væru ekki að þvælast fyrir þeim.

Prestar í bandaríska biblíubeltinu fullyrtu fyrir kosningar að Guð sjálfur hafi sett Bush í Hvíta húsið. Það leikur líka enginn vafi á að eldprestar í Ohio, þar sem úrslit kosninganna réðust, gerðu gæfumuninn á kjördag. Þeir hrósuðu Bush fyrir hönd Guðs og settu á laggirnar frábært net kosningasmala.

Bush fékk mest fylgi í fátækustu fylkjunum. Það hljómar eins og lélegur brandari, en er grafalvarleg staðreynd, að það skiptir fátæklinga biblíubeltisins litlu máli þótt heilsutryggingarnar séu foknar út í veður og vind, fyrirtækin loki og fátæktin grafi um sig þegar dómsdagur er á næstu grösum.