vald.org

Erfið sigling framundan á fjármálamörkuðum

29. janúar 2005 | Jóhannes Björn

Eru John W. Snow, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og Alan Greenspan, seðlabankastjóri, snillingar sem búa yfir æðri skilningi á hagfræðinni. Sjá þeir handan sjóndeildarhringsins sólríka daga og gullin tækifæri, nýtt blómaskeið sem öllum öðrum yfirsést?

Eða eru þeir aðeins að reyna að hughreysta markaðinn?

Þegar heilagur Greenspan segir að góðar hagtölur gefi seðlabankanum svigrúm til þess að hækka stýrivexti, þá er hann e.t.v. miklu heldur að reyna að koma í veg fyrir frekara fall dollarans, því hagtölurnar eru að mörgu leyti skelfilegar. Hann getur vitanlega ekki viðurkennt að hann sé að reyna að lappa upp á dollarann, því það sýndi veikleika og dollarinn félli þá um leið.

Greenspan nýtur enn virðingar innan veggja kauphalla og getur haft róandi áhrif á spákaupmenn, en þegar John Snow byrjar að lýsa ástandi efnahagsmála þá er allt eins víst að nagandi óvissa eða ótti grípi um sig hjá þeim skilja þau mál. Maðurinn er grunsamlega jákvæður og talar eins og hann sé ráðherra yfir allt öðru hagkerfi.

Þrátt fyrir að dollarinn hafi hrapað um allt að 40% gagnvart helstu viðskiptaríkjum Bandaríkjanna þá heldur viðskiptahallinn áfram að setja ný met mánuð eftir mánuð. Í nóvember s.l. var hallinn mesti í sögu landsins, $55,5 milljarðar, og í desember var enn slegið nýtt met með yfir $60 milljarða halla. Fyrir árið 2004 allt var viðskiptahallinn $609 milljarðar. John Snow segir þetta lýsa öflugu efnahagskerfi og miklum kaupmætti! Hann kennir öðrum þjóðum um viðskiptahallann vegna þess að þær séu ekki með nógu "sveigjanlegt" hagkerfi og geti því ekki keypt nóg af Ameríku.

Eins og byrjað var að fjalla um á þessari síðu fyrir nærri 11 mánuðum þá virðist bandaríska hagkerfið vera að ganga í gegnum grundvallarbreytingu: Kaupmáttur launa hækkar ekki þrátt fyrir hagvöxt síðustu þriggja ára. Hagvöxturinn er því allur tekinn af láni með viðskiptahalla, gífurlegum hallarekstri ríkissjóðs og lánum á fasteignamarkaði. Allir nema fyrirtæki landsins hafa eytt um efni fram.

Ekkert nema vaxandi kaupmáttur getur bjargað hagkerfinu. Það er engin önnur aðferð fyrir hendi til að borgað botnlausan hallarekstur heimila og ríkis, þ.e. nema að draga stórkostlega úr neyslunni með því að lækka lífskjörin í landinu.

Allt er þetta nógu skuggalegt en það er þó ein önnur þróun í gangi sem sennilega skelfir Greenspan meira en nokkuð annað og fær hann og John Snow til að "kjafta" markaðina til eins og mögulegt er. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur bent á þriggja ára þróun sem sýnir að seðlabankar heimsins eru stöðugt að losa sig við dollara og bæta á sig evrum. Þessi þróun var nýlega staðfest í víðtækri skoðanakönnun meðal háttsettra starfsmanna seðlabanka út um allan heim, athugun sem Royal Bank of Scotland fjármagnaði. Til að fá eins nákvæma niðurstöðu og mögulegt var þá var farið með öll samtöl sem trúnaðarmál.

Það voru starfsmenn Central Banking Publication, Robert Pringle og Nick Carver, sem gerðu þessa könnun og þeir höfðu þetta að segja í lokin:

"Það er óyggjandi þróun í átt til evrunnar … seðlabankar eru í vaxandi mæli byrjaðir að taka evruna alvarlega … Þótt seðlabankar muni að einhverju leyti halda áfram að fjármagna bandaríska greiðsluhallann, þá geta stjórnvöld þar ekki reitt sig á þessa peninga í sama mæli og í fortíðinni."

Það eru ótrúleg forréttindi fyrir þjóð að hafa gjaldmiðil sem notaður er sem viðmiðun út um allan heim. Með það í huga þá er það líka algjörlega óskiljanlegt hvernig sitjandi stjórn í Bandaríkjunum heldur á spöðunum og virðist tilbúin að glata þessum forréttindum. Þegar breska pundið steig úr hásætinu eftir seinna stríð og vék fyrir dollaranum þá skall á 30 ára kreppa þar í landi. Er Greenspan orðinn svona gleyminn?

Sennilega á dollarinn eftir að falla um önnur 10–15%, en þá verður reynt að grípa í taumana. Keppnin við evruna ræðst í kjölfarið.

Flest bendir til þess að hlutabréfamarkaðir eigi eftir að lækka verulega á næstunni. Nákvæm tímasetning er ekki möguleg, en ef við lítum t.d. á Dow Jones þá hefur það verið að hjakka á milli 10.000 og 10.500 í langan tíma. Því skal spáð hér að Dow fari niður í 8.000 eða neðar áður en það nær að fara yfir 11.000.