vald.org

Erfið sigling framundan … framhald

5. febrúar 2005 | Jóhannes Björn

Heilagur Greenspan sannaði enn einu sinni að hann getur, alla vega til skamms tíma, talað markaðina upp eða niður.

Fréttirnar s.l. föstudag voru afleitar. Bandaríska hagkerfið skapaði miklu færri störf en menn höfðu áætlað. Það sem verra var, illa borguðum störfum fjölgaði mest og vikulaunin (meðaltal) hækkuðu aðeins 2,3% á milli janúar 2004 og janúar 2005. Það heldur ekki einu sinn í við verðbólgu og er ekki í neinu samræmi við reynslu manna af efnahagslegum uppsveiflum síðustu 60 ára. Þetta eru ekki beint tölur sem borga billjón dollara halla.

En líkt og riddarinn sem réðist á vindmillur þá var Greenspan bjartsýnin uppmáluð á fundi sjö ríkustu þjóða heims: "Ég hef á öðrum vettvangi rökstutt að hallarekstur bandaríska ríkisins getur ekki endalaust haldið áfram að aukast, en sem betur fer mun aukinn sveigjanlegi ameríska hagkerfisins líklega leyfa aðlögun sem ekki felur í sér verulegra neikvæðrar afleiðingar fyrir efnahagslífið."

Eins og venjulega dásamaði Greenspan opnari hagkerfi víða um heim og örar tækniframfarir, en það sem fékk markaðina til að kaupa bandarísk hlutabréf og dollara á föstudag voru þessi orð meistarans: "Við erum hugsanlega að nálgast þá stund, ef við erum ekki þar nú þegar, þar sem þeir sem selja til Bandaríkjanna, ef dollarinn fellur frekar, munu ekki vilja taka á sig frekari áföll hvað gróða varðar." Sem sagt, það dregur væntanlega úr innflutningi og viðskiptahallinn lagast.

Greenspan getur ekki bent á neinar beinharðar tölur máli sínu til stuðnings. Til að byrja með þá er viðskiptahalli Bandaríkjanna að langmestu leyti við lönd sem stunda nútíma þrælahald og hugsa ekki einu sinni um gengi dollarans. Vöruskiptahallinn við Kína í desember var t.d. yfir 18 þúsund milljón dollarar eða um 30% alls halla þess mánaðar. Ef verksmiðjur í Evrópu eiga í erfiðleikum með að flytja vörur sínar á Bandaríkjamarkað þá leysa þær vandann með því að opna útibú í fátækari löndum Asíu og verða þannig aftur samkeppnishæfar.

Greenspan á kannski engin önnur úrræði eftir nema að tala um betri tíð með blóm í haga, því þegar öllu er á botninn hvolft þá getur ekkert annað en verðmætari framleiðsla bjargað bandaríska hagkerfinu. Þegar slík þróun er á annað borð í gangi þá kemur hún fyrst fram í vaxandi kaupmætti og meiri atvinnu. Það hefur ekki enn gerst í yfirstandandi "uppsveiflu." Þegar reynt er að mæla atvinnuleysi í Bandaríkjunum þá er raunverulega ekki nema eina tala sem takandi er mark á, en það er prósentufjöldi vinnubærra einstaklinga sem er starfandi eða í atvinnuleit [tala atvinnulausra í janúar féll t.d. úr 5,4% í 5,2% vegna þess að 515.000 einstaklingar höfðu hætt atvinnuleit, en það var 20% aukning frá fyrra ári]. Hlutfall vinnufúsra (starfandi eða í leit að starfi) í janúar var 65,8%, sem var lægsta hlutfall sem hefur mælst síðan 1988.

Sífellt fleiri eru að komast á þá skoðun að bandarískt hagkerfi sé gengið inn í nýtt tímabil minni atvinnusköpunar og meira atvinnuleysis. Samkvæmt þeirri kenningu á ástandið ekki eftir að batna á næstunni. "Þetta er eins gott og það verður; þetta er raunveruleikinn," sagði Johan Silvia hjá fjárfestingafyrirtækinu Wachovia í viðtali við New York Times í dag.

Fyrr eða síðar koma hænurnar heim til þess að láta hamfletta sig. Heimsvæðingin var aldrei fyrir "litla manninn" eða millistéttina. Heimsvæðing gæti verið góð, en henni hefur verið stýrt af lítilli klíku auðmanna sem stjórna fjölþjóðafyrirtækjum og ofurbönkum. Þeir hafa grætt ofsalegar upphæðir á kostnað allra annarra. Nú situr fólkið uppi með höfuðverkinn í formi botnlausra skulda og minnkandi kaupgetu. Þess vegna styttist í endurmat á verðbréfamörkuðum Vesturlanda.