vald.org

Erfið sigling framundan … framhald

13. febrúar 2005 | Jóhannes Björn

Hugurinn ber þá hálfa leið.

Þegar hagtölur heimila eða ríkisstjórna ganga ekki lengur upp þá grípa menn oft til áróðurs eða láta óskhyggjuna eina ráða ferðinni. Bandarískir verðbréfamarkaðir hækkuðu verulega í síðustu viku eftir órökstudd ummæli Alan Greenspan um vænlegri vöruskipti við útlönd í framtíðinni og fjárlagafrumvarp Bush var lagt fram. Halarófa pólitíkusa á vegum Hvíta hússins flykkti sér í fjölmiðla og þeir fullyrtu að með fjárlagafrumvarpinu hæfist nýtt tímabil aðhalds og sparnaðar í ríkisbúskapnum. Ekkert er meiri fjarstæða.

Það þarf ekki að eyða mörgum orðum í fjárlagafrumvarp Bush. Það er dautt plagg sem þingheimur á ekki eftir að taka neitt mark á og fjárlagahallinn, sem nú þegar er sá mesti allra tíma, á enn eftir að aukast. Niðurskurður til stórfyrirtækja sem stunda landbúnað fara aldrei í gegnum þing sem þrýstihópar hafa fyrir löngu síðan keypt og staðgreitt. Þá vantar líka í frumvarpið allar fjárveitingar vegna stríðs og uppbyggingu í Írak og Afganistan, auk billjón dollara reikning fyrir breytingum sem Bush vill gera á eftirlaunakerfinu.

Á síðasta kjörtímabili gaf Bush ríkasta 1% landsins skattalækkanir sem kosta ríkið $120 milljarða á ári. Þetta var gert þrátt fyrir að tala þeirra sem ekki hafa heilsutryggingar sé að nálgast 50 milljónir, um 20 milljónir barna í landinu fari svöng í háttinn á hverju kvöldi og helming gjaldþrota einstaklinga megi rekja til vangreiddra skulda vegna veikinda. Nýja fjárlagafrumvarpið gerir aftur á móti ráð fyrir $19.000 lækkun skatta hjá þeim sem þéna yfir milljón dollara á ári (auðveldar afskriftir), en tekur hins vegar matarmiða af 300.000 fátæklingum og sker niður framlag ríkisins til barnagæslu þannig að 300.000 börn lenda á blokkinni. Þá á að skera niður framlög ríkisins til heilsugæslu, gamalla hermanna, umhverfismála o.s.frv.

Greiðsluhalli ríkisins er slæmur, en viðskiptahallinn er virkilega ógnvekjandi, og nýleg ummæli Greenspan að hann sé að ná eitthvers konar jafnvægi verða að skoðast sem hughreystihjal, svipað og þegar þjálfari reynir að telja kjark í íþróttalið sem er að tapa.

Endanleg tala um viðskiptahalla Bandaríkjanna fyrir árið 2004 er $617.7 milljarðar, sem er nýtt met. Það er hvorki meira né minna en 24.4% hækkun frá fyrra ári, en $496.51 milljarða halli 2003 var líka sá mest í sögu landsins fram að þeim tíma. Bandaríkin fluttu út vörur og þjónustu fyrir $1146 milljarða en vörur og þjónusta fyrir $1764 milljarða flæddu inn í landið. Því dýpra sem kafað er í tölur um viðskiptahallan, þeim mun undarlegri virðist bjartsýni Greenspan.

Hagkerfi jarðarinnar er frekar dauft þessa dagana og eitt af því fáa sem heldur uppi hagvexti er gengdarlaus framleiðsla Kínverja á vöru sem bandarískir neytendur taka við. En þetta er gervihagvöxtur. Vörurnar eru borgaðar með erlendum lánum og stórauknum skuldum heimilanna, ástand sem gengur ekki mikið lengur. Gagnstætt því sem margir hagfræðingar halda fram þá er Kína sennilega dragbítur á allt efnahagslíf heimsins. Landið sogar til sín verðmæti en lætur lítið í staðinn. Með því að skrá gjaldmiðilinn allt of lágt, reka nútíma þrælabúðir (það eru enn 700 milljónir fátæklinga úti á landsbyggðinni sem bíða í röð eftir vinnu) og stela hugbúnaði (og apa ólöglega eftir alls konar framleiðslu) fyrir hundruð milljarða dollara á ári, þá eru Kínverjar helsta orsök þess að allir aðrir eru í kapphlaupi niður á botninn.