vald.org

Er líf á Mars? … framhald

4. mars 2005 | Jóhannes Björn

Eins og kom fram í grein á þessari síðu 1. apríl 2004—Er líf á Mars?—þá getur ekkert líf þrifist á yfirborði Mars sökum loftþrýstings sem er ekki nema 6 til 7 millíbör (er að meðaltali 1013 hér). Við slíkan loftþrýsting er ekkert fljótandi vatn fyrir hendi; það gufar strax upp og heldur út í himingeiminn. En yfirborð Mars hefur ekki alltaf verið svo napurlegt því gervihnattamyndir sýna glöggt að plánetan skartaði einu sinni beljandi fljótum og bláum úthöfum. Við vitum að loftsteinar bera stöðugt með sér efnasambönd sem geta, við réttar aðstæður, kveikt líf. Lífið sjálft getur líka auðveldlega ferðast á milli hnatta. Ef t.d. stór loftsteinn splundraði Jörðinni þá færu milljónir steina á ferðalag um himingeiminn og margir þeirra tækju með sér örverur sem fræðilega séð gætu lifnað við á ný og tekið til starfa við réttar aðstæður, jafnvel eftir þúsundir eða tugþúsundir ára. Við vitum líka að líf á Jörðinni getur dafnað og þrifist við ótrúlega erfiðar aðstæður, bæði á mesta hyldýpi hafsins og við ofsahita í hverum. Almenn skynsemi segir okkur því að líf verði stundum (eða oftast) til þar sem rennandi vatn er fyrir hendi. Möguleikar lífsins margfaldist líka þegar stjarna (sól) skín í hæfilegri fjarlægð.

Það voru ekki lítil tíðindi þegar Evrópugervihnötturinn mældi metangas á Mars snemma á síðasta ári. Metangas myndast m.a. við efnabreytingar í lífrænum efnasamböndum af völdum gerjunar. Í þessu tilfelli, eins og við eigum eftir að sjá, er það líklegasta skýringin.

Allt þetta var vitað fyrir ári síðan, en síðan hafa fleiri sannanir fyrir lífi komið í ljós og meira metangas hefur mælst. Formaldehýð (HCHO) hefur líka mælst í loftinu, en það eyðist á aðeins sjö til tíu klukkustundum í útfjólubláum geislum sólarinnar á Mars, þannig að eitthvað (t.d. örverur eða bakteríur) heldur stöðugt áfram að "anda" því frá sér.

Fyrsta Mars Express vísindaráðstefnan var haldin í Hollandi dagana 21.–25. febrúar 2005. Þar lagði Englendingurinn John Murry (starfar við Open University Department of Earth Sciences) fram gögn sem virðast sanna að stórt svæði—1000 km langt og 800 km breitt—sem áður var talið vera gamalt hraun er í raun frosinn sjór. Þetta er á svæði sem nefnt hefur verið Elysium Planitia og samkvæmt mælingum Murry blasa þar við okkur ísbreiður þaktar öskulagi sem kemur í veg fyrir uppgufun (frosið vatn gufar upp við nógu lágan loftþrýsting). Dýpið er 45 metrar og stærðin svipuð og Norðursjórinn. Myndirnar sem Murry styðst við eru teknar með 10 m greiningarhæfni og litirnir eru í þrívídd. Þær sýna algjörlega flatt landslag, allt of slétt og fellt til þess að hafa mótast í eldsumbrotum.

Elysium Planitia. Risastórar ísbreiður einangraðar með ösku.

Vélvagninn Spirit, sem þokast rólega um Mars, boraði í þennan stein og út vall magnesíumsúlfat—óyggjandi sönnun fyrir því að þetta grjót var baðað vatni í óratíma.

Mars hafði einu sinni lofthjúp og fljótandi í vatn á yfirborðinu. Sumt af þessu vatni, segir Murry, er enn fljótandi í jarðlögunum á 6–10 km dýpi vegna jarðhita. Sá hiti verður til þegar atómkjarnar t.d. úrans og þóríum hrörna, en möttull Mars er um 1500 stiga heitur. Við jarðskorpuhræringar streymir vatnið út annað veifið. Vatn og hiti (og kannski smá brennisteinn í sarpinn) er allt sem örverur þurfa til að dafna. Eitthvað flóknara líf frá betri tíð (t.d. bakteríur) gæti líka enn leynst í jarðlögunum. Það rennir enn frekari stoðum undir þá kenningu að metanútstreymið sé bundið lífi að mest hefur mælst yfir Elysium Planitia.

Það er að verða deginum ljósara að það er líf á Mars. Allar aðrar útskýringar eru langsóttari og því ólíklegri. Fyrir utan nokkra vísindamenn í Evrópu sem halda þessu fram, þá hafa tveir vísindamenn NASA, Carol Stoker og Larry Lemke, líka verið að snúast á þessa skoðun. http://www.space.com/scienceastronomy/mars_life_050216.html Yfirmenn NASA, sem eru mjög andvígir öllum vangaveltum um líf á Mars, hafa reynt að þagga niður í þeim.

Grundvallarskoðanir fólks eru ótrúlega lífseigar. Í þúsundir ára hefur sama tuggan verið endurtekin: Við erum sköpuð í mynd Guðs og Jörðin hlýtur því að vera miðpunktur alheimsins og maðurinn hápunktur sköpunarverksins. Það er óbeint byggt inn í trúarsögu okkar og fornar hefðir að afneita lífi á öðrum hnöttum. En ef það er líf rétt við bæjardyrnar hjá okkur á Mars þá er sjálfgefið að alheimurinn morar í lífi. Þegar allur fjöldinn gerir sér grein fyrir því þá verður trúarleg og félagsleg bylting á Jörðinni.