vald.org

Kennedy vildi ekki Víetnam

5. apríl 2005 | Jóhannes Björn

Leyniskýrslur sem nýlega hafa verið gerðar opinberar—og fjallað er um í athyglisverðri grein eftir Marc Cooper í The Nation (14. mars 2005)—sýna svo ekki verður um villst að Kennedy var ekki aðeins á móti stórstyrjöld í Víetnam og nærliggjandi ríkjum, hann vildi draga allt bandarískt herlið til baka ef hann næði endurkjöri í árslok 1964.

Sagnfræðingar hafa lengi deilt um hvort John F. Kennedy (ef hann hefði ekki verið myrtur og hann hefði síðan verið endurkjörinn í forsetaembætti 1964) hefði farið sömu ógæfuleið og Lyndon Johnson í Víetnam. Spurningin um þetta er mikilvæg vegna þess að þeir sem neita að trúa því að Oswald hafi myrt forsetann upp á sitt eindæmi eða yfirleitt hleypt af skoti vilja líka oft halda því fram að herská öfl innan stjórnkerfisins hafa haft hönd í bagga á þeim örlagaríka degi í Dallas.

Skýrslur sem greina frá fundum í öryggisráði Bandaríkjanna upp úr 1960 sýna glöggt að mikill meirihluti æðstu yfirmanna öryggis- og hermála var í vígahug. Margir herforingjar iðuðu í skinninu eftir stríði—bara einhverju stríði (New York Times greindi frá því nýlega að meistaraverk Kubrick, Dr. Strangelove, hafi mikið til verið byggt á raunverulegum persónum http://groups-beta.google.com/group/alt.horror/browse_thread/thread/4c34c3238eedbb50/) Þessi bardagagleði kom vel í ljós í Kúbudeilunni þegar heimurinn rambaði á barmi styrjaldar, en þá varð Kennedy að gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að vissir herforingjar fölsuðu upplýsingar eða byggju til atburðarás sem kæmi öllu í bál og brand. Aðal haukarnir í ríkisstjórn Bandaríkjanna—fulltrúar framkvæmdavaldsins—á þessum tíma voru Dean Rusk, utanríkisráðherra, Walt Rostow, ráðgjafi á sviði öryggismála, Maxwell Taylor (herforingi), persónulegur ráðgjafi forsetans í hermálum, McGorge Bundy (öryggismál) og varnarmálaráðherrann, Robert McNamara. Á miðju ári 1961 var sviðið sett þegar þessir menn lögðu til að 60.000 manna herlið yrði sent til Laos. Kennedy harðneitaði.

Robert McNamara er ekki vel borin sagan í nýrri bók eftir James G. Blight og Janet M. Lang, The Fog of War: Lessons from the Life of Robert McNamara.Hann var varnarmálaráðherra frá 1961 til 1968 og lét fólk vita að hann hefði svör við öllu og þeir sem ekki væru honum sammála væru annað hvort ekki eins gáfaðir og hann eða illa upplýstir. Hann neitaði að tala um Víetnam í 27 ár eða þar til 1995, en þá gaf hann út bók, In Retrospect, þar sem lélegum ráðgjöfum er kennt um mistök stríðsins. McNamara var einn helsti arkitekt stríðs sem lagði Suðausur Asíu í rúst og drap á milli þrjár og fjórar milljónir einstaklinga. Eftir það tók hann við starfi aðalbankastjóra Alþjóðabankans og byrjaði að kúga fátækustu þjóðir heims með lánastarfsemi sem nær eingöngu þjónaði stórfyrirtækjum. Fólkið svalt á meðan menn eins og Mobutu í Kongó söfnuðu milljörðum dollara inn á erlenda bankareikninga í skiptum fyrir að leyfa erlendum aðilum að þurrausa auðlindir landsins.

Í nóvember 1961 komu Maxwell Taylor og Walt Rostow heim eftir ferð til Saigon. Í ferðaskríninu var splunkuný áætlun (Taylor Report) um að "bjarga" Víetnam með því að senda 8.000 hermenn (svona til að byrja með) á staðinn. Þeir félagar töldu sig geta komið málinu í gegn á næsta fundi þjóðaröryggisráðsins (NSC), en þar voru allir nema John Kennedy og bróðir hans, Robert, í vígahug. Hlutirnir flæktust hins vegar aðeins þegar hagfræðingurinn frægi, John Kenneth Galbraith, sem þá var sendiherra á Indlandi, náði að lesa plaggið áður en það var lagt fram. Hann var algjörlega á móti hernaðarbröltinu í Víetnam og varaði Kennedy við skriflega og lét viðeigandi mótrök fylgja með. Í kjölfarið frestaði Kennedy fundi þjóðaröryggisráðsins um tvær vikur og lét meira að segja upplýsingar leka til New York Times í þeirri von að þingið tæki við sér. En málið hafði lítinn hljómgrunn hjá þjóðinni og Kennedy varð að gefa eitthvað eftir.

Það er hins vegar augljóst að Kennedy hafði óbeit á stríðinu í Víetnam og við vitum núna að hann ætlaði að draga allt herlið til baka í ársbyrjun 1965. Hann var ekki orðinn kaldur í gröfinni þegar Johnson afturkallaði þá skipun og skömmu síðar var tala bandarískra hermanna í Víetnam komin í hálfa milljón. Þetta var einhver tilganglausata styrjöld allra tíma. Eða eins og Galbraith orðaði það í skýrslu til Kennedy frá Saigon eftir að hafa kannað svæðið með eigin augum: "… hver í stjórninni hefur ákveðið að þetta sé hernaðarlega mikilvægur staður? Ég myndi vilja … spyrja hann hvað sé svona merkilegt við þessa fasteign á geimferðaöld."