vald.org

Heimsvæðingin er komin til helvítis

13. apríl 2005 | Jóhannes Björn

Þetta var hagfræðistefna sem átti að lyfta öllum bátum, fyrirkomulag sem okkur var lofað að skilaði bættum lífkjörum, bæði hjá þróuðum ríkjum og hjá þeim sem sitja aftar á merinni. En þetta var ekkert annað en vandlega úthugsuð lygi sem nokkur ofurfyrirtæki—fjölþjóðakeðjur og fjölþjóðabankar—hafa halað inn á trilljónir.

Atvinnuleysi í Þýskalandi er meira en það hefur verið síðan Hitler notfærði sér efnahagsstöðnun til að komast til valda. Í staðinn fyrir að leiðrétta mistökin sem leiddu til kreppunnar, þá virðast Þjóðverjar ætla að halda áfram að hlaupa niður efnahagshringstigann með því að skerða kjör almennings, stytta fríin og hækka eftirlaunaaldur. Frakkar eru líka bölsýnir á framtíðina og verða að gera ráðstafanir sem eru í beinni mótsögn við hagkerfi sem stöðugt sækir fram tæknilega—þeir eru að lengja vinnuvikuna. Laun fara lækkandi í Bandaríkjunum.

Úr austri heyrist ærandi soghljóð. Það kemur frá Kína og verður til þegar landið sogar til sín efnahagslegan lífhvata annarra þjóða. Aldrei áður í sögu heimsins hefur ríki (sem ekki situr á olíu eða öðrum verðmætum sem hægt er að ausa út) tekist að byggja upp iðnaðarþjóðfélag frá grunni og safna varasjóðum um leið. Þetta fyrirkomulag mergsýgur önnur hagkerfi heimsins og hefur verið haldið gangandi með því að beita ógnræði—með lögregluríki sem er stjórnað af lítilli klíku æðstu yfirmanna flokksins, hersins auk nokkra milljarðamæringa—sem er ekkert annað en nútíma þrælahald. Harkan er gífurleg og kemur t.d. fram í því, samkvæmt opinberri fréttastofu landsins, að yfir 10.000 einstaklingar eru dæmdir til dauða á hverju ári. Þegar fólkið á landsbyggðinni t.d. mótmælir óframdarástandinu þar, sem gerist miklu oftar en fréttastofur greina frá, þá notar valdaklíkan alltaf sömu aðferðina: Fólkið fær einhverjar úrbætur í augnablikinu en leiðtogar þess eru drepnir. Reyndu t.d. að stofna verkalýðsfélag í þessu sæluríki fólksins og þú ert dauður.

Heimsvæðing er góður og eðlilegur hlutur. Gallinn við núverandi heimsvæðingu er hins vegar sá að henni hefur alla tíð verið stjórnað af mönnum sem láta sína eigin hagsmuni ganga fyrir hagsmunum allra annarra. Venjulegt fólk á Vesturlöndum tapar og miðað við umsvifin þá græða allt of fáir í fátækari löndum. Móðir Jörð tapar þó mest þegar stór hluti iðnaðar heimsins er kominn á svæði þar sem milljónum tonna af eitri er hleypt út í umhverfið á eins ódýran hátt og mögulegt er.

Réttlát og skynsamleg heimsvæðing tekur þætti eins og umhverfi og réttláta tekjuskiptingu með í reikninginn. Hún er að stórum hluta pólitísk framkvæmd, ekki gullæði sem nokkrir útvaldir stjórna.

Líkurnar á að þetta endi allt með skelfingu fara vaxandi því ójafnvægið í hagkerfinu er að verða svo mikið að við blasir hætta á meiri háttar lægð eða kreppu. Það sem mest og best heldur uppi hagkerfi heimsins um þessar mundir eru neytendur á Bandaríkjamarkaði og stóraukin hráefnisinnkaup (olía, kopar o. s. frv.) Kínverja. Ef kerfið gefur eftir þá heyrast fyrstu brestirnir augljóslega á Bandaríkjamarkaði. Kínverska sápukúlan springur síðan strax á eftir.

Greenspan mundi svara öllu þessu á þá leið að bandaríska efnahagslífið sé í stöðugum vexti, svo miklum að seðlabankinn verði að hækka vexti jafnt og þétt. Helsta vandamálið sé að aðrar þjóðir geri ekki nógu mikið til að örva neysluna heima fyrir og því sé ekki nóg keypt frá Ameríku (þýðing: önnur lönd eiga að skera niður fjárveitingar til félagsmála, stytta fríin og lengja vinnudaginn). Þessi rök eru reyndar endurtekin í síbylju af embættismönnum í bandaríkjunum, en þótt eitthvað sé endurtekið nógu oft þá breytir það ekki sannleikanum. Það er enginn alvöru hagvöxtur í Bandaríkjunum og stýrivextir eru enn neikvæðir, þ.e. þeir eru fyrir neðan verðbólgustigið. Seðlabanki getur ekki látið stýrivexti vera neikvæða til langs tíma því það grefur undan gjaldmiðlinum og skapar sápukúlu á fasteignamarkaði. Það er ástæðan fyrir vaxtahækkunum, ekki betri tíð.

Tölur um hagvöxt eru yfirleitt ekki mjög áreiðanlegar vegna þess að þær gera engan greinarmun á framleiðslu sem eykur lífþægindi fólks eða á framleiðslu sem endanlega gerir alla fátækari. Góð loðnuvertíð eykur hagvöxtinn … en ef brjálaður maður gengur berserksgang niður Laugaveg og brýtur allar rúður þá er hann líka að bæta við hagvöxtinn! Það gæti einnig sýnt svipaðan hagvöxt hvort sem menn smíða flugmóðurskip eða byggja stóra brú. Brúin gæti haft gífurlega jákvæð áhrif í langan tíma á því svæði sem hún er staðsett, en flugmóðurskipið, sem í besta falli er smíðað af illri nauðsyn, ætti að draga niður tölur um hagvöxt. Þetta eru tölur sem ættu að endurspegla bætt lífskjör fólks, en ekki hernaðarbrölt eða vinnu við að koma hlutunum aftur í sama far eftir t.d. fellibyl.

Það eru margar staðreyndir sem sýna að hagvöxturinn í Bandaríkjunum er ekki raunverulegur.

Þrátt fyrir allt þetta hefur neytendum og ríkinu tekist að halda opinberum tölum um hagvöxt uppi í yfir þrjú ár. Það hefur ekki verið erfitt þegar allir hafa slegið lán líkt og heimsendir sé í nánd. Sparnaður er komin niður á núllið, skuldir heimilanna eru í sögulegu hámarki, ríkið er rekið með bullandi tapi og viðskiptahallinn er ógnvekjandi. Það versta við þessa stöðu er að það er ekkert í sjónmáli sem getur bjargað málunum. Örtækni (nanotech) verður næsta trilljón dollara vertíðin, en það eru nokkur ár í þá byltingu. Neikvæðir stýrivextir stórlækkuðu alla vexti í Bandaríkjunum. Það skapaði "sápukúlu" á fasteignamarkaði sem hefur gefið neytendum billjón dollara á ári s.l. þrjú ár. Sú uppspretta er að hæga á sér og hverfur síðan alveg með hækkandi vöxtum.

Sennilega verður dollarinn fyrsta fórnarlambið þegar uppgjörið kemur. Reynsla síðustu þriggja ára sýnir að viðskiptahalli Bandaríkjanna blæs út í beinu hlutfalli við lækkun dollarans. Þetta er alveg öfugt við það sem gerðist fyrir daga heimvæðingarinnar. Viðskiptahallinn var $666 milljarðar 2004 og stefnir vel yfir $700 millarða á þessu ári. Dollarar og bandarísk ríkisskuldabréf keypt fyrir þessa dollara hlaðast upp í erlendum seðlabönkum. Nokkur ríki í Asíu eru með billjónir í þessum pappírum og sundlar við flóðinu sem aldrei virðist ætla að stoppa. Þetta gengur ekki mikið lengur.

Öll þekkjum við söguna um manninn í leikhúsinu sem hrópar "eldur!" og allir hlaupa á dyr á sama tíma. Hvað dollarann varðar þá lítur málið alveg öfugt út. Seðlabankastjórar heimsins sitja í leikhúsi og þeir sjá eld kvikna, en enginn þeirra þorir að hrópa af ótta við að allir hlaupi á dyr (selji) á sama tíma. Þegar seðlabankastjóri Suður-Kóreu (enginn stórkarl það) talaði um að grynna aðeins á dollarafjallinu þá myndaðist keðjuverkun með falli dollarans og lækkun hlutabréfa um allan heim. Bankastjórinn dró ummælin strax til baka.

Í glímunni við viðskiptahalla Bandaríkjanna er engin önnur leið fær en að draga úr neyslu innanlands og hvetja til aukins sparnaðar. Í hagkerfi sem byggir 80% á neyslu þýðir það langa efnahagslægð og aukið atvinnuleysi. Kannski kannast þá fólk loks við að það er heimsvæðingarstefna smárrar klíku sem hefur sent allt til helvítis.