vald.org

G.M. riðar til falls

25. apríl 2005 | Jóhannes Björn

Örlög Ameríku og General Motors eru samtvinnuð, var sagt hér áður fyrr, en við skulum vona að það lögmál gildi ekki lengur því G.M. verður brátt ekki svipur hjá sjón. Í þessu tilfelli er ekki beinlínis hægt að kenna heimsvæðingunni um—þótt hún vissulega eigi eftir að setja þessa iðngrein eins og aðrar á Vesturlöndum á hausinn þegar fram líða stundir—heldur liggur skýringin í ótrúlegri skammsýni og græðgi augnabliksins.

Þegar hagkerfið hægir á sér þá reka bandarísku bílaframleiðendurnir fólk í stórum hópum og ráða það síðan aftur í næstu uppsveiflu. Honda og Toyota, sem bæði starfrækja verksmiðjur í Bandaríkjunum, fara allt öðruvísi í sakirnar. Í síðustu niðursveiflu hægði Honda t.d. á færibandinu og setti starfsfólkið auk þess á námskeið. Þegar eftirspurn bíla svo aftur jókst þá var fyrirtækið miklu betur í stakk búið en G.M. og Ford til þess að stórauka framleiðslu á hágæðabílum. Honda sér til þess að vera með tryggt starfslið sem trúir á fyrirtækið. Samkvæmt Consumer Report og öðrum heimildum þá bila japönsku bílarnir minnst og almenningur er reiðubúinn til að borga meira fyrir þá en hliðstæða ameríska bíla.

GM Stock

Það getur verið þægilegt fyrir fyrirtæki þegar ríkissjóður hleypur undir bagga og niðurgreiðir vöruna, en stundum eru langtímaafleiðingarnar ófyrirsjáanlegar. Í valdatíð Clinton var skattalögunum breytt svo bændur (eigendur smáfyrirtækja) gætu keypt sér jeppa og fengið hluta kaupverðsins endurgreiddan frá ríkissjóði. Það leið þó ekki langur tími þar til sleipir bókhaldarar byrjuðu að nýta sér þetta ákvæði og allir sem áttu smáfyrirtæki fengu endurgreiðslu frá skattgreiðendum. Bílasalar um öll Bandaríkin voru í viðbragðsstöðu. Þegar tannlæknir sem rak eigin stofu ætlaði að kaupa sér venjulegan fólksbíl þá var honum strax bent á að jeppi sem ríkið borgaði þúsundir dollara með yrði ekkert dýrari. Skósmiður keypti sér Jeep og kaupmaðurinn á hornunu Hummer. Þrýstihópar í Washington, fjármagnaðir af stóru bílaframleiðendunum, komu í veg fyrir að þessi vitleysa yrði leiðrétt.

Lífið var dásamlegt þar til olían byrjaði að hækka og hækka. Nú var það ekki lengur eins töff fyrir einstaklinga að skrölta um bæinn í risaeðlu sem drakk bensín eins og vatn. Á síðasta ársfjórðungi tapaði G.M. einum milljarði dala. Öll hlutabréf fyrirtækisins eru $14,5 milljarða virði (hafa hrapað um 35% á árinu), en skuldirnar eru $114 milljarðar. Hvernig ætlar G.M. að bregðast við þessum vanda? Með einhverjum einkennilegustu aðgerðum viðskiptasögunnar eða eins og New York Times (22. apríl 2005) orðaði það:

"G.M. er að taka verktæknifræðinga út úr fólksbílaframleiðslunni til þess að flýta fyrir framleiðslu stærstu jeppanna, og veðja þannig á að nýju módelin muni auka eftirspurn eftir risajeppum."

Varaforseti G.M., Robert A. Lutz, ver þessar aðgerðir með því að benda á að ríkt fólk kaupi risajeppana og því sé alveg sama um bensínverð. Hann hefur algjörlega rangt fyrir sér og við eigum eftir að sjá miklu minna G.M. eftir að risajeppaævintýrinu lýkur.

Á þessu ári byrjar Honda að flytja smábíla til Evrópu sem eru smíðaðir í Kína. Þá hefst alveg nýr kapítuli í sögu heimsvæðingarinnar. Eftir nokkur ár fjölgar svo tegundum bíla sem Kínverjar framleiða og þeir stækka. En löngu áður en kínverskir bílar setja vestrænar bílaverksmiðjur á hausinn þá yfirtaka þeir varahlutamarkaðinn. Nýjustu spár segja að eftir átta til tíu ár verði andvirði kínverskra varahluta í bíla yfir $100 milljarðar.