vald.org

Hljótt um mesta peningaglæp allra tíma

1. maí 2005 | Jóhannes Björn

Fyrir nokkrum dögum sögðust yfirvöld á Filippseyjum hafa komist á snoðir um mesta verðbréfafals allra tíma þegar starfsmenn fjársvikadeildar lögreglunnar í Manila handtóku tvo menn sem voru að senda handhafaskuldabréf að andvirði þrjár billjónir dollara til Zurich í Sviss. Fréttir af þessu birtust í fjölmiðlum í einn dag og síðan varð allt hljótt. Hvað er eiginlega að gerast?

Byrjum á að fara yfir atburðarásina. Um miðjan apríl hringdi starfsmaður póstfyrirtækis (DHL) í lögregluna í Manila til að tilkynna um grunsamlegan kassa sem var verið að senda til Zurich. Ekki er vitað hvað vakti grunsemdir mannsins. Embættið flýtti sér á staðinn og þegar skoðað var í kassann þá komu upp úr honum 13 minni stálkassar sem geymdu handhafaskuldabréf að nafnvirði þrjár billjónir dollara. Tveir menn, sem sögðust vera Bretar og höfðu bresk vegabréf, voru handteknir. Þeir sögðust heita Sam Beany og Poul Flavell. Þegar lögregluyfirvöld viku seinna héldu blaðamannafund um málið sögðust þau líka leita tveggja annarra manna sem bendluðust málið, Seki Mehmet og Peter Whittkamp. Fangarnir tveir voru ekki sýndir af þeirri einföldu ástæðu að þeim hafði verið sleppt! Yfirvöld í Manila slógu þó varnagla til að tryggja að sakborningarnir mættu þegar málið verður lagt fyrir dómara og létu þá borga tryggingu—20 þúsund kr íslenskar á mann!!

Fjársvikadeild lögreglunnar á blaðamannafundi

Handhafaskuldabréf eru venjulega gefin út af fyrirtækjum eða ríkisstjórnum. Eigendur þeirra eru hvergi skráðir og þau ganga kaupum og sölum á frjálsum markaði. Í Mið-Ameríku eru t.d. flest fyrirtæki í eigu óþekktra aðila, þ.e. manna sem eiga nafnlaus skuldabréf í fyrirtækjunum. Kosturinn við þetta er auðvitað sá að enginn veit hvað þú átt og skatturinn er heldur engu nær ef þú selur bréfin. Gallinn við þessi bréf er hins vegar sá að ef þú glatar handhafaskuldabréfi eða það t.d. eyðist í bruna, þá er engin leið að fá það bætt. Vegna þessa veikleika—og alltaf þegar um miklar upphæðir er að ræða—þá eru þessi skuldabréf flutt á milli staða í stálkössum.

Atburðarásin í Manila er beint úr leikhúsi fáránleikans. Til að byrja með þá eru þrjár billjónir dollara hærri upphæð en nemur þjóðarframleiðslu flestra ríkja heimsins. Ef upphæðinni væri skipt á milli allra Íslendinga þá fengi hver og einn einasti maður tæpar 700 milljónir kr í sinn hlut. Fólk sem falsar peninga eða verðbréf lætur sér ekki detta til hugar svona upphæðir eða neitt í líkingu við svona upphæðir. Þetta fólk prentar töluvert magn af minni upphæðum og losar sig aðalega við pappírana með því að selja þá með afföllum. Allar risaupphæðir eru eins og rauðir fánar sem þjálfaðir eftirlitsmenn reka strax augun í.

Fólk sem falsar verðmæta pappíra (eða seðla) sendir þá ekki til Sviss, lands sem morar í sérfræðingum á þessu sviði. Falsaðir pappírar fljóta aftur á móti um Suður-Ameríku, Austur-Evrópu og hluta Asíu. Eiturlyfjakóngar, mafíuleppar eða fólk á flótta með fjármagn gæti álpast til að kaupa vafasama pappíra, en ekki bankamenn í Zurich eða nærliggjandi borgum.

Ef þú, lesandi góður, ert tekinn með "aðeins" $10.000 í fölsuðum pappírum á Filippseyjum þá sleppur þú ekki svo glatt úr svartholinu. Þetta á reyndar við um flest ríki heims. Hvers vegna var þá mestu verðbréfafölsurum mannkynsögunnar sleppt svo til strax? Það er nærri því öruggt að við eigum aldrei eftir að sjá þá aftur. Þetta voru mjög líklega ekki einu sinni breskir ríkisborgarar og það er einhver leyniþjónustufnykur af þessu öllu. Einhver erlendur þrýstingur frelsaði þá úr prísundinni.

En eftir stendur stóra spurningin: Hvað átti að gera við þrjár billjónir í fölsuðum handhafaskuldabréfum? Sá möguleiki er auðvitað fyrir hendi að Bretarnir tveir (eða fjórir) hafi verið algjörir jólasveinar í millilandahoppi að reyna að græða á fáránlegum pappírum á kolvitlausum stöðum og lögreglan hafi sleppt þeim vegna þess að málið var allt svo heimskulegt. Hitt er líka möguleiki að þetta hafi verið atvinnumenn með samstarfaðila í banka í Zurich, snillingar sem ætluðu að sprengja peningakerfið, annað hvort af pólitískum ástæðum eða til þess að græða óbeint á ringulreiðinni sem fylgdi í kjölfarið. Ef seinni tilgátan er rétt þá verður þessi leikflétta örugglega reynd aftur.