vald.org

Á snjósleða til Skotlands

10. maí 2005 | Jóhannes Björn

Þá er það staðfest: Gangverkið sem dregur til sín Golfstrauminn, hitaveitu norðursins og austurhluta Norður-Ameríku, er að hægja á sér. Ef þessi þróun heldur áfram þá líða ekki margir áratugir þar til Íslendingar geta flutt búslóðina á sleðum til Evrópu. Veðurfarið í New York verður þá svipað og það er í Alaska í dag.

Grænlandshaf er eins og sogdæla eða risastór drullusokkur sem dregur Golfstrauminn til norðurs. Þetta gerist þegar óskaplegt vatnsmagn—kaldur og saltur yfirborðssjór sem er þyngri—sekkur niður á 3000 metra dýpi. Á meðan yfirborðssjórinn er nógu saltur þá heldur þessi hringrás áfram, en þegar nógu margir jöklar hafa bráðnað þá hægir hringrásin á sér eða stöðvast alveg. Golfstraumurinn hægir að lokum á sér í svipuðum hlutföllum.

Sunday Times greindi frá því 8. maí s.l. http://www.timesonline.co.uk/article/0,,2087-1602579,00.html að stórlega hafi dregið úr hringrásinni í Grænlandshafi. Blaðið styðst við niðurstöður Peter Wadhams, sem er prófessor í sjávareðlisfræði við Cambridge háskólann, en hann fór nýlega í rannsóknarleiðangur á norðurskautið í kafbáti breska hersins og lét líka skip gera mælingar á Grænlandshafi. Útlitið er ekki glæsilegt.

Flestir vísindamenn telja að ef ísöld skellur yfir á annað borð þá taki það marga áratugi ef ekki yfir hundrað ár. Það er ekkert víst að náttúran sé á sama máli og rannsóknir hafa sýnt að loftlagsbreytingar geta gerst með undrahraða. Fyrir 5200 árum snöggkólnaði á Jörðinni eða alla vega á stórum svæðum hennar. Jurtir í Perú frusu svo hratt að frumuvefir þeirra voru heilir þegar þær voru grafnar upp fyrir nokkrum árum og snjómaðurinn frægi, Oetzi, var hraðfrystur á sama tíma í Sviss.

Oetzi

Jörðin er örugglega að hitna og samt höfum við enn sloppið frekar vel vegna þess að sjórinn hefur drukkið í sig mest af hitanum. Sú geymsla er senn að fyllast. Líklega verða meiri öfgar í veðráttunni á næstu árum og meiri eyðilegging vegna öflugra fellibylja. Eitthvað óeðlilegt er líka að gerast í háloftunum því á seinni árum hafa klakadrumbar, allt að 15 kg stykkið, verið að falla öðru hvoru af himnum út um allan heim. http://www.herald-review.com/articles/2005/02/24/news/top_story/1006122.txt

http://www.nzherald.co.nz/index.cfm?ObjectID=3544936