vald.org

Endalok olíualdar

9. júlí 2005 | Jóhannes Björn

Það er kátt í kauphöllum heimsins þessa dagana og dollarinn er sterkur. En ef Matthew R. Simmons hefur rétt fyrir sér í nýrri bók, Twilight in the Desert, þá styttist óðum í eina mestu efnahagskreppu veraldarsögunnar. Heimskreppan 1929–1935 kemst ekki með tærnar þar sem þessi hefur hælana.

Ef Matthew Simmons væri öfgafullur umhverfisinni eða dómsdagspámaður á vegum Rómarklúbbsins, þá væri auðvelt að láta aðvarnir hans sem vind um eyru þjóta, en því miður þá gæti bakgrunnur hans í olíubransanum varla verið veglegri. Simmons er stjórnarformaður og forstjóri eins stærsta banka heims sem sérhæfir sig í olíuviðskiptum, Simmons & Company International, og hefur í marga áratugi fjárfest milljarða dollara út um allan heim í olíuleit, uppbyggingu olíustöðva og markaðsetningu olíu. Hann hefur viðað að sér meiri upplýsingum um þessi mál en flestir aðrir og þekkir persónulega helstu stórbokka sem koma nálægt olíu (er t.d. málkunnugur bæði Bush og Cheney).

Bók Simmons kom út fyrir nokkrum dögum og heitir fullu nafni Twilight in the Desert; The Coming Saudi Oil Shock and the World Economy. Eins og nafnið bentir til þá er hún nákvæm úttekt á olíuframleiðslu Saudi Arabíu og því haldið fram með ískyggilega góðum rökum að landinu sé ekki aðeins um megn að auka framleiðsluna svo nokkru nemi, heldur sé líka ekki langt í að framleiðslan fari að dragast saman. Þetta gerist á sama tíma og olíulindir í Norðursjó, Mexíkó og víðar eru á undanhaldi, en eftirspurn eftir olíu fer ört vaxandi í heiminum. Það þarf varla að taka fram að staðfesting á þessum upplýsingum mundi samstundis margfalda allt orkuverð á Jörðinni.

Það verður löng bið á slíkri staðfestingu frá Saudi Arabíu því síðan 1982 hafa allar upplýsingar um olíumagn í jörðu og framleiðslugetu verið ríkisleyndarmál. Orkuneysla heimsins jókst um 4,3% á síðasta ári og þörf fyrir nýja olíu eykst jafnt og þétt. Þegar ríkisstjórnir og olíufélög eru spurð hvaðan þessi olía eigi að koma, þá benda allir á Saudi Arabíu. Sem sagt, það þykir gott og blessað að byggja framtíðaráætlanir hagkerfis heimsins á loforðum manna sem neita að gefa nokkrar upplýsingar um orkuforðann sem á að knýja kerfið áfram!

Simmons ferðaðist til Saudi Arabíu árið 2003 í boði stærsta olíufélags heims, Saudi Aramco, og það var þá sem hann tók að gruna að ekki væri allt í sómanum á olíusvæðunum. Þrátt fyrir alla ríkisleyndina þá tókst honum komast yfir 200 tæknilegar skýrslur sem starfsmenn olíufélagsins höfðu skrifað … og grunur hans var staðfestur.

Olíuævintýrið í Saudi Arabíu byrjaði fyrir alvöru 1938 og 90% framleiðslunnar hefur allar götur síðan komið frá sjö risastórum lindum. Allar sjö eru farnar að eldast en standa samt enn undir 90% framleiðslunnar. Af þessum sjö lindum eru þrjár mikilvægastar og þær hafa verið að dæla olíu í yfir 50 ár. Til að viðhalda nægum þrýstingi í borholunum þá hefur gífurlegu vatnsmagni verið dælt í jörðina, nýlega 12 milljón tunnum á dag, en þegar það verður ekki lengur hægt þá hrapar framleiðslugetan strax. Það kostar Saudi Aramco $6 milljarða á ári bara að halda framleiðslunni á núverandi stigi.

Framhald …