vald.org

Endalok olíualdar … framhald

10. júlí 2005 | Jóhannes Björn

Árið 1995 drakk hagkerfi heimsins 70 milljón tunnur af olíu á dag. Á þessu ári er dagsneyslan komin í 86 milljón tunnur og eftirspurnin fer vaxandi. Saudi Arabía á að mæta þessari eftirspurn, en allt bendir til þess að framleiðslan þar sé stöðnuð og fari jafnvel brátt að minnka. T. Boone Pickens, sem hefur verið olíuspekúlant í hálfa öld, lýsti afleiðingunum þannig: "Þetta verður eins og að keyra beint á múrvegg á 100 km hraða."

Olíumenn af gamla skólanum notuðu skemmtilega lýsingu á því hvernig málin oftast þróast á svæðum (á þurru landi) þar sem olíu er að finna. Öll olíusvæði hafa sinn kóng, eina eða fleiri drottningar, nokkra jarla og síðan óbreytta borgara. Kóngurinn er risastór olíulind, drottningarnar eru a.m.k. helmingi minni (niður í 20% af stærð kóngsins), jarlarnir eru fimm til tíu, töluvert minni en drottningarnar, og óbreyttir borgarar eru smásprænur út um allt.

Reglan er sú að stærstu lindirnar finnast fyrst. Oftast finna menn fyrst drottningu og við frekari leit finnst kóngurinn. Skipulögð leit í kjölfarið dregur síðan jarla fram í dagsljósið. Þegar þessar uppsprettur byrja að dvína er leitað víðar og óbreyttir borgarar skjóta upp kollinum hér og þar.

Eins og víða annars staðar þá virðist olíuframleiðsla Saudi Arabíu fylgja þessu ferli:

Þrátt fyrir gífurlega leit með bestu tækjum þá hafa engar risalindir eða einu sinni jarlar skotið upp kollinum í Saudi Arabíu síðan 1968. Allar bitastæðar borholur hafa verið á svæðum sem fundust fyrir 1968 og á næsta ári verður t.d. byrjað að dæla á síðasta 60 km svæðinu að Ghawar.

Árið 1989 fannst olía 70 km suður af Riyadh og menn fylltust mikilli bjartsýni, en net af borholum þar skilar ekki nema 200.000 tunnum á dag. Það þætti dágóð framleiðsla víða annars staðar, en í Saudi Arabíu flokkast slíkt svæði undir "óbreytta borgara." Staðreynd málsins er einfaldlega sú að allar risalindir landsins eru á tiltölulega litlu svæði í austurhluta landsins og það svæði hefur verið kannað að fullu.

Það er tiltölulega auðvelt að sanna að Saudi Arabía lumar ekki á risalindum sem verið er að spara fyrir vaxandi olíueftirspurn í framtíðinni. Í fyrsta lagi þá er ákaflega erfitt að halda slíkum olíufundum leyndum. En þyngra vegur þó að ráðamenn mundu aldrei pína risalindirnar með offramleiðslu og leggja þannig í beina hættu (eins og þeir hafa gert) ef þeir ættu annarra kosta völ.

Tökum Ghawar sem dæmi. Fyrstu árin var nægur þrýstingur í holunum og olían flæddi viðstöðulaust upp á yfirborðið. Seinna var byrjað að dæla vatni inn á útjaðra svæðisins til að viðhalda réttum þrýstingi. Það er viðurkennd aðferð og örugg ef menn gæta hófs. Á milli 1965 og 1975 stökk hins vegar olíuframleiðsla Saudi Arabíu upp um 400% og 1981 náði framleiðsla Ghawar hámarki þegar 5,8 milljón tunnum var daglega dælt upp. Þessi gríðarlega framleiðsla krafðist þrýstings sem aftur kallaði á meira vatnsmagn en lindirnar gátu borið. Vatn sem átti að lyfta olíunni að yfirborðinu braust víða í gegn og hættan á að heilu svæðin féllu saman var veruleg. Verkfræðingar byrjuðu að skrúfa fyrir kranana til að gefa Ghawar hvíld og á tímabili 1985 er talið að framleiðslan hafi farið niður í milljón tunnur á dag. Dagframleiðslan að Ghawar er nú talin vera yfir 4 milljónir fata á dag.

Það þarf enginn að halda að Saudi Arabía léki rússneska rúllettu á þennan hátt ef ónýttar olíulundir væru fyrir hendi.

Framhald …