vald.org

Endalok olíualdar … framhald

16. júlí 2005 | Jóhannes Björn

Nærri því öll olíuframleiðsla Saudi Arabíu kemur frá risalindum sem fundust fyrir 40–60 árum. Síðan þá hafa 80–90 hlutfallslega máttlausar olíulindir komið í leitirnar og þær geta á engan hátt leyst þær gömlu af hólmi. Olíuframleiðsla landsins er mjög líklega annað hvort í hámarki þessa dagana eða þegar byrjuð að dvína.

Í Twilight of the Desert—sem hugsanlega er mikilvægasta bók seinni áratuga um hagkerfi jarðarinnar—bendir Simmons á að í framtíðaráætlunum Saudi Aramco sé lögð höfuðáhersla á að kreista enn meiri olíu út úr risalindunum, sem er taktísk viðurkenning á að í engin önnur hús sé að venda. Ekkert drepur olíulind hraðar og skilur eftir meiri ónýtta olíu í jörðu en offramleiðsla. Þetta skilja allir verkfræðingar sem sérhæfa sig í olíu, enda liggja helsærðar olíulindir tvist og bast út um allan heim.

Risaolíulindin Samotlor í Rússlandi þjónar sem ágætt dæmi. Fyrir 1980 gaf hún 1,5 milljónir fata á dag og verkfræðingar á staðnum grátbáðu yfirvöld um að auka ekki framleiðsluna. En möppudýrin í Moskvu vildu nýta sér hátt heimsmarkaðsverð og 1983 var framleiðslan skrúfuð upp í 3,5 milljónir fata í stuttan tíma. Vatnsausturinn sem hélt þessum aukna þrýstingi gangandi byrjaði brátt að segja til sín og holur sem hefðu getað dælt olíu í áratugi byrjuðu að falla saman. Árið 1999 var dagsframleiðslan komin niður í 300 þúsund föt (tunnur).

Saudi Aramco er stærsta olíufélag heims og notar alla nýjustu tækni sem er fyrir hendi í þessum iðnaði. Það eru einmitt nýjustu aðferðir við boranir, eins og þverboranir eða láréttar boranir, sem hafa gert fyrirtækinu kleift að dæla olíu úr holrúmum sem urðu eftir í fyrstu umferð borana í risalindunum. Ekkert olíufélag á fullkomnari tæki til að finna nýjar olíulindir. Frávik aðdráttarafls, breytilegt segulsvið og bergmál í jörðu—allt er mælt og ofurtölvur reikna út upplýsingarnar. Flugvélar mynda hvern þumlung lands og jarðfræðingar spá síðan í myndirnar. Þannig er búið að leita í marga áratugi með tugmilljarða kostnaði en engar stórar lindir finnast.

Á meðan Saudi Aramco var stjórnað af fjórum bandarískum olíufélögum þá voru gefnar út árlegar skýrslur um olíuforða Saudi Arabíu og tölurnar voru brotnar niður þannig að framleiðsla og áætlaður olíuforði hverrar lindar fyrir sig kom greinilega fram. Eftir að Saudi Arabía tók við stjórn Aramco þá var hætt að birta tölur um framleiðslu einstakra linda og þessar upplýsingar hafa verið leyndarmál í yfir 20 ár. Tölur um olíu í jörðu í Saudi Arabíu litu þannig út á meðan bandarísku olíufélögin urðu samkvæmt lögum að gefa hluthöfum sínum slíkar upplýsingar.

Ár Tunnur (milljarðar)
1970 146
1973 149
1974 116
1976 133
1977 100

Eins og við sjáum þá rokka þessar tölur talsvert upp og niður. Þetta stafar ekki af því að menn hafi bara verið að giska út í loftið eða ekki vitað hvað þeir voru að gera. Reiknilíkönin sem voru notuð voru þau bestu sem til voru á þessum tíma og þau tóku vatn ekki síður en olíu með í reikninginn. Olíuforði lindar er nefnilega það magn sem endanlega næst úr jörðu, ekki heildarmagn olíu sem liggur í jörðinni og það sem liggur þar áfram eftir að vinnslu lýkur. Sem dæmi, árið 1976 var olíuforði Ghawar metinn á 63 milljarða, en 1977 fór víða að bera á vatni í borholunum og það varð sífellt erfiðara að stilla þrýstinginn. Þess vegna lækkuðu verkfræðingar Aramco olíuforða Ghawar (olíu sem endanlega væri hægt að nálgast) um 18 milljarða fata niður í 45 milljarða.

Eftir að hætt var að gera grein fyrir framleiðslu einstakra olíulinda og allir þættir framleiðslunnar urðu ríkisleyndarmál, þá skeði óvænt kraftaverk. Olíuforðinn í jörðinni byrjaði að aukast hröðum skerfum. Þrátt fyrir að engar nýjar risalindir kæmu í leitirnar þá byrjaði olían á einhvern óskiljanlegan máta að þenjast út.

Ár Tunnur (milljarðar)
1979 150
1982 160
1988 260

Leikhús fáránleikans hefur síðan haldið áfram því síðan 1988 hefur Saudi Arabía dælt 46 milljörðum fata upp úr jörðinni … en tölur um olíu í jörðu hljóða enn upp á 260 milljarða! Þetta er olíuforðinn sem á næstu árum á eftir að bjarga mannkyninu frá efnahagshruni.