vald.org

Endalok olíualdar … framhald

20. júlí 2005 | Jóhannes Björn

Margir sérfræðingar í olíubransanum telja að olíuverðið æði upp í $100–$200 fatið á því augnabliki sem spákaupmenn eru sannfærðir um að framleiðslan geti ekki lengur að fullu mætt eftirspurn. Það eitt að óvissuþátturinn hverfur þýðir $100 og síðan bætist ofan á það sú augljósa staðreynd að bilið á milli framboðs og eftirspurnar á aðeins eftir að þróast í eina átt.

OPEC ríkin hafa aldrei gefið umheiminum mjög áreiðanlegar upplýsingar um framleiðslugetu eða olíuforða í jörðu. Þetta er ekkert óeðlilegt í samtökum þar sem aðildarríkin hafa áratugum saman bitist um framleiðslukvóta. Þau ríki sem framleiða hraðast og eiga mestar byrgðir í jörðu fá að sjálfsögðu stærsta kvótann. Því reyna allir að blása sig út eins og mögulegt er.

Saudi Arabía hefur líka fleiri ástæður til þess að sýna sitt besta andlit. Pólitísk áhrif landsins eru algjörlega undir olíu komin og væntingum um miklu meiri olíu í framtíðinni. Örlítill hópur manna á svo til öll auðæfi landsins, en fólkið er beinlínis fátækt og tekjur á hvern einstakling eru 50% lægri en í fátækustu ríkjum OECD. Atvinnuleysi er allt að 25%. Stór hluti vandans kemur til vegna ótrúlegrar fólksfjölgunar sem ekkert virðist hægja á sér, en 1970 var íbúafjöldinn sex milljónir og stökk í 22 milljónir árið 2000 (þar af voru yfir 5 milljónir útlendinga). Ástand innanlandsmála er eldfimt og ekki víst að valdaklíkan héldi velli ef það spyrðist út að olíuframleiðslan væri á undanhaldi.

Eftir hryðjuverkin 11. september veiktist pólitísk staða Saudi Arabíu verulega og landið hóf mikla auglýsingaherferð á Vesturlöndum. Einn liður hennar fólst í að bjóða helstu viðskiptavinum Saudi Aramco til landsins til að sjá herlegheitin. Eftir á að hyggja þá voru þetta mikil mistök því reyndir fagmenn láta ekki alltaf glepjast af fagurgala og tölvugrafík sem sýnir endalausa olíu streyma upp á yfirborðið. Það var einmitt á slíkum kynningarfundi 2003 sem Matthew Simmons gerðist efasemdamaður.

Paul Roberts, sem á síðasta ári skrifaði bókina The End of Oil, var annar sérfræðingur sem glataði trúnni: "Ég stóð á sandskafli í Saudi Arabíu … þegar ég glataði trúnni á nútíma orkuhagkerfi," skrifaði hann. Það sem fékk Roberts til þess að snúa baki við orkuhagkerfi sem hann hafði stutt í áratugi var þó ekki olía—heldur vatn—eða öllu heldur sú staðreynd að olían sem dælt er úr stærstu olíulind heims, Ghawar, inniheldur 30% vatn. Það er hættulega hátt hlutfall sem sannar að Gnawar, sem ber ábyrgð á helmingi olíuframleiðslu landsins, er komin af léttasta skeiði.

Hvenær verður eftirspurn eftir olíu meiri en framleiðslugetan? Allt bendir til þess að það sé að gerast þessa stundina eða að það gerist á næstu 36 mánuðum. T. Boone Pickens, sem hefur hálfa öld að baki í olíuviðskiptum, sagði nýlega:

"Olíuframleiðsla heimsins er 84 milljón tunnur [á dag]. Ég reikna ekki með að við getum náð í meira en 84 milljón tunnur. Mér er alveg sama hvað Abdullah, Putin eða nokkur annar segir um olíuforða eða framleiðslu. Ég held að stærstu olíulindir heimsins séu á undanhaldi, og ég veit hvernig það er þegar hlutirnir snúast við og þær byrja að þverra. Það er stigmylla sem þú aldrei heldur í við."

Ein svartasta olíuspá seinni ára kom frá manni sem í dag virðist (alla vega á yfirborðinu) vera sallarólegur yfir stöðu mála—Dick Cheney—en það var 1999 þegar hann var enn stjórnarformaður Halliburton. Í ávarpi sem hann flutti á olíuráðsetefnu í London sagði hann orðrétt:

"Samkvæmt sumu mati þá á eftirspurn eftir olíu á næstu árum eftir að aukast að meðaltali um 2%, en á sama tíma, varlega ályktað, á framleiðsla starfandi olíulinda eftir að dragast saman um 3%. Það þýðir að árið 2010 þurfum við aukalega 50 milljónir fata á dag."

John C. Herold Inc.—fyrirtæki sem vann það sér til frægðar að spá fyrir um endalok Enron á undan öllum öðrum—spáir því að sjö stærstu olíufyrirtæki heimsins (hlutafélög) byrji að framleiða minni olíu innan 48 mánaða. Við skulum hafa í huga að hagspár gera ráð fyrir að notkun olíu fari úr 84 milljónum fata í dag í 120 milljónir árið 2020.

Olíufélögin viðurkenna aldrei olíuskort fyrr en yfir lýkur. Slíkar yfirlýsingar keyra hlutabréfin strax niður úr öllu og því er best að halda sér saman eins lengi og hægt er. En við getum þó myndað okkur einhverja skoðun á atburðarásinni með því að fylgjast með því sem olíufyrirtækin eru að gera. Nýleg grein í M.I.T. Technology Review (M.I.T. í Boston er almennt talinn fremsti vísindaháskóli heims) segir:

Ef athafnir—fremur en orð—helstu þátttakenda í olíuviðskiptum eru besti mælikvarðinn á hvernig þeir sjá framtíðina þá hugleiðið eftirfarandi. Hráolíuverð hefur tvöfaldast síðan 2001, en olíufyrirtækin hafa aukið fjárframlög sín til að finna nýjar olíulindir um smáaura. Á sama hátt eru olíuhreinsunarstöðvar í Bandaríkjunum nærri fullnýttar, en samt hefur engin ný stöð verið reist síðan 1976. Og olíuskip eru fullbókuð, en gömlum skipum er lagt hraðar en ný eru smíðuð.

Einn bensínlítri jafngildir 125 klukkustunda vinnu með berum höndum. Út um allan heim sitja stálbeljur fastar í umferð og sóa jafnvirði billjóna klukkustunda vinnu. Oft situr einn manngarmur í þriggja tonna ferlíki á leið út í sjoppu. Hvað höfum við gert?