vald.org

Hvað gerist næst?

1. ágúst 2005 | Jóhannes Björn

Það eru vaxandi líkur á að nýtt tímabil þverrandi orku sé rétt handan við hornið. Ef það reynist rétt þá breytist hagkerfi heimsins hratt og það verður mjög ólíkt því sem við höfum átt að venjast síðustu áratugi. Um leið og olíuspákaupmenn slá því föstu að hámarksframleiðslu sé náð þá stórhækkar verð á allri orku. Þegar olíutunnan nær þeim áfanga að seljast á $200 … þá byrjar haustið 1929 að líta út eins og spássitúr á sólríkum sumardegi.

Þegar kreppan mikla hófst 1929 voru peningar gulltryggðir. Þessir peningar héldu því verðgildi sínu sjálfkrafa—og gott betur. Í dag er hins vegar búið að þenja út skuldablöðru sem er eins og keðjubréf. Þetta er í eðli sínu pýramídi sem hrynur um leið og veikasti hlekkurinn brestur. Bæði peningaseðlar og þorri hlutabréfa breytast í ösku þegar skuldakerfið fellur saman. Eins og Sir Martin Rees bendir á í bókinni Our Final Century:

Innan fárra ára stöndum við andspænis "Endalokum fyrri helmings olíualdar." Þetta tímabil entist í 150 ár og gerði iðnaði, samgöngum, landbúnaði og loks fólksfjölda kleift að vaxa í hlutfalli við framboð olíu. Þetta skapaði líka ógrynni fjármuna, sem síðan ungaði út hagfræði er stjórnar og hagræðir peningum.

Það virðist sem þetta kerfi hafi búið til peninga úr engu í formi vaxta af lánum sem bankinn bjó til án þess þó að eiga samsvarandi upphæð í innistæðum. Þetta kerfi kallaði á sífellt fleiri lán, sem síðan á einhvern hátt sköpuðu sitt eigið veð í vaxandi hagkerfi. Með öðrum orðum, til að geta gengið upp þá krafðist kerfið hagvaxtar sem aftur var gerður mögulegur með orkuflóði sem byggðist á olíu.

Morgunn seinni helmings olíualdar er að renna upp. Hann einkennist af dvínandi framleiðslu á olíu og öllu sem henni tilheyrir, þar með talið er peningakerfið, sem er mikilvægast. Það er sjálfgefið að þegar framleiðslan byrjar að dvína þá mun það grafa undan stoðum hagkerfisins og það gæti því hrunið löngu áður en olían klárast eða alvarlegur skortur verður á henni.

Við sjáum nú þegar hversu tæpt málin virðast standa á olíumörkuðunum. Það þarf ekki nema einn fellibyl eða bruna á svæði þar sem nokkrir borpallar standa til þess að hækka heimsmarkaðsverðið strax. Þetta hlýtur að koma mönnum sem telja að olíuverðið sé þegar allt of hátt mjög einkennilega fyrir sjónir. Samkvæmt öllum eðlilegum lögmálum hagfræðinnar þá virðist ljóst að það er mjótt bil á milli eftirspurnar og framleiðslugetu. Menn liggja ekki eins og ormur á gulli á vörutegund sem hefur þrefaldast í verði á stuttum tíma.

Ef við gleymum gróusögum sem ganga á Netinu um að vondir menn haldi til baka nýrri orkutækni, þá eru tveir möguleikar í stöðunni: 1) Eftirspurn eftir olíu—á einhverjum punkti á næstu 36 mánuðum, eftir því sem best verður séð—verður svo greinilega komin fram úr framleiðslugetunni að enginn getur lengur efast um hvert stefnir og spákaupmenn keyra orkuverðið upp úr öllu; eða (2) efnahagslægð gengur fljótlega yfir og eftirspurn eftir olíu dregst tímabundið saman með tilheyrandi gálgafresti. Það hljómar auðvitað annarlega að tala um efnahagslægð sem gálgafrest, en þegar olíutunnan fer í $200 þá rennur blóð um strætin.

Þeir sem lesa helstu viðskiptablöð eða horfa á sjónvarpstöðvar sem sérhæfa sig í fjárfestingamálum hafa undanfarið séð halarófu hagfræðinga og annarra sérfræðinga spá blómaskeiði á Wall Street. Þetta er auðvitað sama fólkið (eins og t.d. Abby Cohen hjá Goldman Sachs) sem prédikaði "nýtt" hagkerfi rétt fyrir hrunið árið 2000. Sannleikurinn er hins vegar sá að heimsvæðingin er að kaffæra hagkerfi Vesturlanda og sápukúla á fasteignamarkaði er það eina sem heldur batteríunu gangandi. Tölurnar tala sínu máli og lögmálin eru alltaf þau sömu. Það eina sem breytist er tíminn sem það tekur fyrir hagkerfið að hrista af sér heimskulegar fjárfestingar og sápukúlur.

Ofangreindar tölur sýna glöggt að bandaríska þjóðarskútan sigldi aldrei út úr síðustu efnahagslægð, sem byrjaði þegar hlutabréfasápukúlan sprakk árið 2000. Neikvæðir vextir seðlabankans í kjölfarið urðu til þess að ný sápukúla myndaðist á fasteignamarkaði. Milljónir fengu tímabundin störf við að selja hús eða byggja ný og fylla af dóti. Fólk sem þegar átti húsnæði sá það hækka í verði og tók ný lán út á eignirnar. Þetta kemur greinilega fram í peningamagni í umferð (M3) sem rauk upp um 55% frá júní 1999 til júní 2005, en verðbólgan var ekki nema 17%. Sögubækur eiga eftir að tala um Alan Greenspan sem seðlabankastjórann sem hoppaði frá einni sápukúlu yfir á aðra!

Önnur störf sem verða til í kringum rauðglóðandi fasteignamarkað—fyrir utan þau sem beinlínis tengjast því að byggja hús eða selja—virðast frekar vera í lægri kantinum. San Diego í Kaliforníu er einn "heitasti" markaðurinn í Ameríku þessa stundina og húsnæðisverð þar hefur tvöfaldast á aðeins nokkrum árum. Á meðan 15.000 ný þjónustustörf (þjónar, kokkar, leigubílstjórar o.s.frv.) sáu dagsins ljós þá bættu hótelin (stór atvinnurekandi í þessari sólskinsparadís) aðeins við sig 800 nýjum starfsmönnum. Þetta sýnir að það eru borgarbúar sjálfir sem eru að borða meira úti og skemmta sér á annan máta. Tekjur borgarbúa hafa ekkert hækkað umfram verðbólgu síðustu ára; ef eitthvað þá hefur tvöfaldur bensínkostnaður dregið úr kaupmætti. Fólkið er að skemmta sér fyrir fasteignagróðann … eða það sem virðist í augnablikinu vera fasteignagróði.

Eins og einn ágætur maður sagði: "Upplýst fólk er alltaf undrandi á sápukúlum. Þær geta haldið áfram að stækka alveg ótrúlega lengi og þær springa líka oftast með miklu meira offorsi en nokkur hafði reiknað með." Þrátt fyrir kórsönginn á Wall Street um nýtt tímabil verðmeiri hlutabréfa og blómlegan hagvöxt þá hvísla tölurnar allt öðru. Allt bendir til þess að dollarinn sé á suðurleið. Þegar olíutoppinum er náð verður ekki hægt að skríða undir marga steina. Fyrirtæki sem eiga kolafjöll eða aðra orku verða besta fjárfestingin (ekki samt stóru olíufélögin sem hrynja í verði). Góðmálmar verða líka alltaf góð trygging.