vald.org

Fuglaflensa

10. ágúst 2005 | Jóhannes Björn

Í síðasta mánuði veiktust 68 einstaklingar í nokkrum þorpum í Sichuan héraði í Kína af dularfullum sjúkdómi. Aðeins 27 lifðu þetta af þannig að dánartíðnin var 63%. Sjúkdómseinkennin voru hár hiti, lungnabólga, uppköst, slappleiki, meðvitundarleysi og marflekkir undir húð. Opinber fréttastofa landsins sagði keðjukokk (Streptococcus suis) hafa herjað á fólkið. Óstaðfestar fréttir herma að nú hafi hátt í 200 manns smitast og dánartíðnin sé um 74%.

Fyrir utan þá staðreynd að opinber fréttastofa Kína tekur við beinum skipunum frá stjórnvöldum, þá eru aðallega tvær ástæður fyrir því af hverju við ættum að taka á þessum upplýsingum með töngum. Keðjukokkur er baktería sem myndast í svínum og hefur aldrei verið neitt stórvandamál eða faraldur. Síðan bakterían var greind er ekki vitað um meira en 150 tilfelli í öllum heiminum þar sem fólk hefur sýkst. http://www.hpa.org.uk/infections/topics_az/zoonoses/strep_suis/menu.htm Í öðru lagi þá er það líka í hæsta máta óvenjulegt að bakteríusýking dreifi sér eins og vírus yfir stórt svæði og drepi 63% fórnarlamba sinna. Keðjukokkur í fólki getur valdið hita, gigt, mengisbólgu og heyrnarleysi—þetta er enginn Svartidauði. http://www.merckvetmanual.com/mvm/index.jsp?cfile=htm/bc/53801.htm

Fyrir nokkrum árum, þegar SARS faraldur byrjaði í Kína, reyndu stjórnvöld að fela þá staðreynd fyrir umheiminum. Við höfum því fulla ástæðu til þess að vera á varðbergi og spyrja hvort H5N1 vírusinn hefur þegar breytt sér eða blandast vægari vírus í Kína og fuglaflensan þar sé byrjuð að berast á milli fólks. Þegar 63% sjúklinga deyr og blæðingar undir húð eru með í pakkanum, þá er eins gott að skoða málið betur.

Í frægu bréfi sem læknir við hersjúkrahús í Boston skrifaði 29. september 1918 (birt í British Medical Journal 22. desember 1979) er spænsku veikinni lýst á ekki ósvipaðan hátt og dularfulla sjúkdóminum í Sichuan héraði. Menn voru lagðir inn með háan hita, misstu meðvitund, fengu lungnaólgu og hátt hlutfall þeirra dó úr veikinni. Tveim tímum eftir að þeir voru lagðir inn mynduðust marblettir á kinnbeinum, sem síðan breiddust út um allt andlitið—"þar til erfitt var að greina þeldökkan mann frá hvítum"—en þessu ber mjög saman við lýsingu sem dr. Þórður Thoroddsen gaf og skráð er í Ísland í aldanna rás (bls. 150). Þórður segir þar að líkin hafi verið helblá. Svartidauði lýsti sér á svipaðan hátt með húðblæðingum og líkin voru helblá eða allt að því svört.

Stjórnvöld í Kína hafa lengstum litið á smitsjúkdóma sem ríkisleyndarmál og þegar fréttastöð á Netinu http://www.boxun.com birti frétt í apríl um fugladauða í Qinghai af völdum H5N1 þá voru 17 af 19 fréttamönnum Boxun handteknir. Mánuði seinna viðurkenndu stjórnvöld loks dauða 8000 fugla, en þögðu þunnu hljóði yfir örlögum 127 einstaklinga sem fréttaritarar Boxun fullyrtu að hefðu líka smitast af fuglaflensu. Þá hefur opinber fréttastofa landsins ekki sagt orð um fuglaflensufarald sem heimamenn hafa staðfest í bæði Shantou og Yunnan. Í stuttu máli þá neitar Kína að viðurkenna að einn einasti maður í landinu hafi smitast af fuglaflensu þótt veikin hafi drepið 57 manns í nágrannaríkjunum.

Í júlí birti vísindaritið Nature niðurstöður rannsókna á erfðamengi H5N1 vírusa sem voru tekir úr fuglum sem sýktust á þessu ári í Guangdong, Hunan og Yunnan. Viðbrögð stjórnvalda í Kína voru eins og við var að búast. Þau ásökuðu dr. Guan Yi, vísindamann við háskólann í Hong Kong, um að stela ríkisleyndarmálum og hótuðu honum öllu illu. Yfirvöld eru e.t.v. á nálum vegna þess að einstaklingar í borginni Ziyang hafa verið að látast úr fuglaflensu og næsti alþjóðlegi flugvöllurinn er aðeins í 250 km fjarlægð (í borginni Chengdu).

Í Kína geta menn farið í fangelsi fyrir að taka svona mynd. Þúsundir fugla liggja dauðir eða eru í andaslitrunum. H5N1 vandamálið í Kína er margfalt verra en yfirvöld viðurkenna.

Drepsóttir eru misjafnlega mannskæðar og Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) hefur ítrekað varað við að eins slík sé á næstu grösum. Þessa stundina (svo sannað sé) gerist það aðeins örsjaldan að H5N1 sýkilinn berst frá fuglum til manna, en þegar veiran nær að breyta sér þannig að fólk byrji að smita hvert annað þá er fjandinn laus. Lófaklapp vegna nýrra bóluefna er alls ekki tímabært vegna þess að enginn veit hvernig endanleg útgáfa H5N1 á eftir að vera samansett. Það er nú þegar töluverður munur á erfðamengi sýkilsins sem herjar á Suðaustur-Asíu og útgáfunnar sem nýlega hélt innreið sína í Rússland. Þegar H5N1 síðan gengur í eina sæng með öðrum flensuvírus þá er hætt við að leitin að bóluefni verði að byrja upp á nýtt.

Það er óþolandi á tuttugustu og fyrstu öldinni að láta eitt ríki komast upp með að leyna upplýsingum um sýkingu sem hugsanlega gæti verið upphaf drepsóttar sem síðan breiðist út um allan heim. Nýlegar hugmyndir sem hafa komið fram um að hægt sé að halda drepsótt á borð við spænsku veikina í skefjum og innan ákveðinna svæða eru vægast sagt hæpnar. Það þarf ekki nema einn smitbera í 300 manna flugi frá t.d. Hong Kong til London. Farþegar á þeirri leið gætu verið í áframhaldandi flugi til 10–20 borga í Evrópu. Búið spil.