vald.org

Fuglaflensa … framhald

20. ágúst 2005 | Jóhannes Björn

Drepsótt á borð við spænsku veikina virðist allt að því óumflýjanleg og sennilega eiga sögubækur eftir kalla þessa "kínversku pláguna" eða hliðstæðu nafni. Þegar stórhættulegur vírus eins og H5N1 nær að þróast þá verður að kæfa hann strax í fæðingu. En kínversk yfirvöld drógu lappirnar og því er vírusinn þessa stundina í heimsreisu, falinn í holdi og blóði farfugla. Framferði Kínverja í þessu máli er forkastanlegt.

Þessi nýjasta sýking—einn fuglafræðingur lýsir henni sem "útbreiddustu og banvænustu fuglaflensu er menn hafa séð í villtum fuglum"—byrjaði í lok apríl á lítilli eyju sem er staðsett á Qinghai stöðuvatninu í vesturhluta Kína. Gæsir byrjuðu að fá krampa, veikin breiddist út um allt vatnið og þúsundir fugla lágu brátt í valnum. Stuttu seinna byrjuðu fuglar í suðurhluta Kína að drepast á svipaðan hátt, en yfirvöld gerðu allt sem þau gátu til þess að halda því leyndu.

Dr. Yi Guan, sem í mörg ár hefur stjórnað hópi vísindamanna sem rannsaka fuglavírusa, kvartaði í júlí yfir sinnuleysi Kínverja í viðtali við breska blaðið Guardian:

"Þeir hafa gert sama og ekki neitt til þess að hafa stjórn á þessum faraldri. Þeir hefðu átt að falast eftir hjálp erlendis frá. Þessir fuglar fara til Indlands og Bangladesh og þeir munu blandast fuglum frá Evrópu."

http://www.guardian.co.uk/international/story/0,,1522729,00.html

Þótt yfirvöld í Kína hafi staðið hjá frosin á meðan H5N1 fór úr böndunum, þá höfðu þau nóga orku til þess að ráðast á vísindamenn sem höfðu áhyggjur af ástandinu. Rannsóknarstofu dr. Yi Guan við Shantou háskólann var t.d. lokað og hótanir um málssókn lágu í loftinu í þessu landi sem lítur á fuglaflensu sem ríkisleyndarmál. Möppudýr landbúnaðarráðuneytisins taka nú við rannsóknum sem sjálfstæðari hópar stunduðu áður.

Eins og þetta kort sýnir þá er fuglaflensan komin á ferðalag sem enginn getur lengur stöðvað.

Fuglaflensan hefur nú þegar drepið fólk í Víetnam, sýkt svín í Indónesíu, drepið gæsir í Mongólíu og endur í Síberíu. Á hverju hausti hefja farfuglar sig til flugs frá Síberíu og halda til Suður-Evrópu, Kanada og Alaska. Annar hópur er þessa dagana að byrja ferðalag frá vesturhluta Kína til Indlands og þaðan til Ástralíu. Yfir 100 þúsundundir fugla hafa þegar fallið í Rússlandi http://en.rian.ru/russia/20050817/41175461.html Þessi landfræðilega útbreiðsla ásamt fjöldi tegunda sem hefur smitast af H5N1 tryggir nær fullkomlega að vírusinn á eftir að breyta sér þannig að hann getur gengið á milli fólks. Sérfræðingar á vegum WHO og tímaritið Science segja núna að möguleikar á farsótt séu 100%.

Þriðji heimurinn stendur algjörlega berskjaldaður og er ófær um að taka á móti flensu sem líkist þeirri sem gekk yfir heiminn 1918. Mannfall á jörðinni gæti því hæglega farið yfir 500 milljónir í næstu drepsótt. Ef vírusinn veikist ekki töluvert við breytinguna sem gerir honum kleift að berast meðal fólks, þá gæti þessi tala orðið miklu hærri. http://www.foreignaffairs.org/20050701faessay84401/laurie-garrett/the-next-pandemic.html

Mörg þróuð ríki eru búin að sanka að sér sýklalyfjum sem eiga eftir að hjálpa mikið. En hugmyndir um að nýtt bóluefni eigi eftir að bjarga öllu eru annað hvort loftkastalar eða tilraun til þess að hughreysta fólk. Jákvæðar niðurstöður tilrauna í byrjun ágúst sanna alls ekki að umrætt bóluefni eigi eftir að vinna á móti vírus sem ekki er enn fullmótaður og enginn veit hvernig verður nákvæmlega samansettur. Það tekur líka marga mánuði bara að undirbúa framleiðslu á þessu bóluefni og takmarkað framboð á frjóvguðum eggjum gerir framleiðsluna óþægilega hæga. Dr. Michael Osterholm, yfirmaður smitsjúkdómadeildar háskólans í Minnesota, útskýrir hvernig málin velkjast í sambandi við bóluefni og lyf sem hugsanlega sporna við væntanlegum fuglaflensufaraldri hjá fólki:

"Fólk einfaldlega skilur þetta ekki. Ef við hæfum nýtt verkefni í dag sem væri eitthvað í líkingu við Manhattan-áætlunina [atómsprengjuverkefnið fræga] til þess að auka framleiðslu bóluefna og lyfja, þá mundum við ekki árum saman hafa mælanleg áhrif á framboðsmagn þessara mikilvægu efna svo hægt væri að takast á við heimsfaraldur."