vald.org

Nýhægristefnan á banasæng

9. september 2005 | Jóhannes Björn

Hörmungarnar í kjölfar fellibylsins Katrínar hafa dregið alla veikleika nýhægristefnunnar fram í dagsljósið og það er alls óvíst að hún lifi þetta af. Ótrúleg stéttaskipting, félagslegt óréttlæti, ógnvekjandi skuldir í hagkerfinu og stríðsbrölt í útlöndum eru allt í einu miklu raunverulegri vandamál en þau voru fyrir aðeins nokkrum dögum. Miklar breytingar liggja í loftinu.

Það hefur alltaf verið mikil stéttaskipting í Bandaríkjunum, en nýhægristefnan hefur markvisst aukið hana til muna. Nýhægrimenn eru líka markvisst byrjaðir að höggva niður miðstéttina. Kaup 85% þjóðarinnar hefur verið að lækka s.l. fjögur ár (hækkað minna en verðbólgan) á meðan kaup forstjóra hefur ætt upp um 200%. Ríkasta fólk landsins er ekki aðeins að hækka í tekjum, það borgar líka miklu minni skatta en það gerði fyrir valdatöku Bush.

Flestir sem yfirgáfu ekki New Orleans áður en fellibylurinn gekk yfir voru fátæklingar. Margir voru með minna en $700 í mánaðartekjur og áttu því engan bíl eða gátu greitt fyrir hótelherbergi neins staðar. Sjúklingar og gamalmenni urðu líka eftir. Jafnvel ef allt þetta fólk hefði kosið að fara þá átti borgin ekki rútur eða önnur farartæki til þess að flytja það í burtu. Vandamálið risti miklu dýpra og sýndi forgangsröð stjórnvalda.

Bláfátækt ríki, Kúba, flutti 1,5 milljónir einstaklinga á öruggan stað þegar svipaður fellibylur gekk yfir eyjuna fyrir ári síðan. Ekki einn einasti einstaklingur dó. Læknar voru tilbúnir með öll lyf sem fólkið þurfti og nægar vatns- og matarbyrgðir voru á staðnum. Það tók pólitískan og félagslegan vilja til þess að vinna undirbúningstarf af þessari stærðargráðu—nokkuð sem alveg vantaði í New Orleans—og það er algjör óþarfi blanda því í umræðuna, eins og sumir hafa gert, að Kastró sé einræðisherra og hafi þess vegna getað gert þetta. Flest þróuð ríki mundu bregðast nákvæmlega eins við fyrirsjáanlegum náttúruhamförum. Nýhægristefnan vill hins vegar eins litla samhjálp og mögulegt er.

"Frelsið er á faraldsfæti." Nýhægrimenn telja sig lítt bundna af alþjóðlegum samþykktum og trúa á fyrirbyggjandi stríð. Þegar náttúruhamfarir ganga yfir svæði í Bandaríkjunum þá eru sveitir heimavarnarliðsins kallaðar út, en í þessu tilfelli var yfir þriðjungur þeirra í Írak. Þetta undirstrikar veikleika sem oft hefur verið rætt um. Þjóðin verður brátt að horfast í augu við þá staðreynd að óbreytt stefna í utanríkismálum kallar á herskildu. Það verður erfiður róður því nýhægrimenn, eins og reynslan sýnir, vilja síst allra senda sín eigin afkvæmi í stríð.

Dyggustu stuðningsmenn nýhægristefnunnar vilja ekki fórna sínum eigin peningum og fjármagna aukin hernaðarútgjöld með lánum sem aðrir verða að borga seinna. Viðskiptahallinn er yfir $700 milljarðar á ári og halli ríkissjóðs verður svipaður eða meiri næsta ár. Halli ríkissjóðs minnkaði eitthvað nýlega, en það var tæknileg leiðrétting sem kom til vegna þess að fyrirtæki með erlenda starfsemi höfðu tiltekinn tíma til þess að flytja gróðann heim og borga minni skatta en ella. Uppbyggingin í suðurríkjunum á eftir að bæta um $200 milljörðum við hallarekstur ríkisins á næstu mánuðum. Strúktúr hagkerfisins, sem lýsir sér í krónískum hallarekstri, hefur ekkert breyst. Katarína á líka eftir að kosta óhemju fé á næstu árum og það á eftir að draga athygli manna að þeirri staðreynd að þessi skuldapólitík stenst ekki til lengri tíma. Hallinn í bandaríska hagkerfinu dregur nú þegar til sín um 80% alls sparifé heimsins. Dollarinn fellur sennilega fyrst og síðan stórhækka vextirnir.

Þessi síða spáir því að hlutabréf á helstu mörkuðum heimsins eigi eftir að lækka um 25% eða svo á næstu mánuðum. Þetta gengur auðvitað þvert á það sem halarófa hagfræðinga heldur fram þessa dagana, en grundvallartölurnar ljúga ekki. Bandaríska hagkerfið getur ekki haldið uppi óbreyttri neyslu mikið lengur og vegna þess að 17% alls útflutnings heimsins endar á Bandaríkjamarkaði þá hefur minnkandi neysla þar fyrirsjáanlegar keðjuverkanir. Allir nema hagfræðingar geta heyrt brestina sem eru byrjaðir óma í kerfinu.

New York Times lýsir því í grein 14. júlí 2005 hvernig hlutirnir eru komnir á hvolf í samskiptum kynslóðanna. Gjaldkerar einkaskóla fyrir börn og unglinga hafa veitt því eftirtekt að með hverju árinu sem líður birtast sífellt fleiri afar og ömmur með greiðslur fyrir skólagjöldum. Blaðið ræddi við félagsfræðing sem sagði: "Fyrir 30–40 árum fóru peningarnir upp aldursstigann: þú hjálpaðir öfum og ömmum, þú keyptir hitt og þetta handa þeim, þau jafnvel fluttu inn hjá þér … Nú flæða allir peningarnir í hina áttina."

Tölur um hagvöxt í Bandaríkjunum eru allt að því gagnslausar vegna þess að sápukúla á fasteignamarkaði—ekki raunveruleg verðmætasköpun—hefur haldið dampinum uppi í mörg ár. Framleiðsla á raunverulegum hlutum sem hugsanlega gætu dregið úr viðskiptahallanum dregst saman. General Motors stefnir t.d. í gjaldþrot eftir nokkur ár, en fyrirtækið jók nýlega hjá sér veltuna með því að tapa um $1200 á hverjum bíl sem seldist. Ford og Chrysler seldu líka fleiri bíla á gjafaverði, en þrátt fyrir allt þetta minnkaði salan ekkert hjá japönsku bílaframleiðendunum þótt þeir gæfu engan afslátt. Það segir allt um framtíðina.

Þetta línurit sýnir glöggt hvert stefnir.

Ljósbláa strikið sýnir fjölda starfsmanna í fasteignasölu, talan er vinstra megin og margfaldast með 1000. Dökkblá strikið sýnir fjölda verksmiðjufólks, talan er hægra megin og margfaldast með 1000. Verksmiðjustörf (Ford, Intel og allt þar á milli) borga miklu betur en t.d. þjónustustörf og fólk sem vinnur þau störf hefur yfir höfuð miklu betri tryggingar).

Samkvæmt Economic Policy Institute hefur aukin eyðsla til hermála skapað 1,3 milljónir starfa s.l. fjögur ár. Þá hafa skattalækkanir, sem eru $225 milljarðar bara á þessu ári, skapað einhver störf.

Allt sem hér hefur verið talið upp eru auknar skuldir og sápukúlupeningar. Þetta getur einfaldlega ekki gengið mikið lengur. Fellibylurinn í suðurríkjunum hefur sennilega sprengt sápukúlumarkaðinn í Flórída og þá fylgja önnur sápukúlusvæði með í kjölfarið. Í Kaliforníu, sem dæmi, þá er ástandið orðið svo fáránlegt að ekki nema 18% fólksins hefur nægar tekjur til þess að kaupa húsnæði. Það tekur markaðinn 10 ár að jafna sig eftir þetta brjálæði.

Nýhægristefnan stendur berrössuð á öllum vígstöðvum.