vald.org

Kínverska martröðin

22. september 2005 | Jóhannes Björn

Viðurstyggðin sem viðgengst í kínverskum fangelsum virðist taumlaus. Þúsundir fanga eru dæmdir til dauða á hverju ári, oft fyrir hlægilega litla glæpi eða óvinsælar skoðanir, og líffærin úr þeim eru seld. Nýjasta söluvaran sem kemur frá þessu gúlagi er kollagen sem er unnið úr húð myrtra fanga. Konur á Vesturlöndum eru sennilega byrjaðar að bera þenna ófögnuð á andlitið á sér.

Blaðamanni breska blaðsins Guardian í Hong Kong var tjáð af sölumanni kínversks fyrirtækis að þessi vörutegund væri seld til Evrópu og Bandaríkjanna í gegnum Hong Kong. Húð fanga sem búið er að flá er svo ódýr að Kínverjar geta framleitt kollagen fyrir 5% af því verði sem viðgengst á Vesturlöndum. Framleiðslukostnaðurinn var þó minni fyrir nokkrum árum áður en dómarar fóru að heimta sína sneið af kökunni! Næsta söluvara Kínverja, sagði sölumaðurinn, verða fyllingarefni í húðkrem sem eru unnin úr fóstrum sem hefur verið eytt. http://www.guardian.co.uk/uk_news/story/0,,1568467,00.html

Kollagen er aðalstuðningspróteinið í húð, sinum og stoðvef. Það er gerir húðina sléttari og varir blómlegri. Það er þó alls ekki víst að framleiðsluaðferðir Kínverja séu öruggar og sporni nægilega gegn smithættu. Bresk heilbrigðisyfirvöld telja að afbrigði Creutzfeldt-Jakob sjúkdómsins geti leynst í kollagen sem er unnið úr húð fólks [Variant Creutzfeldt-Jakob disease eða vCJD].

Bæði Búddismi og siðfræði Konfúsíusar leggja áherslu á að ekki skuli krukkað í líkamann eftir dauðann og því er það ákaflega sjaldgæft að Kínverjar gefi úr sér líffæri. En sala á líffærum er mjög arðvænleg og hersjúkrahús í Kína byrjuðu að búta í sundur fanga í stórum stíl fyrir tuttugu árum [það er prentvilla í fyrrnefndri grein í Guardian að reglugerð um þetta hafi verið gefin út í Kína 1994; það átti að standa 1984]. Þegar maður birtist í fangaklefanum til að taka blóðprufu þá veit fórnarlambið að biðin verður ekki mikið lengri. Þegar kemur að sprautunni með blóðþynningarefninu þá veit fanginn að það eru aðeins nokkrar mínútur eftir. Síðast kemur skot í hnakkann og læknar byrja að skera á fullu áður en hjartað hefur stöðvast.

"Dreptu hænuna til þess að hræða apana," segir gamalt kínverskt málæki, og það er nákvæmlega aðferðin sem yfirvöld nota við dauðarefsingar. Þúsundir einstaklinga eru dæmdir til dauða á hverju ári fyrir litla glæpi gagngert til þess að hræða aðra glæpamenn. Að meðaltali 12 voru drepnir á dag sagði Amnesty International 1996.

Wang Guoqi var læknir á hersjúkrahúsi í Kína áður en hann flutti til Bandaríkjanna. Í júní 2001 gaf hann þingnefnd (House Committee on International Relations) hroðalega lýsingu á hvernig þessi líffæra-bisness gengur fyrir sig. Á árabilinu 1989 til 1995 húðfletti hann persónulega yfir 100 fanga. "Ummálsskurður var gerður í kringum úlnliði, ökkla—og axlaliði," sagði Wang Guoqi í upphafi nákvæmrar lýsingar á húðflettingu sem tekur um 20 mínútur og skilur eftir sig "viðbjóðslegan vöðvahaug, blóðæðar sem enn blæðir úr og opið kviðarhol." Hann sagðist hafa hætt eftir að hafa séð nýru fjarlægð úr manni sem hafði verið skotinn með einni kúlu en andaði enn.

"On Death Row, China´s Source of Transplants," hét einstaklega átakanleg grein sem birtist í New York Times 18. október 2001. Líffærasalan gengur öll út á græða peninga. Hersjúkrahús ráða markaðinum vegna náins samstarfs við réttarkerfið og borga smáaura fyrir hvern fanga. Endalaus straumur líffæra—nýru, lifur, lungu o.s.frv.—tryggir lítilli klíku milljarða gróða. Sem dæmi þá voru yfir 5000 nýru grædd í fólk í Kína árið 2000. Innfæddir borguðu 350.000 kr. fyrir hverja aðgerð en útlendingar 600.000–1.800.000 kr. Ættingjum fanga er haldið í burtu og þeim er ekki tilkynnt um aftökurnar fyrr en búið er að brenna líkin. Í þau fáu skipti sem ættingjar frétta eftir einhverjum leiðum að aftaka standi fyrir dyrum þá minnir atburðarásin oft á svæsnustu hryllingsmyndir.

Þegar Zhao Wei og Wan Qichao voru skotnir þá frétti fjölskylduvinur, Lu De’an, af því og hraðaði sér á staðinn á mótorhjóli. Það var rétt nýbúið að skjóta fangana þegar hann kom á staðinn. Annað líkið var borið inn í sjúkrabíl en hitt inn í hvítan flutningabíl. Hvítur pappír var límdur yfir númeraplötur beggja bíla. Það var líka búið að líma fyrir alla glugga flutningabílsins (nema bílstjórans) og það var ekki heldur hægt að sjá inn í bakhlið sjúkrabílsins. Lu gat hins vegar ekið upp að hlið sjúkrabílsins og kíkt aftur í hann í gegnum bílstjórarúðuna. Þar sá hann bæði konur og karla með gúmmíhanska gramsandi í líkinu. Einn "læknirinn" var ber að mittisstað og svitinn bogaði af honum. Þegar verkinu var lokið komu ruslapokar fljúgandi út úr bílnum. Þegar Lu seinna skoðaði innihald þeirra komu m.a. í ljós glærir plastpokar merktir "geymsluvökvi fyrir nýru."