vald.org

Fuglaflensa … framhald

9. október 2005 | Jóhannes Björn

Fuglaflensan er á hraðferð um heiminn. Austur-Evrópa og Tyrkland eru nýjustu viðkomustaðirnir og sýktir farfuglar eru á leið til Alaska og Ástralíu. Spurningin um hvort ný drepsótt á borð við þá sem drap 50 milljónir 1918 sé í uppsiglingu gerist æ áleitnari. Það er kannski kominn tími fyrir einstaklinga að búa sig undir þessi ósköp.

H5N1 vírusinn sá dagsins ljós árið 1997 og það er í sjálfu sér óvenjulegt að veira af þessu tagi skuli ekki hafa fjarað út á átta árum. En H5N1 hefur ekki aðeins haldið áfram að breiðast út um heiminn, heldur hefur sýklinum tekist að hoppa á milli tegunda og meira að segja drepið ketti sem í flestum tilfellum eru ónæmir fyrir fuglaflensu. Það er ekki vitað hvernig fuglaflensan 1918 þróaðist í meiri háttar drepsótt, sem útilokar ekki að H5N1 sé að þróast á svipuðum nótum. Dr. David Nabarro, hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) í Genf var ekki bjartsýnn í nýlegu viðtali við blaðamenn þegar hann sagði: "Ég er nærri því viss um að drepsótt er á næsta leiti." http://www.businessweek.com/investor/content/oct2005/pi2005110_4988_pi015.htm

Árið 1918 var heilsukerfi flestra landa miklu frumstæðari en það er í dag. Flensa leiddi t.d. oft til lungnabólgu sem þá var virkilega banvænn sjúkdómur. Mikill fjöldi ungra manna var líka hálfpartinn dæmdur til dauða þegar herinn pakkað þeim á skip eða í lestarklefa og sendi á vígstöðvarnar í heimstyrjöldinni fyrri. En nútímaþjóðfélag hefur ekki forskot á öllum sviðum því við búum miklu þéttar og flugsamgöngur allt að því tryggja að bráðsmitandi H5N1 nær til svo til allra heimshorna á stuttum tíma.

Dr. Grattan Woodson, sem starfar við David Oaks Health Center í Bandaríkjunum http://www.fluwikie.com/index.php?n=Consequences.PandemicPreparednessGuides gefur hagnýt ráð um hvernig einstaklingar geta brugðist við fuglaflensu og stórbætt möguleikana á því að lifa af þessa drepsótt.

Vonandi hverfur H5N1 áður en stökkbreyting á sér stað. En ef drepsótt gengur yfir þá kostar það bæði litla peninga og fyrirhöfn að verja sig betur gegn henni.