vald.org

Blaðrandi höfuð … framhald

16. október 2005 | Jóhannes Björn

Þrátt fyrir endalaust blaður hagfræðinga um vænan hagvöxt og bjarta framtíð, þá leikur varla nokkur vafi á að hlutabréf eiga á næstunni eftir að falla verulega út um allan heim. Þetta er aðeins spurning um tíma. En þá ber líka að hafa í huga að ekkert þvælist meira fyrir jafnvel snjöllustu peningamönnum en nákvæm tímasetning á hvenær hjörðin áttar sig á staðreyndum lífsins og selur í stórum stíl. Þannig hefur það alltaf verið.

Bandaríkjamaðurinn Warren Buffet er einn snjallasti peningamaður samtímans. Á árabilinu 1997 til 2000—þegar verð hlutabréfa flestra fyrirtækja æddi upp—þá sat hann á milljörðum dollara sem hann gat ekki fest í neinu nema ríkisskuldabréfum og öðrum íhaldsömum pappírum. Þegar hann skoðaði ársreikninga fyrirtækja þá voru þau yfirleitt allt of dýr. Og þegar "sérfræðingar" sögðu honum að "nýtt hagkerfi" væri gengið í garð og gömlu reglurnar um hlutfall gróða og gangverðs hlutabréfa væru ekki lengur í gildi, þá hristi Buffet bara höfuðið. "Gamli maðurinn skilur ekki nýja hagkerfið," sögðu sérfræðingarnir sorgmæddir á svip.

Heil kynslóð verðbréfabraskara varð gjaldþrota þegar sápukúlan sprakk árið 2000 en Warren Buffet blómstraði. Hann gerði betur en flestir aðrir vegna þess að hann hélt sig við staðreyndir og skoðaði stóru myndina. Það eru ákveðin lögmál í gangi sem enginn getur breytt, en alls konar aðgerðir þeirra sem halda í mikilvæga spotta og einkennilegar hugmyndir fólks geta frestað dómsdegi alveg ótrúlega lengi.

Það er hægt að lesa góða lýsingu á þessu tímavandamáli í einni skemmtilegustu bók allra tíma um kauphallarviðskipti, Reminiscences of a Stock Operator, skráð af Edwin Lefévre 1923! Þar er rakinn ferill Jesse Livermore, en hann var þjóðsagnarpersóna meðal kauphéðna í New York. http://www.amazon.com/gp/product/0471059706/103-3698648-9323839?v=glance&n=283155&s=books&v=glance Eftir jarðskjálftann ógurlega í San Francisco 1906 var ljóst að markaðurinn fengi að finna fyrir því og Livermore veðjaði stórum upphæðum á lækkandi gengi hlutabréfa. En fólkið hélt áfram að hlusta á fagurgala "sérfræðinga" bankanna og keypti fleiri hlutabréf, markaðurinn hækkaði og Livermore varð nærri því gjaldþrota. Hann lærði lexíu sem á við á öllum tímum: Það má aldrei veðja í kauphöllinni á meðan maður horfir á atburðarásina í gegnum sjónauka. Atburðarásin sýnist þá miklu nær en hún raunverulega er. Maður veit kannski með nokkuð öruggri vissu að skuldadagarnir nálgast, en aldrei nákvæmlega hvenær.

Eins og þessi síða hefur oft bent á þá er einsýnt að almenn lífskjör á mikilvægasta markaði heimsins, Bandaríkjunum, eru að hrapa. Síðan 2000 hefur botnlaus skuldasöfnun haldið öllu í horfinu en sá brunnur er brátt ausinn. Eins og þetta línurit sýnir þá eru skuldir þjóðarbúsins konar í sögulegt hámark eða um 300% af þjóðartekjum.

Það sem hefur verið að gerast hér er að á meðan heimsvæðingin flytur framleiðslu á raunverulegum hlutum í burtu, þá skapar bankakerfið pappírsauð. Allt of lágir vextir hafa hækkað verð fasteigna allt of mikið. Fólk slær út á húsin og eyðir peningunum í hluti sem sýna hagvöxt. En þar er ekki til nein eilífðarvél sem pumpar út endalausum peningum. Pappírsauður er ekki til í raunveruleikanum. Ef það er ekki verið að skapa raunveruleg verðmæti í takt við útgáfu pappírsverðmæta, þá er aðeins verið að byggja loftkastala sem á endanum alltaf hrynur. Það sem hingað til hefur haldið þessu gangandi er:

Margt bendir til þess að þetta fyrirkomulag sé farið að gefa sig. Fasteignaverð er farið að staðna og hækkandi vextir eiga eftir að keyra verðið niður á sumum stöðum. Verð á gulli hækkar mikið sem bendir til þess að dollarinn byrji brátt að falla. Verðbólgan hækkaði meira í september en hún hafði gert í 25 ár.

Kannski segja gjaldþrotin okkur líka eitthvað um hvað liggur fram undan. Allir vissu að breytingar Bush á gjaldþrotalögunum (sem auðvitað eru bönkum og greiðslukortafyrirtækjum í hag) yrðu til þess að fleiri myndu lýsa yfir gjaldþroti áður en þau taka gildi, en fáir áttu von á holskeflunni sem reið yfir.