vald.org

Hrunadans

21. nóvember 2005 | Jóhannes Björn

Þrátt fyrir hækkandi verðlag á mörgum mörkuðum og hlutfallslega sterka stöðu dollarans í augnablikinu, þá má merkja ákveðinn óróleika eða jafnvel hræðslu rétt undir yfirborðinu. Það er ekkert skrýtið í ljósi þess ískyggilega ójafnvægis sem hagkerfi heimsins býr við.

Á óvissutímum kaupir fólk oft gull eða aðra áþreifanlega hluti og gullið hefur einmitt verið að stórhækka í verði undanfarið. En það er mikilvægt í þessu samhengi að gera sér grein fyrir hvers konar viðskipti með gull eiga sér stað þessa dagana, því ef um hreina spákaupmennsku væri að ræða þá hefði það ósköp litla þýðingu fyrir framtíðina. Í grein á þessari síðu 23. mars 2004 var sérstaklega fjallað um þetta atriði:

En það eru margar aðferðir sem koma til greina þegar menn kaupa gull og sumar benda til meiri ótta en aðrar. Það er hægt að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum sem grafa eftir gulli. Það er líka hægt að kaupa skjal sem segir að einstaklingurinn eigir ákveðið gullmagn hjá banka eða hliðstæðri stofnun—og þannig kaupa flestir gull nú á dögum. En sumir sem kaupa gull vilja fá það afhent og geyma það svo í öruggri geymslu eins og t.d. bankahólfi. Þetta er fólkið sem "hræðslustigið" mælir. Þetta er kallað "hræðslustig" vegna þess að hagfræðingar hafa tekið eftir því að þegar óvenju margir einstaklingar krefjast þess að fá raunverulegt gull í hendurnar í staðin fyrir ávísun á það, þá er oft stutt í efnahagslegt hrun af einhverju tagi.

http://www.vald.org/greinar/040323.htm

Á þriðja ársfjórðungi 2005 jókst sala á beinhörðu gulli um hvorki meira né minna en 66% miðað við sama ársfjórðung fyrra ár. Það mælir mikla hræðslu við eitthvað—sennilega verðbólgu eða verbréfahrun.

Það eru þrjár tifandi tímasprengjur í hagkerfinu:

Eins og nafnið bendir til þá versla baktryggingasjóðir mest með pappíra—svokallaðar afleiður—sem eru tryggðir með einhverjum verðmætum. Þetta eru oft mjög flókin viðskipti en einfalt og raunverulegt dæmi lítur svona út: Þú átt $10 milljóna skuld hjá General Motors sem á að borgast eftir fimm ár (þú keyptir t.d. skuldabréf sem fyrirtækið gefur út). Vegna þess að GM gæti hugsanlega verið gjaldþrota eftir fimm ár þá ákveður þú að tryggja þetta lán hjá baktryggingafyrirtæki. Fyrir tíu dögum hefði þessi trygging kostað þig eina milljón dollara. Í dag kostar þessi sama trygging (vegna yfirvofandi hruns Delphi sem tengist GM) $2,38 milljónir auk $500.000 á ári í fjögur ár. Eins og sagt var á þessari síðu 25. apríl s.l. þá riðar GM til falls og markaðurinn virðist núna vera á sama máli. http://www.vald.org/greinar/050425.htm

Það er vitað að skuldir upp á $12,4 billjónir (amerískar trilljónir) eru tryggðar á þennan hátt með afleiðum og það er vitað um afleiður upp á $270 billjónir, samkvæmt nýrri skýrslu frá Bank for International Settlements, http://news.ft.com/cms/s/f974790e-5790-11da-b7ea-00000e25118c,ft_acl=,s01=2.html En baktryggingasjóðir eru ekki undir neinu verulegu eftirliti þannig að þessar upphæðir eru örugglega miklu hærri. Hættan er nákvæmlega þessi: Ef fyrirtæki eins og t.d. GM rúllar á hausinn miklu hraðar en menn áttu von á þá hrynur allt kerfið eins og spilaborg.

Baktryggingasjóðir búa líka til fjármagn til að braska með, t.d. með því að selja hluti sem sjóðirnir ekki eiga (short selling). Allir geta selt hlutabréf, gull og gjaldmiðla sem þeir ekki eiga í dag með loforði um að borga seinna, svo lengi sem lánstraust er fyrir hendi. Þetta geta verið arðsöm viðskipti … þangað til eitthvað óvænt gerist. Hagkerfi sem byggir mest á eyðslu og skuldasöfnun Bandaríkjamanna og offramleiðslu Kínverja býður svo sannarlega upp á að eitthvað óvænt gerist.

Raunverulega er kerfið hrunið—fjárfestar hafa bara ekki tekið eftir því. Kaup almennings í Bandaríkjunum hækkar hægar en það hefur gert síðan 1981 og það heldur ekki í við verðbólgustigið. Kaupið er því að lækka. Verðbólgan er líka á uppleið á sama tíma og 85% fólksins getur ekki knúið fram hærri laun. Kaupið lækkar því hraðar en fyrr. Sparnaður er kominn niður fyrir núllið. Hækkandi fasteignaverð hefur haldið hagkerfinu gangandi í nokkur ár, en sú vertíð er búin. Upphitunarkostnaður og heilsutryggingar eru að stórhækka. Gjaldþrotum fjölgar. http://www.sfgate.com/cgi-bin/article.cgi?f=/c/a/2005/10/25/BUGC0FDGT61.DTL&feed=rss.business Enginn getur bent á einhverja jákvæða þróun sem kemur til með að bjarga hagkerfinu. Er hnattvæðingin ekki dásamleg!

Hagkerfi sem reynir að skapa ríkidæmi með seðlaprentun frekar en framleiðslu á raunverulegum hlutum eða þjónustu rennur fyrr eða síðar á rassinn. Með hliðsjón af skuldasöfnuninni þá sjáum við þetta greinilega á eftirfarandi línuritum.

Fyrra grafið sýnir peningamagn í umferð, M3, sem sýnir alla peninga og innistæður í bönkum. Seinna grafið sýnir hvernig fasteignaverðið eltir peningamagn í umferð. Þetta eru ekki raunveruleg verðmæti, aðeins meiri skuldir í hagkerfinu. Það er búið að flytja svo mikið af raunverulegri framleiðslu úr landi að til þess að halda þessu kerfi gangandi, þá hefur þurft að auka greiðsluhallann við útlönd upp í $700 milljarða á ári. Þá eru ríkisskuldirnar komnar í 8 billjónir og þær fara stigvaxandi á næstu árum.

Baktryggingasjóðirnir mala síðan gull á allri skuldasúpunni. En þegar búið er að spenna bogann á þennan máta þá er hætt við að eitthvað gefi eftir og spilaborgin hrynji. Þetta er hrunadans.