vald.org

Hrunadans … framhald

28. nóvember 2005 | Jóhannes Björn

Það voru tvær merkilegar greinar í New Yorks Times í gær um ákveðinn hrunadans sem stiginn er í bandaríska hagkerfinu. Skuldadansinn. Önnur greinin fjallar um aukið fjárstreymi til baktryggingasjóða (Hedge Funds), fyrirtækja sem velta billjónum í tilbúnum pappírsverðmætum, hin um hugsanlegt hrun vegna vaxandi skulda heimilanna.

Eins og fyrri greinin segir, þá eru stjórnendur lífeyrissjóða í vanda staddir. Þeir sitja á miklum peningafúlgum sem erfitt er að ávaxta af einhverju viti. Vextir hafa verið lágir og hlutabréfamarkaðurinn hefur lengi hjakkað í svipuðu fari. Vonin um betri rentur hefur því í vaxandi mæli rekið lífeyrissjóðina á náðir baktryggingasjóða. Fyrir tíu árum námu þessar fjárfestingar $5 milljörðum, en árið 2008 er reiknað með að þær verði komnar í $800 milljarða.

Það er almennt talið að baktryggingasjóðir geti grætt meira en hefðbundnari fjárfestar vegna þess að nær engar reglugerðir ná yfir þá. Sjóðirnir þurfa ekki að óttast banka- eða verðbréfaeftirlit og þeir geta því braskað hratt á hinum ýmsu mörkuðum eða nýtt sér frávik á milli markaða. Hendur hefðbundnari fjármálastofnana eru oft bundnar af reglugerðum sem leyfa ekki að ákveðnum viðskiptum sé blandað saman. En áður en við lýsum því yfir að þetta eftirlitsleysi hljóti því að vera betra, þá skulum við muna að flestar reglur sem hafa verið settar um hlutabréfa- og bankaviðskipti sáu dagsins ljós eftir að eitthvað hroðalegt hafði áður gerst. Hvað baktryggingasjóði varðar, þá á sagan eftir að endurtaka sig og strangar reglur um starfsemi þeirra verða settar eftir að einn eða fleiri sjóðir hrynja með hrikalegum afleiðingum.

Gretchen Morgenson hjá New York Times er frábær blaðakona sem ber af flestum er skrifa um viðskipti. Eftir skuldaveisluna kemur brjóstsviðinn, heitir grein sem hún skrifaði í gær http://select.nytimes.com/2005/11/27/business/27gret.html?pagewanted=all þar sem fjallað er um skuldir heimilanna og hættuna á meiri háttar kreppu. Tölurnar eru ekki glæsilegar:

Það sem hefur gert þessa eyðslu umfram tekjur mögulega er hækkandi fasteignaverð, sápukúla sem er rétt í þann mund að springa.

Fasteignabraskið hefur haft ómetanlega þýðingu fyrir afkomu bankakerfisins í Bandaríkjunum. Fyrir 10 árum var tekjuhlutfall bankanna af húsnæðislánum 48%, en nú er þetta hlutfall rokið upp í 61,7%. Það er ljóst að samdráttur á fasteignamarkaði á eftir að koma sér sérstaklega illa fyrir bankakerfið. Eins og Grettchen Morgenson segir í lok greinarinnar, þá á það kannski fljótlega eftir að renna upp fyrir fólki að þótt eignirnar rýrni í verði þá lækka skuldirnar ekki neitt.