vald.org

Hnattvæðingin—In memoriam

17. desember 2005 | Jóhannes Björn

Sennilega verða þáttaskil árið 2006 þegar meirihluti Vesturlandabúa loks skilur að hnattvæðingin í sinni núverandi mynd er skaðleg. Það er nefnilega að renna upp fyrir sífellt fleirum að það er markvisst verið að ganga á lífskjör almennings á Vesturlöndum á meðan lítil klíka sópar til sín auðæfum. Á sama tíma er verið að kaffæra jörðina í mengun frá Kína og öðrum láglaunasvæðum.

Nýlega kom út 77 bls. skýrsla um kínverska efnahagsundrið. http://www.workersvoiceatwto.org/www/pdf/WhoseMiracleChinaReport.pdf Þarna kemur m.a. fram að 700 milljónir einstaklinga í landinu verða að skrimta af tekjum sem eru undir $2 á dag. Við sjáum hvernig kerfið er uppsett. Örfáir einstaklingar tróna á toppnum og vaða í peningum. Þetta er fólkið sem er að kaupa íbúðir á meginlandi Kína sem kosta yfir 10 milljónir dollara stykkið. Fyrir neðan yfirstéttina er hlutfallslega lítil millistétt fagmanna og eigenda minni fyrirtækja. Þetta er eini jákvæði punkturinn og tæknimönnum fer vissulega fjölgandi. Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna lepur síðan dauðan úr skel og vinnur myrkrana á milli fyrir sama og engu kaupi. Framboð vinnuafls er svo mikið að þótt öll störf í Bandaríkjunum og Evrópu væru flutt til Kína þá væri enn mælanlegt atvinnuleysi út á landsbyggðinni.

Framtíðarsýn einræðisherranna í Kína miðast einmitt við að hafa botnlausan aðgang að hræódýru vinnuafli og efla tæknimenntun á sama tíma. Á þennan hátt er hægt að byggja upp heilar atvinnugreinar með miklu minni kostnaði en gengur og gerist annars staðar í heiminum. Samkeppnisaðstaðan batnar enn frekar, alla vega til skamms tíma, þegar öllum er leyft að hleypa ómældri mengun út í umhverfið.

"Vinnandi fólk í Bandaríkjunum getur keppt við alla ef leikreglurnar eru sanngjarnar," tyggja stjórnmálamenn þar í landi stöðugt. Einræðisherrarnir í Kína hljóta að taka bakföll af hlátri í hvert skipti sem þeir heyra þetta innihaldslausa hjal. Þeir láta ekki 200 ára gamlar hagfræðikenningar þvælast fyrir sér heldur handstýra öllu kerfinu og byggja markvisst upp nýja framleiðslugreinar. Þeir eru á góðri leið með að einoka fata- og húsgagnaiðnað heimsins og eru þegar orðnir stærsti útflytjandi veraldar á hátæknivörum. http://msnbc.msn.com/id/10440734/ Næsta efnahagsbomba sem fellur verður þegar Kínverjar byrja að flytja út bíla. Þeir ætla nefnilega ekki að fylgja fordæmi Kóreu, sem byrjaði bílaframleiðsluna með lélegum en ódýrum bílum, heldur verða kínversku bílarnir hundódýrir og koma "með öllu."

Það eru raunverulega mörg ár síðan hnattvæðingin borðaði börnin sín, en lágir vextir á Vesturlöndum hafa blindað almenning með því að skapa gerviverðmæti á fasteignamarkaði. Þetta línurit segir t.d. alla söguna um bandaríska hagkerfið:

Bláu súlurnar sýna hagvöxt eins og hann er tilkynntur. Rauðu súlurnar sýna aftur á móti að þegar dregnir eru frá peningar sem fólk hefur slegið út á húsin sín þá hefur enginn hagvöxtur verið í fimm ár!

Nú kann einhver að segja að húsnæði fólks tilheyri auð landsins og það sé fáránlegt að aðskilja þessa hluti. Það er rétt ef raunveruleg lífskjör fólksins hækka í takt við fasteignaverðið. Lóðir í Reykjavík voru t.d. miklu dýrari 1960 en 1940 (hækkuðu hraðar en verðbólgan) vegna þess að íbúar borgarinnar voru miklu ríkari. Laun þorra fólks í Bandaríkjunum hafa hins vegar frekar verið að lækka síðustu fimm árin þannig að stórhækkandi fasteignaverð er ekkert nema froða—sápukúla sem er að springa. http://www.sacbee.com/content/homes/re_news/story/13981746p-14815406c.html Aðeins hrikaleg skuldasöfnun heldur neyslustigunu uppi. Sparnaður er kominn niður fyrir núllið og á þriðja ársfjórungi 2005 bættu heimilin á sig $530 milljarða skuldum. Í íslenskum krónum eru það yfir 450,000 á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Við erum að tala um þriggja mánaða tímabil.

Arkitektar hnattvæðingarinnar réðust fyrst á garðinn þar sem hann var lægstur. Tímafrek framleiðsla unnin af láglaunafólki fór fyrst og í mörgum tilfellum mátti réttlæta þessar tilfærslur. En hugmyndin var aldrei að láta þar staðar numið og nú er hátæknin líka á förum. Klíkan sem græðir mest á hnattvæðingunni hefur stöðugt hamrað á þeirri hugmynd að þegar ein atvinnugrein hverfur þá hljóti önnur betri að skjóta upp kollinum. Eins og málin horfa við í dag þá er þetta hreint bull. Árið 2003 útskrifuðust 60.000 tækni- og verkfræðingar í Bandaríkjunum, en Kínverjar útskrifuðu 700.000!

Það eru tvær tæknibyltingar í uppsiglingu, líftækni og örtækni (nano-tech). Kínverjar eru byrjaðir að moka peningum í líftæknifyrirtæki og það kostar þá ekki nema 10% af því verði sem samkeppnin í Ameríku og Evrópu þarf að borga fyrir sambærilegar stofnanir. Einræðisherrarnir stýra síðan hæfilegum fjölda einstaklinga inn á þetta svið í gegnum háskólana. Örtæknin á eftir að koma inn á alla þætti framleiðslunnar (fatnaður sem "hugsar", gífurlega sterk efni, örsmáir róbótar o.s.frv.) og mesti uppgangur í örtækni verður því eðlilega þar sem framleiðslan er staðsett. Í Asíu.

Líf- og örtækni flokkast undir grundvallarvísindi—vísindi sem skapa hluti er nærri því allir nota. Þetta gerist sjaldnar en margir halda og það gerir alla spádóma um framtíðina auðveldari ef maður skoðar þróunina nokkur hundruð ár aftur í tímann.

1710+ Gufuvél
1770 Gufuvél Watt
1790 Gasljós
1800 Rafhlaða
1810 Gufuskip
1820 Rafsegull—Ljósmyndir
1830 Rafmótor—Ritsími—Járnbrautarlest—Plast
1850 Stálvinnsla (Bessemer)
1860 Ritsími
1870 Rafall—Rafljós—Hljóðnemi—Sími
1880 Plötuspilari
1890 Bíll—Kvikmynd—Útvarp—Röntgen—Segulband
1900 Flugvél
1920 Sjónvarp
1940 Tölvur—Radar—Transistor—Kjarnorka
1950 Leysir—Gervitungl

Síðan 1960 höfum við tölvunetið, líftækni og upphaf örtækni. Grundvallartækni er raunar af skornum skammti og það er því óþarfi að trúa staðhæfingum baktjaldamanna um að það komi alltaf "eitthvað nýtt" til sjalanna þegar heilu atvinnugreinarnar eru sendar úr landi.