vald.org

Er pólitík í tísku?

30. desember 2005 | Jóhannes Björn

Draumaverksmiðjan Hollywood hefur í nokkur ár verið nokkurs konar martröð. Síðan The Pianist vann Óskarinn 2002 hefur varla verið framleidd ærleg mynd og flestar virðast vera gerðar með byssuóða krakka í huga. En nú hafa þau miklu undur gerst að sex nýjar bíómyndir eru nógu góðar til að verðskulda Óskarsverðlaunin.

Það sem gerir þessa holskeflu stórmynda enn merkilegri er að fjórar eru rammpólitískar. Þetta hefur ekki gerst síðan fólk var að æsa sig upp yfir stríðinu í Víetnam og bendir til þess að pólitík sé aftur komin í tísku. Ykkar einlægur telur eftirtaldar sex kvikmyndir þær bestu sem hafa séð dagsins ljós í mörg ár:

Syriana. Stephen Gaghan, sem skrifaði stórmyndina Traffic á sýnum tíma, skrifar og leikstýrir þessari mynd sem fjallar um veröld olíuviðskipta, leynimakks og hryðjuverka. Líkt og í Traffic þá eru margar sögur í gangi á sama tíma og varla hægt að tala um nokkra aðalleikara. George Clooney er þó pottþéttur og Christopher Plummer er óborganlegur í litlu hlutverki baktjaldamakkara. Það er ekki alltaf auðvelt að átta sig á hvað er að gerast þegar atburðarásin berst á milli landa, en allt smellur fagmannlega saman áður en yfir lýkur. Stórpólitískt meistaraverk.

Munich. Eftir að 11 íþróttamenn frá Ísrael voru myrtir á Ólympíuleikunum 1972 ákvað ríkisstjórn Ísrael að hefna sín. Steven Spielberg leikstýrir mynd um þessi hermdarmorð og spurningar sem vakna um hvort réttir aðilar voru drepnir. Þá eru líka bollaleggingar—sem hafa komið illa við suma nýhægrimenn—um hvernig hægt sé að stöðva þessa endalausu atburðarás morða og hermdarmorða. Þetta er engin venjuleg Spielberg kvikmynd og minnir miklu meira á bestu myndir Alfred Hitchcock. Öll tæknivinna er fullkomin og tímabilið er endurskapað eins fagmannlega og hægt er að ímynda sér.

The Constant Gardner. Augnayndi filmað að mestu í Afríku. Ralph Fiennes leikur frábærlega í þessari mynd sem fjallar um siðleysi lyfjafyrirtækja og spillt stjórnvöld sem fórna þegnum sínum fyrir skyndigróða.

Good Night, and Good Luck. Hér er George Clooney aftur á ferðinni en hann bæði leikstýrir og leikur í þessari mynd um fréttamanninn Edward R. Murrow sem háði stríð við kommaveiðarann Joseph McCarthy. Frábær vinnubrögð og fróðleg mynd um atburði sem að sumu leyti eru að endurtaka sig.

Match Point. Woody Allen er upprisinn! Fyrir mörgum áratugum leikstýrði hann fyndnum ádeilum á borð við Bananas og Sleeper, en síðan kom endalaus runa af misjafnlega uppskrúfuðum naflaskoðunum. Match Point er ekki lík nokkurri annarri kvikmynd Woody Allen og langbesta alvarlega mynd hans. Það er erfitt að hætta að hugsa um þessa mynd eftir að tjaldið fellur og það læðist jafnvel að manni grunur um að leikstjórinn sé að játa á sig vissar syndir sem hann komst upp með (var Mia Farrow að segja satt?).

Brokeback Mountain. Þessi kvikmynd á e.t.v. eftir að hafa svipaða félagslega þýðingu fyrir homma og Guess Who´s Coming to Dinner hafði fyrir svertingja 1967. John Wayne er líklega búinn að snúa sér mörgum sinnum í gröfinni því myndin er um tvo kúreka (báðir karlkyns) sem elskast og hafa tíðar samfarir í gegnum árin. En allt er þetta smekklega sett á svið, mótsagnir í lífi kúrekanna eru skoðaðar af yfirvegun og víðátta náttúrunnar undirstrikar stöðugt félagslega einangrun þeirra.

Við skulum vona að nýtt tímabil betri bíómynda sé runnið upp og þessi holskefla gæðaframleiðslu sé ekki tilviljun. Framleiðendur í Hollywood eru kannski búnir að átta sig á að hugsandi fólk kaupir líka bíómiða.