vald.org

Heilagur Greenspan

14. janúar 2006 | Jóhannes Björn

Nýjasta tölublað The Economist kemur dálítið á óvart með vangaveltum sínum um hugsanlega kreppu eða einhvers konar hrun í bandaríska hagkerfinu. Þetta gengur þvert á spádóma flestra hagfræðinga—þeir hafa verið að spá 3–4 % hagvexti fyrir 2006—en er alveg í takt við það sem vald.org hefur verið að segja í langan tíma.

Heilagur Greenspan lætur brátt af störfum og innsti hringur peningavaldsins syngur honum lof sem minnir helst á útför konungs eða páfa. Það er rétt að milljarðamæringar hafa grætt ómælt fé í tíð Greenspan, en frá sjónarhóli fólksins þá er hann versti seðlabankastjóri landsins frá upphafi. The Economist gengur svo langt að segja að hann skilji eftir sig "mesta efnahagslegt ójafnvægi í sögu Bandaríkjanna."

Því hefur áður verið spáð á þessari síðu að sögubækur eigi eftir að minnast Greenspan sem bankastjórans sem hoppaði frá einni sápukúlu yfir á þá næstu. Hann gengur líka frá borði á tíma þegar allt virðist skrölta sæmilega áfram en stefnir samt óðfluga að hengifluginu. Arftaki hans ræður ekki yfir neinum nýjum sápukúluvopnum sem hægt er að koma auga á og hann er því fyrirfram dauðadæmdur í starfi.

Bandarískir bankamenn af "gamla skólanum" flokkuðu það undir hættuástand þegar mánaðargreiðslur einstaklinga af húsnæðislánum fóru yfir 28% mánaðartekna. Það var þó alltaf eitthvað frávik frá þessari reglu og ekki sama hvort fólk var að kaupa sér húsnæði t.d. í Dallas eða Los Angeles. Þegar litið er til lengri tíma þá er þó engin mælistika nákvæmari en þetta hlutfall á milli tekna og fasteignaverðs þegar við reynum að átta okkur á hvort húsnæði er of dýrt eða ódýrt. Hér er dæmi um hvað gerist á nokkrum árum þegar Greenspan hélt stýrivöxtum allt of lágum.

Hlutfall húsnæðisverðs miðað við tekjur—prósentutala launa sem fer í að greiða niður lán:
  Árið 2000 Árið 2005
New York 25% 38%
Miami 21% 42%
Los Angeles 31% 55%

Greenspan gæti klórað í bakkann og reynt að bjarga mannorðinu með því að benda á tölur um atvinnuleysi og gróða fyrirtækja. Hann gæti sagt: "Jú, skuldir ríkisins eru yfir 8 billjónir, viðskiptahallinn yfir $700 milljarðar á ári, milljónir fasteignaeigenda stefna í gjaldþrot á næstu misserum og laun fólksins halda ekki í við verðbólgu og fara því lækkandi—en atvinnuleysi er aðeins 4,9% og fyrirtækin hafa aldrei grætt meira."

Tölur um atvinnuleysi í Bandaríkjunum eru mældar allt öðruvísi en gengur og gerist í öðrum löndum. Milljónir einstaklinga einfaldlega hverfa út úr myndinni ef þeir fá ekki vinnu eftir ákveðinn tíma og gefast upp á að leita. Í niðursveiflunni árið 2000 duttu t.d. 3,5 milljónir út úr kerfinu og af þessum fjölda höfðu 2,3 milljónir ekki skilað sér til baka í janúar 2006. Þeir sem sitja í fangelsum landsins (nærri 1% þjóðarinnar) og þeir sem afplána skilorðsbundinn dóm eru ekki taldir með. Miðað við önnur lönd er herinn óeðlilega fjölmennur og hann tekur til sín fjölda einstaklinga sem annars væru atvinnulausir. Raunverulegt atvinnuleysi er miklu nær 10% en flesta grunar. Síðan síðustu kreppu (lægð) lauk 2001 hafa einkafyrirtæki aðeins bætt við sig 0,8% mannafla, en við sömu aðstæður í fyrri kreppum var aukningin 8,8% á svipuðum tímapunkti. Lágmarkslaun spila líka inn í þetta dæmi. Ef t.d. Þjóðverjar lækkuðu lægstu laun niður í það sem viðgengst í Bandaríkjunum (um 350 krónur á tímann) þá mundi atvinnuleysi snarlækka.

Það eru aðallega tvær ástæður fyrir vaxandi gróða fyrirtækja, skattalækkanir og hlutfallslega lægri launagreiðslur til fólksins. Skattalækkanirnar eru bæði beinar og tæknilegar. Beinir styrkir koma í formi skattalækkana frá ríkisstjórn sem safnar skuldum hraðar en dæmi eru um í veraldarsögunni og hnattvæðingin gerir stórfyrirtækjum líka kleift að borga minni skatta með því að stofnsetja keðju fyrirtækja á skattlausum svæðum [sjá næstu grein um lífið í paradís skattfríðinda]. Laun fólksins halda ekki í við verðbólguna vegna þess að samningsstaða þess versnar stöðugt. Fyrirtækin taka núna til sín gróðahlutfall sem áður rann til fólksins.

Versti kapítulinn í sögu heilags Greenspan fjallar þó um afskipti af málum sem hann hefur enga heimild til þess að fjalla um. Samkvæmt lögum á seðlabankinn að stunda bankaeftirlit og stilla vexti þannig að hagkerfið blómstri í stöðugu verðlægi. Seðlabankastjóri er ekki þingmaður eða ráðherra og á því ekki að skipta sér af skattastefnu ríkisins eða öðrum félagslegum aðgerðum. Greenspan gaf Bush samt ómetanlegan stuðning við að stórlækka skatta á ríkasta fólki landsins. Fyrst sagði hann við mörg tækifæri að það væri nóg til af peningum til að lækka skatta. Þegar halli ríkisjóðs byrjaði að slá ný met þá snéri Greenspan alls ekki við blaðinu heldur hvatti þingheim til þess að skera niður ellistyrkinn! Engin furða þótt yfirstéttin klappi honum lof í lófa.